07.12.1934
Efri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2078 í B-deild Alþingistíðinda. (3195)

58. mál, Kreppulánasjóður

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég skal ekki vera langorður. Ég vil aðeins taka það fram, að það mun byggt á misskilningi hjá hv. síðasta ræðumanni, að þetta sé ekki annað en afborgun, sem hér um ræðir. Ábyrgðarmönnunum verður fyrst og fremst gefið eftir, og leiðir af sjálfu sér, að bankarnir yrðu að gefa eftir stóran hluta þessara ábyrgðarlána, en ábyrgðarmenn hinn hlutann, jafnframt því sem þetta yrði gert upp. Þetta kemur fram viðvíkjandi ákvæði 1. gr. frv., og virðist því á misskilningi byggt hjá hv. 4. landsk., að bændurnir taki sjálfir þessar skuldir að sér. (JBald: Það er þó samkv. upplýsingum, sem hv. 2. þm. Rang. gaf um þetta atriði). Ég vil stinga upp á því við hv. 2. þm. Rang., að það gildi ekki önnur regla um lánveitingar þessar eða eftirgjafir en þær, sem giltu við eftirgjafir skulda samkv. kreppulánasjóðslögunum, þannig að þeim, sem búa í kaupstöðum, sé haldið utan við, og greinin breytist þá samkv. því, þannig að hún nái yfir þá ábyrgðarmenn, sem landbúnað stunda. Þetta frv. nær að vissu leyti yfir stærri hring en kreppulánasjóðslögin gera ráð fyrir. Aðalatriðið með þeim er að hjálpa þeim bændum, sem stunda landbúnað, og sama á að vera með þessu, en það kemur bændastéttinni lítið til góða, þó gefið sé eftir ábyrgðarmönnum, er búa í kaupstöðum.

Hvað því viðvíkur, að nokkuð sé algengt, að bændur taki að sér ábyrgðarskuldirnar, sem þeir í rauninni eru lausir við, hygg ég, að það séu fremur undantekningar, enda er engin lögmæt krafa fyrir því að innheimta skuldir, sem búið er að gefa eftir. Aftur á móti er ekki hægt að neita því, að þeir ábyrgðarmenn, sem landbúnað stunda, hafa sterka siðferðilega kröfu á hendur þeim mönnum, er stunda sömu atvinnu, en þeir voru í ábyrgð fyrir. Því það atriði kemur hér til athugunar, að þessir menn eru að vissu leyti háðir sömu kringumstæðum og þeir, er lán hafa fengið úr kreppusjóði, og mundi hafa verið látið niður falla, enda er aðalatriðið að bjarga þeim bændum, sem kreppulán hafa fengið, frá því að halda áfram að borga þessi ábyrgðarlán, og bjarga ábyrgðarmönnunum, svo þeir komist ekki í sama fenið. En það er ég hræddur um, að geti komið fyrir, ef framkvæmd laganna verður frv. eins og nú er.

Ég get gengið inn á, að erfitt er að binda það í lögunum, að hjálpin nái ekki yfir stærri hring en kreppulánasjóðslögin ná yfir, en það má athuga þetta nánar fyrir 3. umr. En það er vitanlegt, að margir kaupstaðabúar standa í ábyrgð fyrir bændur.