14.11.1934
Efri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2325 í B-deild Alþingistíðinda. (3201)

49. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég mun ekki tala langt mál um brtt. hv. samgmn. En ég vil þó taka það fram, að ég tel brtt. hennar á þskj. 439 ekki til bóta á nokkurn hátt, hvorki fyrir landssímann eða hlutaðeigandi héraðsbúa. Ég vil því halda mér við brtt. mína eins og hún var samþ. hér við 2. umr.

Að því er snertir brtt. mína á þskj. 376, vil ég taka það fram, að ég skildi samgmn. svo við 2. umr., að henni þætti línan of löng alla leið að Hvammsdal, og myndi því mæla með henni, ef hún næði ekki nema að Staðarhóli. En þessi von mín hefir brugðizt hrapallega. Hringl hv. n. er alveg dæmalaust. Þannig lagði hún við 2. umr. á móti þessari línu vegna þess, að hún kæmi ekki nema einum eða tveimur bæjum að notum. En hvað haldið þið hún geri nú? Nú leggst hún á móti henni sakir þess, að þarna sé svo þéttbýlt, að nauðsynlegt sé fyrir íbúana þarna að fá einkasíma. Hvernig á að vera hægt að samrýma þetta? Annað veifið heldur n. því fram, að þarna geti ekki komið símalína vegna strjálbyggðar, en í hinu orðinu telur hún svo þéttbýlt þarna, að einföld símalína dugi ekki, heldur verði að leggja þarna einkasíma.