07.12.1934
Efri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2080 í B-deild Alþingistíðinda. (3202)

58. mál, Kreppulánasjóður

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Það má líta á það, þegar rætt er um þetta frv., sem ætlast til, að lánstofnanirnar gefi eftir mestan hluta þeirra ábyrgðarskulda, sem hér ræðir um, að ríkið sjálft á allar þessar lánstofnanir. Við skulum segja, að Kreppulánasjóður greiði 250 þús. kr. á móti 750 þús. frá ábyrgðareigendum. Þessar eftirgjafir mundu að næstum öllu leyti lenda á Landsbankanum, Útvegsbankanum og Búnaðarbankanum, sem allir eru ríkisstofnanir. Það er því í rauninni ríkið sjálft, sem gefur upp skuldirnar, gegn því að það sjálft greiði ¼ þeirra.

Ég vil benda á það, að nýbúið er að gera upp lánin í Kreppulánasjóði með tilliti til þess, hvaða ábyrgðarmenn geta borgað. Nú á að pína lánstofnanirnar með nýju skrúfstykki til þess að gefa eftir lán, sem þá voru talin trygg. Verður þó ekki ætlað, að ástandið hafi breytzt mikið síðan í fyrra. Er nú ekki hætt við, að lánstofnanirnar segi, að slík löggjöf sem þessi eigi ekkert erindi nú, þar sem alveg nýbúið sé að ganga frá eftirgjöfum á lánunum?

Hv. flm. sagði, að engu væri á glæ kastað nema lagasetningunni, ef samningar tækjust ekki. En ef búizt er við, að allt standi við sama og áður, eins og mér heyrðist hv. flm. í raun og veru gera, þá er alveg þýðingarlaust að vera að setja slík lög og kasta þeirri fyrirhöfn á glæ.

Annars var það mín skoðun, þegar Kreppulánasjóður var stofnaður, að ríkið ætti ekki á þennan hátt að vera að takast margra millj. byrði á herðar, heldur útvega með lántöku hæfilega upphæð í peningum í einu lagi og greiða með þeim skuldir bænda gegn mjög ríflegum eftirgjöfum, í stað þess að neyða upp á lánardrottna þessum óvinsælu kreppulánasjóðsbréfum, sem öll lenda að lokum í bönkunum. En ég skal ekki fara frekar út í þá sálma hér.

Ég er andvígur frv., sem hér liggur fyrir, af því að ég álít, að eins og nú árar, hafi ríkissjóður ekki ráð á að leggja fram 250 þús. kr. í þessu skyni, né lánstofnanir ríkisins gefa eftir 750 þús. kr. af kröfum sínum.