07.12.1934
Efri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2082 í B-deild Alþingistíðinda. (3204)

58. mál, Kreppulánasjóður

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Okkur hv. 2. þm. Rang. og mig greinir lítið á um þetta frv. Það er þá einkum það, hvort ákvæði 1. gr. nái aðeins til þeirra ábyrgðarmanna, sem landbúnað stunda, eða allra yfirleitt. Ég hallast að hinn fyrra, en eigi að framkvæma lögin þannig, tel ég nauðsyn á, að slíku ákvæði sé bætt inn í greinina skýrum stöfum, og vildi ég æskja þess, að hv. n. vildi taka það til athugunar fyrir næstu umr.

En þótt ég sé sammála hv. flm. um tilgang frv., þá er ég samt hræddur um, að stundum geti þessi lög orðið erfið í framkvæmd og örðugt að ná samningum eftir þeim. Við skulum taka það dæmi, að maður standi í ábyrgð fyrir 16 þús. krónum, en eigi eignir, sem eru 10 þús. kr. virði. Samkv. frv. á nú Kreppulánasjóður að greiða 25%, eða 4000 kr., af þessu og ábyrgðin þar með að falla niður. Ég held, að þetta geti orðið erfitt í framkvæmd, vegna þess að lánstofnanirnar myndu líta svo á, að þar sem maðurinn ætti 10 þús. kr. upp í 16 þús. kr. ábyrgð, þá væri skaði fyrir þær að taka við einum 4000 kr. sem fullnaðarborgun. Ég veit, að hv. flm. hefir gert sér grein fyrir því, að svona gæti staðið á, og vildi því gjarnan heyra álit hans um þetta.