25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2085 í B-deild Alþingistíðinda. (3229)

77. mál, áfengislög

Frsm. (Bergur Jónsson):

Þetta frv. er flutt af allshn. eftir tilmælum hæstv. dómsmrh. Allir hv. nefndarmenn hafa talið rétt að flytja frv., en hafa áskilið sér óskoraðan rétt til þess að fylgja brtt., sem fram kunna að koma, eða bera sjálfir fram brtt. við einstök atriði frv.

Til þess að gera grein fyrir því, hvers vegna frv. þetta er fram borið og undirbúið af hæstv. ríkisstj., vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upphaf grg.:

„Hinn 29. maí 1928 var í sameinuðu Alþingi samþykkt svo hljóðandi þingsályktun með 26:2 atkvæðum:

„Alþingi ályktar að feta ríkisstjórninni að láta fara fram þjóðaratkvæði á þessu ári meðal kjósenda í málefnum sveitar- og bæjarfélaga um það, hvort afnema skuli bann það gegn innflutningi áfengra drykkja, er felst í gildandi áfengislöggjöf“.

Samkvæmt þingsályktun þessari lét ríkisstjórnin fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu fyrsta vetrardag 1933. Greiddu 15884 kjósendur atkvæði með afnámi bannsins, en 11624 á móti. Í tilefni af úrslitum atkvæðagreiðslunnar var á aukaþinginu 1933 samþykkt í sameinuðu Alþingi svo hljóðandi dagskrártillaga með 26:16 atkvæðum:

„Sameinað Alþingi ályktar að lýsa yfir því, að það lítur svo á, að þjóðaratkvgr., sem fór fram 1. vetrardag síðastliðinn, skeri úr um það, að áfengislöggjöf landsins beri að breyta samkv. þeim þjóðarvilja, sem þá kom fram, og í trausti þess, að ríkisstjórnin undirbúi slíka lagasetningu fyrir næsta reglulegt þing, tekur þingið fyrir næsta mál á dagskrá“.

Samkvæmt þannig yfirlýstum þings- og þjóðarvilja hefir verið undirbúin breyting sú á áfengislöggjöfinni, sem felst í frumvarpi þessu. Sökum samninga vorra við Spánverja og afstöðu vorrar gagnvart þeim, hefir ekkert verið hreyft við núgildandi ákvæðum um sölu Spánarvina. Að því er snertir aðalbreytinguna, leyfi til innflutnings og sölu sterkari drykkja en hingað til hefir verið heimilt, skýrir frv. sig sjálft“.

Ég mun ekki fara út í einstakar gr. frv. að svo stöddu. Brtt. eru vitanlega engar fram komnar enn, en þær, sem kunna að koma, mun allshn. að sjálfsögðu telja sér skylt að athuga fyrir 2. umr. málsins.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr.