25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2091 í B-deild Alþingistíðinda. (3231)

77. mál, áfengislög

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég get verið fáorður, þó að ég hafi nokkru að svara. Það, sem ég vil sérstaklega taka fram og alveg sérstaklega, er það, að það, sem hv. þm. Borgf. lagði megináherzluna á, að þetta frv. sé flutt af stj., er algerður misskilningur, og fellur þá um leið niður mest af þeirri ádeilu, sem hann kom með á mig sem dómsmrh. og á stj. í heild. Það stendur enginn úr stj. að þessu frv. nema ég. Í öðru lagi er þess að gæta, að samkv. þjóðaratkvgr., sem fór fram um þetta mál, og samkv. þáltill., sem samþ. var á síðasta þingi, var stj. skylt að undirbúa frv. um afnám bannsins og leggja það fyrir næsta þing. Það væri því ástæða fyrir hv. þm. að deila á stj., ef hún hefði ekki komið með þetta frv., því að henni bar skylda til að láta bera það fram.

Þá vænti ég, að hv. þdm. hafi tekið eftir því, að frv. er ekki flutt af stj., vegna þess, að stj. vildi ekki á neinn hátt gera þetta frv. að sínu máli. Stj. hefir á þessu mismunandi skoðanir, og ég býst við, að sumir úr stj. séu frv. andvígir og muni greiða atkv. á móti því. Þess vegna var frv. undirbúið af þeim mönnum, sem ég taldi vel færa til að gera það, og síðan var frv. skilað til allshn., eingöngu til þess að inna af höndum þá skyldu, sem lögð var fyrir mig með þeirri þál., sem samþ. var á haustþinginu. En ég dreg þó ekki dul á það, að þetta frv. er í samræmi við mína skoðun á áfengismálnnum í höfuðatriðunum, en það er óviðkomandi stj. sem slíkri.

Viðvíkjandi því, að framsöguræðan hafi verið stutt og ekki nógu ýtarleg, þá vil ég benda á það, að allshn. tók flutning þessa frv. að sér, og ég býst við, að hv. frsm. hafi ekki þótt ástæða til að hafa langa framsöguræðu, þar sem málið hefir verið þrautrætt á undanförnum þingum, meira en flest önnur mál, og síðast á haustþinginu varð að skera niður umr. eftir langt þóf, og voru þá 14 þm. á mælendaskrá, og þá var ekki heldur ástæða fyrir mig að taka til máls um þetta frv. frekar en önnur mál, sem lögð eru fyrir n. Það er ekki vani, þegar einhver n. tekur að sér að flytja mál, að stj. sé að flytja ræður við framsögu.

Ég skal þó nú svara nokkrum orðum þeim helztu atriðum, sem hér hafa komið fram. Ég vil þó taka það fram, áður en ég svara einstökum atriðum í ræðu hv. þm. Borgf., að ég býst við, að ég og hv. þm. Borgf. séum sammála um það, að áfengið er mikið böl — eitt okkar mesta — , og því þurfi að afstýra eftir því sem unnt er. Ágreiningurinn verður um það eitt, á hvern hátt þessu böli verði afstýrt. Þar má búast við, að leiðir skilji. Ég segi það fyrir mig, að ég hefi fengizt meira við áfengismálin en flestir aðrir hér á landi. Ég dreg ekki dul á það, að þegar bannlögin veru sett, var ég þeim fylgjandi. Ég hefi haft með höndum framkvæmd þessara laga hér í Reykjavík, þar sem flest mál hafa komið fram í sambandi við þau, og þeim hefir verið framfylgt á sama hátt og öðrum lögum, þannig, að þau hafa hvergi á landinu verið framkvæmd strangara en hér í Rvík. Ég hefi nú séð árangurinn af þessari látlausu baráttu hér og annarsstaðar, og hann er sá, eins og við báðir vitum, að ölvun er nú engu minni en áður en aðflutningsbannið var sett. Ég hefi ekki við hendina nú skýrslur um þetta atriði, það verður ef til vill hægt við næstu umr., en það mun vera svo, að hér í bæ eru árlega sektaðir á annað þúsund menn fyrir ölvun, með því fyrirkomulagi, sem nú er. Ég hika því ekki við að láta í ljós þá skoðun mína, og mun greiða atkv. samkv. því, að nú er ekki um annað að ræða en að afnema það, sem eftir er af bannlögunum. Hinsvegar skal ég af heilum hug styðja hverja þá skynsamlega till., hvort sem hv. þm. Borgf. eða aðrir bera hana fram, ef hún gengur í þá átt að fyrirbyggja áfengisbölið.

Ég get vel fyrirgefið hv. þm. Borgf. það, þó að hann talaði um þetta mál af nokkrum hita. Þetta er honum mikið hitamál, enda var það svo, þegar hann fór að tala gegn frv., þá lagði hann megináherzluna á, að benda á það í þessu frv. — eins og eðlilegt var —, þar sem honum þótti of skammt gengið til varnar áfenginu, en benti ekki á þau ákvæði, þar sem lengra er gengið til varnar en nokkru sinni áður.

Hv. þm. sagði, að öll allshn. væri óánægð með frv. Ég held, að þetta sé ofmælt. A. m. k. skyldi maður ætla, að þegar n. hefir mál svona lengi til meðferðar, þá muni hún bera fram till. um verulegar breyt., ef hún er öll óánægð með frv. Það hefði heldur ekki verið óeðlilegt, því að menn hafa alla tíð verið ósammála um, hvað gera skyldi til varnar áfenginu. Sjálf stórstúkan er gersamlega klofin í því máli. Því hefir jafnvel verið haldið fram, að minni hl. hennar fylgi afnámi bannsins. Ég skal ekki fullyrða, hvort þetta er satt, en hitt er þó víst, að það verður alls ekki fullyrt, að þeir séu þar fleiri, sem halda vilja við bannið, en hinir, sem vilja afnám þess.

Hann sagði, að varnir gegn áfenginu væru ákaflega litlar í þessu frv. vil ég þar benda á nokkur atriði, og þá fyrst og fremst refsiákvæðin. Þeim er haldið að miklu leyti óbreyttum, og ég býst jafnvel við, að refsingar við brotum á þessum l. séu að ýmsu leyti strangari en áður, og ég trúi ekki öðru en að hv. þm. Borgf. kannist við, að refsingar gegn áfengislagabrotum séu yfirleitt strangar.

Þá minntist hv. þm. á það, að ég hefði undirbúið þetta frv. án þess að stórstúkan hefði nokkuð fengið um það að segja. Ég verð að segja það, að þessi ádeila kemur mér mjög á óvart. Hann sagði, að það væri sérstök móðgun við stórstúkuna að láta þessa 3 menn, sem til þess voru valdir, undirbúa frv. Þessa ásökun tel ég ekki heldur réttmæta. Fyrsti maðurinn, sem til þessa var valinn, var Þórður Eyjólfsson, sem hefir samið frv. um þetta efni nú fyrir 2 árum. Annar var Guðbrandur Magnússon, sem var sérstaklega valinn vegna þess, að hann hefir nú að undanförnu haft á hendi yfirstjórn áfengisverzlunarinnar, og sá þriðji var fyrir hönd templara. Þessir menn voru vitanlega allir jafnréttháir. Meira að segja var það svo, að þegar gengið hafði verið frá þessu frv., þá skýrði einn af allra áhugasömustu templurunum, Felix Guðmundsson, frá því, að hann teldi sig ekki hafa getað fylgzt nægilega með þessu máli, og skipaði ég þá svo fyrir, að fresta skyldi prentun frv., vegna þess, að það átti að leggja það fyrir sem vinnu frá stj. hendi, og bað ég þá um að koma sér niður á einstök atriði, sem ágreiningur væri um, en ef það væri ekki, þá vildi ég láta samt bíða með frv., svo að Felix Guðmundsson gæti athugað það og látið í ljós skoðun sína á því, og sú umsögn yrði prentuð með sem grg. fyrir frv. af þessu ætti þá hv. þm. að vera ljóst, að hér var á engan hátt gengið framhjá templurunum.

Þá minntist hv. þm. Borgf. sérstaklega á nokkur atriði þessa frv. Hann taldi framda mikla goðgá í 2. gr. frv., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Veiti Alþingi með sérstökum lögum heimild til tilbúnings áfengs öls á Íslandi, skal það að því leyti sem þau lög ná til, vera undanþegið ákvæðum þessara laga um tilbúning, sölu og veitingar í landinu.“ — Í 7. gr. er hinsvegar bannaður tilbúningur áfengis í landinu. Þegar menn finna sér þetta sérstaklega til, þá er langt leitað, því að vitanlega er svona tekið til orða eingöngu til þess, að ekki sé ósamræmi í frv. innbyrðis. Þó að hér sé gert ráð fyrir, að veita megi leyfi til að brugga öl í landinu, þá er þó ekkert gert í þá átt hér. Það liggur alveg í valdi þingsins, og í frv. er ekkert gert í þá átt að veikja þá aðstöðu þingsins til þess máls á sínum tíma. Annars verð ég að segja, að þegar búið er að veita brennivíni og öðrum sterkum drykkjum inn í landið, þá er einkennilegt, ef á að banna ölið. Ég segi þetta aðeins sem mína skoðun, en annars kemur það til kasta þingsins að gera sérstakar ráðstafanir um meðferð öls, ef til þess kemur. (PO: Hvaða gagn er þá í þessu ákvæði?). Það er það gagn, að með því er bent á, að setja þurfi sérstök l. um meðferð öls, ef leyft verður að framleiða það, en þær varnarráðstafanir, sem hér eru gerðar gegn fengum drykkjum, duga ekki viðvíkjandi öli. Ég sé ekki ástæðu til að fara út í það hér, hverjar þær ráðstafanir ættu að vera, en hv. þm. Borgf. veit, að víða eru gerðar aðrar ráðstafanir gegn öli en víni.

Þá minntist hv. þm. á það, að samkv. 10. gr. væri stj. heimilt, þar sem útsala væri á Spánarvínum, að selja einnig sterk vín án þess að spyrja hlutaðeigandi kaupstaði um leyfi. Þetta taldi hann mikla goðgá í frv. Viðvíkjandi því er það að segja, að þessar „local“ákvarðanir um veitingu víns, að ekki megi flytja vín inn í bæi og kaupstaði án þess að þar hafi áður farið fram atkvgr. um það í viðkomandi kaupstað, þær hafa verið settar inn í frv. vegna þess, hvernig þjóðaratkvgr. fór um áfengislögin. Fylgi með og á móti var mismunandi í ýmsum sýslum og kaupstöðum, og er full ástæða til að sýna öllum þessum aðilum fulla sanngirni, svo að hvert bæjarfélag geti ráðið þessu sjálft. Um þetta varð samkomulag allra í n., en þó að þetta sé gert, þá álít ég þetta ákvæði mjög vafasamt. Þegar þetta frv. var samið, þá hafði n. sú, sem með það fór, sérstaka hliðsjón af þeirri reynslu, sem aðrir hafa í þessu efni, og þá einkum Norðmenn. Hjá þeim hafa áfengislögin verið afnumin fyrir nokkru, og þar var bæjum og kaupstöðum leyft að banna sölu víns með atkvgr. Þar hafa þessar „local“-ákvarðanir reynzt ákaflega illa. Þessir bæir hafa komið upp leynisölu á víni, sem er ákaflega erfitt að ráða við, þar sem vín er á næstu grösum og flutt með leynd inn í bæina. Það hefir því reynzt mjög örðugt að framfylgja þessu banni. En þar sem við vildum vera í sem mestu samræmi við þjóðaratkvgr., þá treystum við okkur ekki til að ganga svo langt, að leyfa að selja áfengi í öllum kaupstöðum án þess að hlutaðeigendur væru spurðir að. Því var ákveðið í frv., að atkvgr. skyldi fara fram í þeim kaupstöðum, þar sem Spánarvínin hafa ekki verið seld. Það má auðvitað um það deila, hversu langt hefði átt að ganga hér, en ég álít, að það hefði verið óheppilegt og rangt að ganga lengra í atkvæðagreiðslunni en hér er gert.

Ég vil ekki fullyrða, en mig minnir — og skal það verða leiðrétt, ef reynist rangt —, að sá templari, sem var með við samningu þessara frv., hafi ekki viljað láta fram fara atkvgr. um sölu sterkra drykkja á þeim stöðum, þar sem Spánarvínin hafa verið seld, hafi álitið það of flókið til að blanda því saman.

Þá minntist hv. þm. á það, að í þessu frv. væri gengið lengra en áður hefði verið gert, að heimta ekki nema 3/5 greiddra atkv. með því að leyfa áfengissölu, en heimta ekki neina lágmarkstölu atkvæðisbærra manna. Ég álít nú, að ef áhuginn í bæjarfélagi er ekki meiri en það, að menn taka ekki þátt í atkvgr. þrátt fyrir boðaða auglýsingu, þá er ekki fyrir hendi sá mótþrói, sem þarf að vera til þess, að bannað verði að selja vín þar á staðnum; því að reynslan er sú, að eigi slíkt bann í einstökum kaupstöðum að koma að gagni, verður að vera fyrir því sterkur vilji bæjarbúa.

Viðvíkjandi því, sem tekið er fram í frv., að dómsmrh. hafi leyfi til að leyfa veitingu á fleiri vínum en þeim veikari, þá skal ég taka það fram, að slíkt leyfi má vitanlega því aðeins veita, að áður sé heimild til samkv. þessum l. að selja vín í þeim kaupstað.

Það var merkilegt, að það kom fram í umr. hjá þessum hv. þm., að nú ætti að gera viðvíkjandi áfenginu ráðstafanir, sem að ýmsu leyti væru lélegri en þær, sem áður hafa verið. Hann minntist á það, að þörfin til að verjast áfengi væri nú miklu meiri en nokkru sinni áður. Er þetta ekki einmitt viðurkenning fyrir því, að áfengislögin hafi ekki náð tilgangi sínum?

Þá setti hv. þm. út á 17. gr., að þar væri löggæzlumönnum gefið víðtækt vald til þess að hefja rannsókn út af áfengislagabrotum. Eftir þessu frv. er lögregluþjónum, hreppstjórum og sérstökum löggæzlumönnum heimilt að stöðva farartæki og leita í þeim. Það hefir þótt einna örðugast að leita í farartækjum úti á þjóðvegunum. Þar er ekki hægt að fá úrskurð sýslumanns, hvort leita megi. Í þessu efni er farið lengra en áður. En ég sé enga ástæðu til að heimila húsleit án úrskurðar sýslumanns. Væri það gert, álít ég, að of langt væri gengið í því að raska húsfriðnum. Að það sé erfitt að ná úrskurði sýslumanns, er rangt. Reynsla undanfarinna ára sannar hið gagnstæða. Þegar til þeirra hefir verið leitað, hafa þeir oft getað gefið úrskurð, sem heimilar leit á fjölda heimila í einu, og svo er leitað á þeim. Löggæzlumaður bendir sýslumanni á, hvar grunur sé um, að áfengi sé bruggað, og færir fram þær ástæður, sem hann byggir þennan grun sinn á; síðan getur sýslumaður fellt marga úrskurði í einu. En að heimta húsleit úrskurðarlaust er of langt gengið.

Hv. þm. sagði, að með þessari löggjöf væri hlynnt að bruggurunum; þeim væri gefið undir fótinn með álagningunni. En í þessu efni eru templarar mjög ósammála. Það skal viðurkennt, að atriðið um álagninguna er hið mesta vandamál. Það er mjög erfitt að rata meðalhófið. Álagningin má ekki vera svo lítil, að hún auki neysluna, og hún má ekki vera svo mikil, að hún hlynni að brugguninni. Ég er þeirrar skoðunar, að það verði að stilla álagningunni í hóf til að byrja með. Sumir álíta, að taka beri hér tvö stig. Hafa álagninguna hóflega fyrst, og hækka hana síðan, þegar búið er að útrýma bruggurunum. Ég býzt við, að mestu erfiðleikarnir séu í því fólgnir að losna við bruggið. Í Noregi hefir það t. d. reynzt hin versta plága að losna við bruggarana.

Ég skal svo ekki fara öllu fleiri orðum um þetta. En ég tek það fram viðvíkjandi þessu frv., að það stendur sem önnur frv. til bóta við nánari athugun. Ég skal taka undir það með hv. þm. Borgf. og hverjum þeim öðrum, sem kemur með skynsamleg ráð til þess að varna ofneyzlu áfengis.

Það er ekki rétt hjá hv. þm. Borgf., að bezt sé að minnka áfengisnautnina með ströngum lagaákvæðum. Það er fyrst og fremst hægt með því að fræða fólkið um það, hvílíkt böl áfengisnautnin sé. Að fræða fólkið um það, hvaða bölvun leiði af áfengisnautninni, er áreiðanlega bezta vörnin, og það ráð hefir einmitt verið tekið upp af stórstúku Íslands með góðum árangri. Ríkisstjórnin er sammála stórstúku Íslands í því, að taka eigi upp þessa vörn. Lagaákvæði geta aldrei verið höfuðvörn. — Síðustu orð mín núna skulu vera þau, að ég skal fúslega taka undir hverskonar breytingar til bóta, sem hv. þm. Borgf. eða aðrir koma með.

Ég vil svo mælast til þess við hv. þm. Borgf., — en ég veit, að honum er það hið mesta áhugamál og tilfinningamál að sporna gegn áfengisnautn —, að hann fresti aðfinnslum sínum, þangað til n., sem fær þetta mál til meðferðar, hefir haft tíma til að athuga það í ró og næði, og ræða um þær breytingar til bóta, sem fram koma. Umræður geta auðvitað verið til bóta, en aðalatriðið er, að málið sé athugað rækilega í n. Ég veit, að margir í þessari hv. d. eru fúsir að taka til yfirvegunar allar þær leiðir, sem bent er á til varnar ofneyzlu áfengis í landinu.