25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (3236)

77. mál, áfengislög

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Það kemur þessu máli út af fyrir sig ekki við, hvort frv. þetta er stjfrv. eða ekki, og get ég því ekki farið að karpa neitt um það. Ég hefi lýst því yfir og mun standa við það, að ég er því í höfuðatriðum fylgjandi. Það stendur öðruvísi á um þetta frv. en mörg önnur, því að það var beinlínis lagt fyrir stj. að búa frv. út um þetta efni. Stj. hefir ekki haft önnur afskipti af þessu máli en að skipa n. til að semja frv.

Hv. þm. Ísaf. minntist á sjálfsákvörðunarrétt bæjanna og hélt því fram, að það væri eðlilegast að láta þá hafa ákvörðunarrétt um það, hvort sala sterkra drykkja skyldi vera leyfð í þeim eða ekki. Þetta er atriði, sem deila má um. En mín skoðun um þetta efni er sú, að ef leyfa á útsölu Spánarvína í einhverjum kaupstað, þá mundi það verða vatn á mylnu bruggaranna í þeim sama bæ og skipa, sem þangað koma. Ég álít, að ef á að verja bæina fyrir heimabruggun, þá væri bezt að leyfa þar hvorki sölu Spánarvína eða sterkra drykkja.

Viðvíkjandi útsölum á vínum í kaupstöðum mun það vera réttur skilningur á ákvæðum frv. hjá hv. þm. Ísaf., að dómsmrh. sé heimilt að ákveða vínsölustaði í kaupstöðum, þar sem fyrir eru leyfilegar veitingar Spánarvína.

Um hitt atriðið mætti deila talsvert, hvort það er réttlátt að láta bæina hafa ákvörðunarrétt um það, hvort vín mætti selja í þeim eða ekki án samþykkis bæjarstj. Þetta atriði málsins tel ég rétt og sjálfsagt, að athugað verði í n.

Í 20. gr. frv. er nýmæli, sem hefði átt að vera búið að lögfesta fyrir löngu, að hver sá embættismaður eða starfsmaður ríkisins, eða opinberra stofnana, sem er ölvaður, þegar hann er að gegna embætti sínu eða starfi, skuli sæta refsingu, og að þriðja brot varði frávikningu úr stöðunni um stundarsakir, eigi skemur en 3 mánuði, eða að fullu og öllu, ef um miklar sakir er að ræða, og að læknir í síðastnefndu tilfelli missi embætti sitt og lækningaleyfi. Þetta hefi ég sett inn í frv., því að það er mín skoðun, að þeir, sem vín drekka að staðaldri, eigi ekki að vera í opinberum stöðum. Þetta ákvæði í frv. er náttúrlega nokkuð strangt.

Hv. þm. minntist einnig á 22. gr. frv., sem kveður á um refsingar vegna ölvunar skipstjóra, stýrimanna, bátaformanna og vélstjóra við störf þeirra. Það getur auðvitað verið álitamál, hve strangt þetta ákvæði skuli vera. Það mætti athuga, hvort ekki væri rétt, að þessir menn misstu stöðuna við annað brot. En um samanburð hv. þm. á störfum þessara manna og á störfum bifreiðastjóra er það að segja, að hvergi er nálægt því eins hættulegt, að menn séu ölvaðir við sín störf eins og við bifreiðastjórn, og í löggjöf annara þjóða, t. d. Englendinga, eru ákaflega ströng refsiákvæði gegn ölvun við það starf.