13.11.1934
Neðri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2102 í B-deild Alþingistíðinda. (3240)

77. mál, áfengislög

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Þegar frv. þetta var flutt af allshn., þá áskildu nefndarmenn sér rétt til að gera brtt. við það, og við hv. 1. landsk. höfum komið fram með brtt. við það á þskj. 276, sem ég vil gera nokkra grein fyrir.

Brtt. okkar gerir ráð fyrir, að 2. gr. frv. falli burt. Þessi gr. hljóðar um það, að Alþingi geti með sérstökum lögum heimilað tilbúning áfengs öls á Íslandi. Við flm. brtt. álítum, að óþarft sé að lögfesta loforðagrein um, að Alþ. geti breytt áfengisl., sem það hefir hvort sem er rétt til að gera á hvaða tíma sem er. — 2. gr. brtt. er í samræmi við þetta.

3. gr. brtt. er sú orðabreyt., að í stað orðanna „og gæðum“ komi: og innkaupsverði. — Um gæði víns í einstökum tilfellum er kannske erfitt að segja, en innkaupsverð er ávallt hægt að ákveða.

Þá kemur allmikil brtt. við 10. gr. frv. Hún er í stuttu máli á þá leið, að heimilt er að selja þessa sterku drykki á þeim stöðum, þar sem einkasalan nú hefir útsölu vína, en annarsstaðar ekki. Í öðru lagi gerir þessi liður brtt. ráð fyrir, að gengið verði alveg framhjá því atkvæðagreiðsluákvæði, sem 10. frvgr. gerir ráð fyrir. Við lítum svo á, að frv. þetta til áfengisl. sé í raun og veru afleiðing af ástandi, sem skapazt hefir við það, að leyfður var hér innflutningur og sala Spánarvína, og að því sé ekki ástæða til að hafa útsölustaði vína annarsstaðar en þar, sem þeir eru nú. Svo hefir verið litið á af hæstv. ríkisstj. og meiri hl. Alþ., að útsölustaði þessa verði að hafa þar, sem þeir nú eru. En að fara að setja upp slíka útsölustaði á fleiri stöðum, jafnvel þó samþykki til þess hafi fengizt með atkvgr., sem um getur í frv., það álítum við ekki rétt.

Þá eru brtt. við 11. gr. frv. Við 1. lið 11. gr. er gerð sú brtt., að smáskammtalæknar, sem lækningaleyfi hafa samkv. l., þurfi að láta fylgja pöntunum til áfengisverzlunarinnar meðmæli frá landlækni, auk þess, sem í frv. er gert ráð fyrir, að þeim pöntunum verði að fylgja meðmæli hlutaðeigandi lögreglustjóra, til þess að þeim sé heimilt að selja smáskammtalyf með vínanda í.

Við 3. tölul. 11. gr. frv. er gerð sú brtt., að hann orðist um og verði þannig: „Dómsmálaráðherra setur reglugerð um sölu vínanda til eldsneytis, er gerður hefir verið óhæfur til drykkjar, svo og um vínanda til iðnþarfa, efnarannsókna, náttúrngripasafna og annara verklegra nota“.

Aftur á móti er gert ráð fyrir því í frv., að sala slíks vínanda skuli lúta sömu reglum og um venjulegar verzlunarvörur gilda.

Við 13. frvgr. eru allmiklar brtt. Fyrsta brtt. við þá gr. er sú, að áfengisbúðir skuli vera lokaðar á laugardögum og aðfangadögum stórhátíða, allan daginn, og til hádegis næsta virkan dag á eftir, í staðinn fyrir að í frv. er ákveðið, að áfengisbúðir skuli vera lokaðar frá hádegi á laugardögum og aðfangadögum stórhátíða til kl. 9 að morgni næsta virkan dag.

2. liður þessarar 7. brtt., b-liður, er um, að lögreglustjórum skuli vera heimilt að loka útsölueða veitingastað vína fyrirvaralaust um einn eða fleiri daga, þegar þeim virðist ástæða til. Þetta álítum við nauðsynlegt, til þess að hægt sé að draga úr hættu á, að drykkjuskapur gangi svo úr hófi fram, að óspektum gæti valdið vissa daga, eins og t. d. kosningadaga. Þetta hefir verið framkvæmt, en okkur virtist rétt að setja í l. heimild til þessa.

Þá viljum við með c-lið 7. brtt., að fastákveðið verði það álag, sem á vínin er sett, og að dómsmrh. ákveði í reglugerð sölulaunin í útsölum, mismunandi í hinum ýmsu útsölustöðum og veitingastöðum eftir ástæðum, og sé þar miðað við, að sölulaunin fari ekki fram úr vissu hundraðsgjaldi á hverjum stað.

Þá er tekið fram í d-lið 7. brtt. okkar, að áfengisverzlun ríkisins og útsölustöðum hennar skuli vera óheimilt að afhenda áfengi nema gegn staðgreiðslu. Lánsverzlun með þessar vörur álítum við ótilhlýðilega.

8. tölul. brtt. er orðabreyt., um að í stað orðanna „um óleyfilega sölu áfengis“ í 14. frvgr. komi: um óleyfilega sölu eða aðra óleyfilega meðferð áfengis.

Þá er 9. tölul. brtt. við 23. frvgr., um að ef slys verður af völdum ölvaðs flugmanns eða bifreiðastjóra á öðrum mönnum, þá skuli það jafnan varða missi flug- eða ökuskírteinis fyrir fullt og allt. Þessi ákvæði viljum við þannig herða frá því, sem nú er. — Hv. 3. landsk. hefir einnig komið með brtt. við þessa 23. gr. frv., á þskj. 411, sem hann mun gera grein fyrir og ég er samþykkur.

Þá kemur hér ný gr., sem við vildum setja í l., um það, að ef vafi leikur á því, hvort sakborningur samkv. þessum kafla, 23. gr., hafi verið undir áhrifum áfengis, þegar slysið vildi til, þá skuli úr því skorið með blóðrannsókn, er læknir framkvæmi. Sú aðferð er öruggust, því að á annan hátt er ekki hægt að vita fullkomlega fyrir víst um þetta.

Loks viljum við bæta inn í áfengisl. kafla, sem er um áfengisvarnir, og að þar sé 21. gr. þannig:

„Ráðherra skal skipa sér til aðstoðar ráðunaut í áfengismálum, að fengnum tillögum frá þeim bindindisfélögum, sem njóta opinbers styrks“.

25. gr. í þessum kafla er þannig: „Áfengisvarnanefndir skulu vera í öllum hreppum og kaupstöðum landsins, þriggja manna í hreppum, 7 manna í kaupstöðum, öðrum en Reykjavík, þar sem nefndin skal skipuð 9 mönnum. Áfengismálaráðunautur skipar formenn nefndanna, en að öðru leyti skulu nefndirnar kosnar af hlutaðeigandi hreppsnefndum og bæjarstjórnum, með hlutfallskosningu. Kjörtími nefndarmanna er 4 ár í senn. Nefndarstarfið er ólaunað, en borgaraleg skylda að taka við kosningu yfir eitt kjörtímabil.

Verksvið nefndanna skal ákveðið með reglugerð, sem ráðherra gefur út. Áfengismálaráðunautur hefir umsjón með framkvæmd hennar“.

Þessi nefnd á svo að hafa svipað hlutverk á sinn sviði og barnaverndarnefndir hafa viðvíkjandi börnum, að vara menn á ýmsan hátt við ofnautn áfengis.

Þá er 26. gr. um, að ráðh. skuli með reglugerð setja ákvæði um fræðslu í öllum skólum, er opinbers styrks njóta, um skaðleg áhrif áfengisnautnar.

Ég vil að síðustu geta þess, að þessar brtt., sem komnar eru hér fram frá okkur tveimur þm., eru a. n. l. samdar í samráði við þá menn, sem sérstaklega hafa starfað að þessum málum innan okkar flokks, en þó er till. þeirra manna að sumu leyti breytt.