13.11.1934
Neðri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2112 í B-deild Alþingistíðinda. (3244)

77. mál, áfengislög

Finnur Jónsson:

Mín afstaða til þessa máls er sú, að verða fyrst og fremst á móti því, að þetta frv. nái fram að ganga í þinginu, vegna þess, að ég álít annað nauðsynlegra en að fara nú að velta sterkum drykkjum lítt hindrað inn í landið. En ég geri ráð fyrir, að þeir séu svo mannmargir hér, sem hlíta vilja hinni lélegu atkvgr. sem fram fór um þetta mál, að það nái samþykki, og þá er hið eina, sem ég og aðrir bannmenn geta gert hér í þinginu, að vera með öllum þeim brtt., sem til bóta horfa til þess að draga úr vínnautninni. Þær brtt., sem þegar eru fram komnar, miða nokkuð til bóta, en ég mun þó í félagi við einhverja aðra leggja fram brtt. til viðbótar fyrir 3. umr. málsins.