10.12.1934
Neðri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2327 í B-deild Alþingistíðinda. (3260)

49. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Frsm. (Gísli Sveinsson) [óyfirl.]:

Ég skal leyfa mér að skýra frá því, sem og kemur fram í nál. samgmn., að n. leggur til, að nokkrar breyt. verði gerðar á frv. eins og það kom frá hv. Ed. Þessar breyt. eru allar að gefnu tilefni fluttar, sem sé frá hv. þdm., og það er sannast að segja, að landssímastjóri hefir lagt þannig til málanna, að inn á mikið af þeim er gengið. Verði samþ. talsvert af þessum till., sem lagt er til að verði, og þær till., sem einstakir þm. bera fram, þá má segja, að vel sé að verið, og vill n. sízt verða þess valdandi, að þær nái ekki fram að ganga, að svo miklu leyti, sem till. landssímastjóra benda til. Það er líka þannig skipað málum, að því er virðist, að landssímastjóri tekur eitthvað frá öllum og viðurkennir, og teldi ég það vel farið, að hv. þm. sætti sig við það. En ef þeir vildu halda til streitu öllum till. sínum, ættu þeir að láta það bíða til 3. umr. og bera þær þá fram í samráði við n. Hinsvegar gerir n. ráð fyrir því, að leggist landssímastjóri á móti því, að allar till. hv. þm. verði teknar til greina, þá falli hv. þdm. frá því, sem eftir er. Þá hafa nokkrar brtt. komið fram síðan n. skilaði áliti, og er sama að segja um þær, að þær ættu að bíða til 3. umr.

N hefir fundið til þess, eins og oft áður á þingi, að mikið kapp er lagt á að koma þessum og þessum línuspottanum inn í lögin, þrátt fyrir að síðan þessi lög voru síðast afgr. hafi komið fram ný lagafyrirmæli, sem létta undir með héruðunum um að komast í símasamband innbyrðis. Og það er fullvíst, að sveitasíminn fullnægir miklu betur héruðum og sveitum heldur en nokkur landssímalína getur gert, vegna þess að meira er hægt að nota slíkan síma frjálst öllum þeim, sem að honum standa, en landssímann aldrei nema af skornum skammti.

Mönnum blæðir í augum kostnaðurinn við byggingu slíks síma, enda þótt þeir þurfi ekki að gjalda nema 2/5 byggingarkostnaðar, en koma frá hinu opinbera.

Ég vænti nú þess, að hv. dm. geti gert sér grein fyrir því, að það er ómögulegt, að allir geti fengið símaóskum sínum fullnægt, allra sízt á kostnað landssímans, og það allir í einu.

Ég skal svo bæta því við, að ég tel ekki þörf á löngum umr., en þó skal ég aðeins geta þess um leið, að í þessari brtt. á þskj. 670, eins og hún er uppsniðin úr frv. eins og það kom frá hv. Ed., er eitt atriði, sem getur orkað tvímælis. Þar stendur: „Lína um Blönduhlíð og Viðvíkursveit“. Í lögunum frá 1929 stendur „Lína frá Víðimýri um Reyki, Lýtingsstaði að Goðdölum. Lína frá Víðimýri um Frostastaði að Hofdölum“. Er hér reyndar um sömu línu að ræða, þó að síðara orðalagið sé víðtækara og óákveðnara, en ég teldi fullt eins gott að stæði eins og áður. — Af þessu ætti að leiða, að þessi eina setning ætti að falla úr við 3. umr. og mun n. koma með brtt. þess efnis, ef henni sýnist. — Ég tel svo ekki þörf á að orðlengja þetta frekar, og býst ég við, að hv. dm. átti sig á þessu.