22.11.1934
Neðri deild: 43. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2138 í B-deild Alþingistíðinda. (3294)

77. mál, áfengislög

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Það er sérstaklega eitt atriði í brtt. hv. þm. Borgf., sem ég vil taka til athugunar, en það er viðvíkjandi búsrannsókninni. Ég álít, að þetta ákvæði megi alls ekki komast í gegn og tel það ekki vansalaust fyrir þingið, ef það verður samþ. Eins og ég gat um í fyrstu ræðu minni, er ég talaði um þetta, er húsrannsókn eigi leyfð án dómsúrskurðar. Aðalreglan er sú, að það má ekki fara inn á heimili neins manns, nema fyrir liggi rökstuddur úrskurður dómara þar um. Þessi regla gildir hjá okkur og er varin með stjskr., til þess að vernda friðhelgi heimilisins, persónufrelsi manna. Ef till. hv. þm. Borgf. verður samþ., leiðir það til þess, að fjöldi manna getur gengið inn á heimili manna, leitað þar og farið um allt og brotið þá reglu, sem stórvægilegustu afbrot leyfa ekki. Ég tala ekki þannig vegna þess, að ég sé eigi móti drykkjuskap. Ég held, að ég hafi staðið þannig í stöðu minni sem lögreglustjóri í þessum bæ, að ég geti talað um þessi mál af fullri hreinskilni. Ég get ekki gengið inn á það, að þegar aftur er leyft að flytja inn sterk vín, svo að brot gegn áfengislögunum verða aðeins brot á tollalögum og einkasölulögum, þá sé gengið svo langt í þessu atriði, að það sé langt fram yfir stórkostlegustu afbrot á öðrum sviðum, t. d. þjófnað, sviksemi o. s. frv. Út af slíku er ekki leyfilegt að gera húsrannsókn nema rökstuddur úrskurður dómara komi til, nema maður bókstaflega standi manninn að verki og elti hann inn í hans eigið hús.

Í raun og veru kemur hv. þm. Borgf. með sterk rök, er hann hefir það eftir núv. lögreglustjóra í Rvík, að húsrannsóknir séu framkvæmdar í þessum málum án þess að fyrirskipun lögreglustjóra komi til. Ég efast ekki um, að lögreglustjórinn vill segja satt um þetta, og að þetta er aðeins misskilningur hjá honum. Hann hefir ekkert haft með áfengismálin að gera, heldur hafa þau svo að segja algerlega verið í höndum fulltrúans, Jónatans Hallvarðssonar, sem haft hefir sjálfstætt dómsvald í þessum málum. Ég talaði um þetta við einhvern skýrasta lögregluþjóninn, og um leið áhugasamasta í þessum málum, Svein Sæmundsson. Hann hefir framkvæmt svo að segja allar húsrannsóknir, er gerðar hafa verið í þessum málum. Hann sagði, að húsrannsókn væri ekki gerð nema eftir fyrirskipun lögreglustjóra, og venja væri að hafa rökstuddan húsrannsóknarúrskurð með. Þetta væri reglan, nema þar, sem um áður uppvísa og brotlega menn væri að ræða. Þar væri húsrannsókn gerð með fyrirskipun lögreglustjóra í eitt skipti fyrir öll.

Hann sagði mér einnig, að dómsmálaráðuneytið liti svo á, að allar húsrannsóknir væru gerðar eftir fyrirskipun lögreglustjóra, líka hjá þeim mönnum, er áður hefðu orðið uppvísir að brotum. Það er lögreglustjórans að gefa úrskurð um húsrannsókn, því enda þótt lögregluliðið sé vel skipað, er varhugavert að veita mörgum mönnum þetta vald. Lögreglustjóri á að taka við upplýsingum um málið og meta þær og byggja úrskurð sinn síðan á því. Hann hefir ekki leyfi til þess að framselja öllum sínum lögregluþjónum þetta vald.

Mér er það áhugamál að þessi till. verði felld, því að hún heimilar hverjum einasta lögregluþjóni, sem er á vakt, að ganga inn í hús manna og gera þar húsrannsókn, án þess jafnvel, að grunur hvíli á um óleyfilega meðferð áfengis. Að fara að taka húsrannsókn inn í sambandi við ákvæðin um flutningatæki er og fráleitt. Það kemur ekki að sök, þótt leitað sé úrskurðar um húsrannsókn; það þekki ég vel. Þar er venjulega um brot, sem standa yfir í lengri tíma, að ræða, á heimilum lögbrjótanna. Öðru máli gegnir um flutningatæki, sem sleppa mundu úr höndum lögreglunnar, ef leita þyrfti úrskurðar áður en rannsókn færi fram. Það er nóg, að húsrannsókn í þessum málum hlíti sömu reglum og í öðrum málum, og langt gengið að leyfa rannsókn á farartækjum án úrskurðar, og nær þeim tilgangi, er ná má í þessari löggjöf. Ég tel nú, að ég hafi svarað þessu nægilega og geri að till. minni, að þessi brtt. verði felld.

Viðvíkjandi ákvæðinu um það, að stórtemplar sé sjálfkjörinn ráðunautur ríkisstj. í þessum málum, vil ég benda á það, að það getur hent og hefir komið fyrir, að hann sé búsettur utan Rvíkur. Verður þá að haga kosningu hans samkv. þessu ákvæði. Annars er ég á móti því, að ríkið sé að fá einstökum mönnum í hendur vald sitt, eða fela þeim það. Ég tel rangt að dreifa þessu valdi í svo litlu þjóðfélagi sem okkar, er, og tel, að búið sé að gera of mikið að því.

Þá skal ég minnast lítið eitt á brtt. við 21. og 22. gr. Þar er um það talað, að þeir, sem greinin ræðir um, flugmenn, bifreiðarstjórar o. s. frv., og eru undir áhrifum víns við atvinnu sína, skuli jafnan missa réttinn til að stjórna flugvél, bifreið o. s. frv. Þ. e. a. s., dómarinn er ekki algerlega bundinn við að svipta þá þessum rétti við fyrsta brot. Þetta tekur einnig til niðurlags gr., er ræðir um æfilanga sviptingu. Þetta er í samræmi við hina nýrri refsilöggjöf vorra tíma, að dómarinn hafi nokkurt svigrúm til þess að meta ástæðurnar og ástæður manna, og virðist það vera rétt og sjálfsagt.

Nú eru alltaf að berast beiðnir um náðanir, sökum þess hve lögin eru ströng í þessu efni. Í morgun barst mér t. d. ein beiðni um náðun. Ég hefi ekki náðað neinn, því að ég tel, að þegar löggjöf hefir verið sett, beri að hlýða banni, og óleyfilegt sé því að náða. Þá er síðari málsgr., um að sömu refsingu skuli framangreindir menn sæta, þótt annar hafi haft með höndum stjórn farartækisins, ef þeir eru sjálfir í farartækinu og áttu að stjórna því, en hafa vanrækt starf sitt þar sökum ölvunar, og verulegt slys hlotizt af því. Ég skal gefa þær upplýsingar viðvíkjandi þessu, að mér finnst það eigi að vera refsivert, ef skipstjóri er ölvaður á hættulegum augnablikum, svo ólærðir menn verði t. d. að stjórna skipinu. Þetta hefir komið fyrir, bæði með skip og bifreiðar, og hefi ég persónulega orðið þrisvar sinnum að dæma menn í slíkum tilfellum seka, sem ég þó fann, að raunverulega báru ekki sökina. Það má minna á í þessu sambandi eitt af stórkostlegustu slysum, er orðið hafa hér í nánd við bæinn, þar sem bifreiðinni var stjórnað af ungling, er eigi hafði ökuskírteini. Eins og menn sjá, er ekki of víðtækt að orði kveðið um þetta í brtt., þar sem þeir verða að vera sjálfir í fararbroddi og hafa átt að stjórna því, en vanrækt það. Þetta er svo bundið, að það er eigi ósanngjarnt, en hinsvegar til stórra bóta frá því, sem nú er. Vænti ég þess, að hv. d. samþ. brtt. eins og þær liggja fyrir.