27.11.1934
Efri deild: 48. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2149 í B-deild Alþingistíðinda. (3310)

77. mál, áfengislög

Ingvar Pálmason [óyfirl.]:

Ég geri ráð fyrir því, að engum hv. þdm. komi á óvart afstaða mín til þessa máls. Ég hefi verið það lengi á þingi, að flestir hv. þdm. munu þekkja skoðun mína á hliðstæðum málum, sem fyrir því hafa legið. En þar sem málið ber nú að með nokkuð öðrum hætti en áður, þykir mér rétt að fara um það nokkrum orðum til glöggvunar á því, að afstaða mín er óbreytt, þó að málið horfi nú nokkuð öðrnvísi við.

Ég trúi ekki öðru en alla hugsandi menn undri það, að tíma þingsins skuli vera varið í afgreiðslu slíks frv. sem þessa. Við höfum heyrt þær dökku lýsingar, sem gefnar eru á ástandi atvinnuvega okkar, afkomu þeirra manna, sem lifa á launum frá því opinbera, o. m. fl., og þykist ég ekki þurfa að endurtaka þær. Og úrræðið, sem þingið grípur til gegn öllum þessum aðsteðjandi vanda, er það, að leyfa innflutning á sem mestu af sterkum vínum. Yfir því er oftlega kvartað, að erfitt sé og óaðgengilegt að þurfa að hækka tolla og skatta til ríkisins, í því skyni að mæta ráðstöfunum, sem þing og stj. sjá sig neydda til að gera vegna ástandsins. Það er því einkennilegt, hve samhuga menn virðast um það, að leggja nú einn skatt á enn með þessu frv., og það þann ægilegasta skatt, sem ég get hugsað mér. Því að voðalegri skattur á þjóðina en verkanir áfengisflóðs er ekki til. Og annað er undarlegt við þetta mál. Það er ekki flokksmál, langt frá því. Maður skyldi því ætla, að það væri mikilvægara en flest þau mál önnur, sem þingið hefir með höndum, því að yfirleitt fá þau á sig keim af flokkaskiptingunni. Þetta og ýmislegt fleira vildi ég taka fram nú. — Ég veit, að menn halda því fram, að hér standi sérstaklega á, þarna sé ekki um annað að ræða en framkvæmd þjóðarviljans; með atkvgr. um bannið hafði þjóðin óskað eftir slíkri löggjöf. En ég er óhræddur að láta það álit mitt í ljós, að Alþ. eigi að hafa vit fyrir þjóðinni, ef hún óskar sér slíks. Ég lít svo á, að í þessu nýja flóði sterkra drykkja inn í landið liggi þjóðarvoði, og Alþ. sé skylt að vera á verði gegn slíku. Ég mun því hvergi hvika frá sannfæringu minni í þessum efnum, hvað sem svonefndum þjóðarvilja líður. Ég segi svonefndum þjóðarvilja, og til þess að færa þeim orðum mínum stað, ætla ég lítillega að athuga þessa afsökun um þjóðarviljann, sem andbanningar skjóta sér nú á bak við. Sannleikurinn er sá, að undanfarin ár, þegar ympruð hefir verið á afnámi bannlagaslitranna, hafa menn gert það með hálfum huga og varla þorað við það að kannast. Nú koma þessir sömu menn óhræddir fram í dagsljósið og flagga með þjóðarviljanum, sem þeir segja, að sé sín megin. En hver er svo þessi þjóðarvilji? Ég hefi fengið útdrátt úr skýrslu hagstofunnar um atkvgr. Hann er að vísu ófullkominn, en þó má ýmislegt af honum sjá, og skal ég nú benda hv. þdm. á nokkur þau atriði.:

Í 13 kjördæmum af 27 vill meiri hl. kjósendanna ekki láta afnema þau bannslitur, sem felast í núv. áfengislöggjöf. Fylgið við afnámið má heita alveg staðbundið, það er langmest í Reykjavík og Vestmannaeyjum. Svo fer það þverrandi, eftir því sem fjær dregur Reykjavík, og á útkjálkum landsins sýnir atkvgr., að fólkið vill halda í það, sem eftir er af banninu; vili ekki, að ofan á léttu vínin sé bætt flóði af sterkum drykkjum. Eftir því sem mér telst til, er mjög lítill atkvæðamunur í 8 kjördæmum af þeim 14, sem vildu afnámið, á einum staðnum er eins atkv. og á tveimur er tveggja atkv. munur. Ég sakna þess, að ekki skuli vera sýnd í skýrslunni þátttaka kvenþjóðarinnar í þessari atkvgr. Ég er viss um, að þá hefði komið í ljós, að það var kvenfólkið úti um land, sem sat heima og tók lítinn þátt í henni. Ekki af því, að konur úti um land séu áhugalitlar um þessi efni, heldur af hinu, að atkvgr. fór fram á þeim tíma, sem verst er að sækja mannfundi fyrir sveitafólk. Okkur framsóknarmönnum mætti vera þetta minnisstætt síðan alþingiskosningarnar fóru fram fyrsta vetrardag. Og bæði sjálfstæðismenn og jafnaðarmenn sýndu sanngirni með flutning kjördagsins, þótt þeir ættu hægara um vik, vegna fylgis síns í kaupstöðunum. En atkvgr. um bannið er látin fara fram að hausti, og þar með öllum þorra kvenþjóðarinnar úti um land meinað að neita atkvæðisréttar síns. Enda var málið svo fram borið, að ekki var gott að átta sig á því, um hvað átti eiginlega að greiða atkv. Ég hefi t. d. aldrei vitað það, að þyrfti að greiða neikvætt atkvæði. Og menn fengu ekkert að vita um það, hvað bak við þessar spurningar lá. Ég játa það, að flestir hugsandi menn muni vera óánægðir með núv. ástand í þessum efnum. En þjóðinni var ekki gert það ljóst við atkvgr., hvað við tæki, nema það eitt að leyfður yrði innflutningur sterkra vina, öll önnur atriði löggjafarinnar voru þjóðinni hulin.

Af 53 þús. kjósenda, sem á kjörskrá voru, greiddu samkv. skýrslunni aðeins 27000 atkv., eða rúmlega 50%. Af þessum 27000 greiddu 16000 atkv. með afnámi bannsins, en rúmlega 11000 á móti. Sem sjá má af þessu, vilja 42% þeirra, sem atkv. greiddu, ekki leyfa innflutning sterku drykkjanna, en 58% eru með því. Og þegar þess er gætt, að einungis 50% af kjósendum neyttu atkvæðisréttar síns, fer það að verða undarlega útlítandi þjóðarvilji, sem andbanningar skjóta sér nú sífellt á bak við. Eins og ég hefi sýnt fram á, eru það aðeins um 30% af kjósendum, sem mynda þennan þjóðarvilja þeirra andbanninga. Ég veit, að því verður borið við, að hinir hafi jafnt átt kost á því að neyta atkvæðisréttar síns. En svo var ekki. Þetta hefði mátt segja, ef kosningin hafði farið fram á þeim tíma árs, sem öllum er hentugur til þess að sækja mannfundi. Og ég fullyrði, að miklu minni hluti kvenþjóðarinnar hefir tekið þátt í þessari atkvgr. en t. d. alþingiskosningum. (BSt: Bannl. voru sett á áður en kvenfólk fékk kosningarrétt til Alþ.). Ég held, að ráðlegra væri að flíka því ekki, et einhverjir eru hér innan veggja, sem eru andvígir eins sjálfsagðri réttarbót og kosningarrétti kvenna. En ég mundi leggja sérstaklega mikið upp úr því, að hægt væri að fá álit kvenþjóðarinnar um þetta mál. Þetta er engin hræsni fyrir kvenþjóðinni, það er vitað, að hjá henni hefir bannið alltaf átt hauk í horni, og er það skiljanlegt. Afleiðingar ofdrykkjunnar koma ekki hvað sízt niður á konunum, og þær eiga því heimtingu á því að fá að hafa þann íhlutunarrétt um þessi mál, sem þeim ber samkv. l., óskertan. Að þessu öllu athuguðu þykist ég hafa fulla ástæðu til þess að leggja ekki mikið upp úr atkvgr. Ég hefi sýnt fram á, að hún var hreinasta kák, sem ekki sýndi neinn þjóðarvilja, og mun ég því greiða atkv. gegn frv. þessu. Við erum daglega að brýna það hver fyrir öðrum, hvað mikil ábyrgð hvíli á okkur og mikið ríði á því að gera vel og gera rétt. Ég held, að þetta mál sé prófsteinn á það, hvort við viljum gera vel og gera rétt. Og það er engin afsökun í því að ætla að skjóta sér bak við þá þjóðaratkvgr., sem ég hefi lýst.

Þá á ég eftir að athuga þá hlið þessa máls, sem mætir mönnum oftast hjá andbanningum. Rök þeirra munn flestum hv. þdm. ljós frá umr. um samskonar mál á undanförnum þingum. Ég skal nú rifja ofurlítið upp af þeim. Kostina við afnám bannsins og innflutning sterku vínanna telja þeir aðallega tvo. Í fyrsta lagi muni þá smygl og brugg leggjast niður. Ég dreg ekki dul á það, að hvorttveggja þetta, sem nefnt var, er blettur á þjóðinni. En ég fullyrði, að lækningin er ekki sú, að bæta við sterku drykkjunum. Ég skil ekki í því, að nokkur geti haldið því fram í alvöru, að unnið verði á smyglinu með því að leyfa innflutning sterkra vína. Nú ern sterkir drykkir alstaðar bannaðir innan landhelginnar, nema til erlendra sendiherra eftir vissum reglum. En með því að sterkir drykkir eru lögleyfðir, verður allt eftirlit erfiðara, því að ekki verður gott að þekkja það lögleyfða frá því bannaða. Og ég skil alls ekki, hvernig sterku drykkirnir eiga að geta útrýmt smyglinu; ég held þvert á móti, að það muni blómgast í skjóli þeirra. — Hvað bruggið áhrærir, þá þykir mér sennilegt, að eitthvað mundi úr því draga, ef sterku drykkirnir yrðu seldir svo ódýrt, að þeir gætu keppt við bruggaða vínið. En er það nú meiningin? Og væri æskilegt að selja þessi sterku vín sérstaklega ódýrt? Ég dreg enga dul á það, að ég tel það afaróheppilegt. — Eftir því sem mér er tjáð, er bruggið nú orðið svo útbreiddur atvinnuvegur, að svo að segja í hverri sveit eru til menn, sem stunda þessa atvinnu. Og framleiðslukostnaðurinn er ekki nema 1,50–2,00 kr. á flöskuna. eftir því sem mér er sagt. Ég skal ekki ábyrgjast, að þetta sé hárrétt, en hitt er víst, að allmargir munu hafa efnazt á bruggi. Og ekki er ég trúaður á það, að innflutningur lögleyfðra sterkra vína gæti tekið fyrir hvöt manna til þess að afla sér fjár á þennan hátt. Mér skilst, að flaskan af þessu sterka víni verði ekki seld ódýrar en 6 kr., það sé það minnsta, sem til mála gæti komið. Og með því verði gæti það ekki keppt við bruggaða áfengið. Ég játa það, að til geti verið menn, sem hafi haft um hönd ólöglega sterk vín, en myndu heldur kjósa að fá þau á löglegan hátt. En þetta held ég, að séu undantekningartilfelli, og þá helzt í Reykjavík. Það er vitanlegt, að bæði smyglið og bruggið er rekið í fjáröflunarskyni, og fyrir þá hvöt er ekki hægt að komast með lagabreytingum. En með lögleyfðum sterkum drykkjum er létt undir með smyglinu, því að þá er hægara að koma inn ólöglegu sterku áfengi í blóra við það löglega. — Ein ástæðan, sem færð hefir verið fyrir nauðsyn á innflutningi sterkra drykkja, er fjárhagsástand ríkissjóðs, því að þessi innflutningur muni geta drjúgar tekjur í ríkissjóðinn. Ég sé ekki, að svo verði, nema þá með því móti, að við hugsum okkur eitthvert ógurlegt áfengisflóð. Ég geri ráð fyrir, að áhrif einnar flösku af sterkum vínum samsvari áhrifum tveggja flaskna af léttari vínum. Ég verð þó að biðja velvirðingar á því, að hér tala ég ekki af reynslu. en ég dreg þessa ályktun af daglegum störfum, þegar ég blanda fóður handa kúnum mínum og hefi fóður, sem inniheldur 20 fóðureiningar, þá veit ég, að ég þarf helmingi meira at því en fóðri, sem inniheldur 40 fóðureiningar. Ég játa, að ég hefi ekki reynslu í þessum efnum eins og margir aðrir, eins og e. t. v. hv. sessunautur minn. (BSt: Já, sem betur fer hafa margir meira vit á þessu).

Mér virðist alveg óhugsandi að fá jafnmiklar tekjur af 1 flösku af sterkum drykkjum og af 2 af léttari vínum. Annars geta aðrir hér í deildinni, sem eru fagmenn, upplýst um það, og vænti ég þess, að þeir geri það. Ef svo er, að ekki eru meiri tekjur af einni flösku af sterkari drykkjum en af 2 flöskum léttari vína, þá fæ ég ekki skilið. hvernig tekjur ríkissjóðs eiga að aukast, nema áfengisnautnin vaxi stórkostlega. Ég hygg, að enginn maður hér innan veggja óski þess, að áfengisnautnin fari vaxandi, og vona, að það sé ekki tilgangurinn. Ég skal þá athuga þessa tekjumöguleika ríkissjóðs, sem eru af því að kaupa erlendis og flytja inn vöru, sem gerir ekki annað en illt, láta menn síðan kaupa þessa vöru, drekka frá sér vitið, gera sig að hálfvitum og aumingjum, missa kannske heilsuna og atvinnuna. Mér þykir þetta hryggileg aðferð, að afla tekna á þennan hátt, og held, að flestir telji þessa aðferð ekki heppilega. Ég hefi heyrt menn segja, að það væri ekki óeðlilegt, þó lægri stéttirnar í landinu njóti einhvers af þeim nautnum, sem fylgja því að nyta áfengis, og þá helzt verði því við komið, að sterkir drykkir flytjist inn, því af þeim þurfi minna. Ég veit, að lægri stéttirnar í landinu hafa ekki ráð á að fara á bíó, hafa ekki ráð á að veita sér sömu nautnir og betur launuðu stéttirnar, og fara því margs á mis. En ég held, að það sé hefndargjöf að gefa þeim kost á að veita sér þessa nautn. Ég held, að það sé svo, hvort sem telja má frekar kost eða löst, að áfengisnautnin sé miklu meiri — sem betur fer — hjá þeim, sem hafa betri kaupgetu. Ég er talsvert kunnugur verkamönnum úti um land og hefi ekki orðið var við, að drykkjuskapur sé algengur meðal þeirra, en miklu frekar hjá þeim, sem hafa mesta kaupgetu. Það er ekki neitt sérstaklega ánægjulegt, en er þó betra eða skárra — ef ég má nota það orð — skárra ástand heldur en ef með þessari ráðstöfun, með afnámi bannlagaslitursins, á að velta víninu yfir fátækari stéttirnar. Ég held, að þá fengju menn það böl, sem erfitt er að bæta. Ég skal taka það fram strax, að ég mun ekki beita neinu málþófi við afgreiðslu þessa máls, en ætla hér við 1. umr. að færa rök fyrir mínu máli og skýra mína afstöðu. Og ég vil segja það, að ég legg óhræddur mína afstöðu undir dóm sögunnar, og vildi óska þess, að allir alþm. gætu fengið sama dóminn. Þegar þetta spor er stigið á þingi 1934, þá er komizt svo að orði, að atvinnuvegirnir séu í rústum og ekki séu fundin nógu kröftug ráð til að bæta úr, einmitt þá eru bannlagaslitrin afnumin. Þetta er ekki sagt út í bláinn; það er sagt vegna reynslu, –vegna reynslu, sem fengin er við baráttu í 40 ár gegn þessum vágesti þjóðarinnar. Ég greiði því hiklaust atkv. móti afnámi bannlagaslitranna og er óhræddur við dóm kjósendanna, og þó mínir kjósendur hefðu verið svo ólánssamir að greiða atkv. með afnámi bannsins, hefði ég greitt atkv. á móti; en sem betur fer voru þeir svo lánssamir að neita afnámi bannlaganna. 1908, þegar þjóðaratkvgr. fór fram um bannið, var S-Múlasýsla sú sýsla, þar sem flestir greiddu atkv. móti bannlögum. Nú var hún með þeim kjördæmum, sem greiddu flest atkv. gegn því, að bannlagaslitrin væru afnumin. Þetta getur mér vonir um, að hin litla viðleitni mín og annara sýni nokkurn árangur. Ég veit, að þó okkur sýnist afturkippur í starfinu og oft gangi seint, þá er ég viss um að sigur næst. Ég er ekki í vafa um, að mannkynið kemst á það þroskastig að banna og meðhöndla áfengið eins og önnur eiturlyf. Alveg eins og ég er sannfærður um, að öll góð málefni sigra að lokum.