27.11.1934
Efri deild: 48. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2153 í B-deild Alþingistíðinda. (3311)

77. mál, áfengislög

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég vildi ekki láta fara svo fram 1. umr., að ég gerði ekki grein fyrir afstöðu minni til málsins, sérstaklega þó vegna þess, að það er hér frum komið fyrir tilstuðlan nokkurs hluta stjórnarinnar. Ég skal strax geta þess, að ég greiði atkv. móti frv.

Það er talið af forvígismönnum þessa máls, að frv., eða afnám bannlaga, hafi þrjá kosti. Í fyrsta lagi útrými það bruggi, í öðru lagi útrými það smygli, og í þriðja lagi auki það tekjur ríkissjóðs, og þá loks í fjórða lagi sé frv. fram komið vegna þjóðaratkvgr. Um þrjár fyrstu ástæðurnar, sem ég nefndi, er það að segja, að ég tel allar vonir manna, er þeir kunna að hafa í þær áttir, munu reynast tálvonir. Ég tel það hreint og beint barnalegt að láta sér detta í hug, að innflutningur sterkra drykkja útrými bruggi. Eftir þeim umr., sem fram hafa farið um málið í Nd., er þessi vara hugsuð sem álagningarvara, og þá helzt gróði bruggaranna eftir sem áður. Sama er að segja um smyglið; hvorttveggja þrífst betur í skjóli sterku drykkjanna.

Hv. 2. þm. S.-M. benti á, hve litlar væru tekjuvonirnar af þessu. Menn mundu fá ódýrara „fyllirí“ — ef svo má að orði kveða — og borga því lægri skatt fyrir að fylla sig, og þó að salan aukist eitthvað, er það bíræfni að gera ráð fyrir aukningu, svo verulegur tekjuauki verði að. Um þjóðaratkvgr. er það að segja, að hún sýnir ekki þjóðarviljann og það er ekkert upp úr henni leggjandi. Málið var illa undirbúið, mikill hluti manna vissi ekki hvað verið var að greiða atkv. um, var óánægður með ríkjandi ástand og vildi þess vegna fá breytingu. Og mikill þorri manna sat hjá, sem hefði greitt atkv., ef málið hefði legið skýrt fyrir.

Ég teldi réttasta afgreiðslu á þessu máli, eins og nú er komið, að lög þau, sem sett verða, nái ekki staðfestingu fyrr en þeim hefir verið skotið undir dóm þjóðarinnar með atkvæðagreiðslu. Ég hefi verið að þreifa fyrir mér um fylgi við þessa hugmynd hér innan þingsins, og ég hefi ekki von um, að það sé mikið, og veit því ekki, hvort ég kem með till. um að bæta þessu ákvæði inn í lögin. En ég endurtek það, að atkvgr. er þannig úr garði gerð, að ekkert er leggjandi upp úr henni. — Ég mun láta þetta nægja við þessa umr., en kem með mínar aths. við frv. við síðari umr.