10.12.1934
Neðri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2333 í B-deild Alþingistíðinda. (3324)

49. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Það fer mjög á milli mála hjá hv. þm., að hann geti fundið, að nokkur slík samþykkt hafi verið gerð í héraði, sem bendi til þess, að þessa lína frá Saurbæ að Þyrli hafi verið gerð að einkasímalínu, eða lögð sem slík. Það hefir verið gert aðeins um eina línu, sem liggur um Skilmannahrepp og Innri-Akraneshrepp. Enda var línan frá Saurbæ að Þyrli alveg byggð sem landssímalína. Tveir menn á svæðinu hafa svo fengið leyfi til þess að komast í samband við landssímalínuna með því að borga 200 kr. frá hverjum bæ.

Hv. frsm. sagði, að búið væri að ákveða að leggja línuna frá Grund að Indriðastöðum sem einkasímalínu. En það er nú búið að ákveða, að leggja þessa línu algerlega á kostnað ríkissjóðs. Á Indriðastöðum býr trúnaðarmaður Búnaðarfél. Ísl. í Borgarfjarðarsýslu, sem mælir jarðabætur o. þ. h., svo að nauðsynlegt er, að héraðsbúar komist í símasamband við hann.

Í Borgarfjarðarsýslu er ekki hægt að benda á eina einustu samþykkt, sem gerð hafi verið um það, að nokkur af þeim línum, sem ég hefi gert brtt. um, skyldi vera einkasímalína.

Það er ekki til neins að samþ. línuna í Skilmannahreppi. Mér hefir aldrei dottið í hug að bera fram till. í sambandi við það mál. Ef hér er um misskilning að ræða, þá er rétt, að n. athugi nánar till. landssímastjóra, og staðfesti svo, að ég fer hér með rétt mál. (GSv: Ég hefi talað við landssímastjóra). Það hefi ég líka gert og látið hið sama í ljós við hann og hv. frsm. Ég byggði á því sama við hann og ég hefi núna gert. Hv. frsm. getur spurt landssímastjóra. (GSv: Hvað sagði hann?). Er hv. þm. að rengja umsögn landssímastjóra? Ég vil bara biðja hv. frsm. að reyna að hnekkja því, sem ég hefi sagt. Ég hefi ekki haft tækifæri til þess að láta neina skýringu koma fram í þessu máli fyrr en núna. Ég hefi nú flutt hana fram hér og vænti þess, að n. taki hana til athugunar. Og þegar hið rétta hefir komið fram, þá vænti ég, að n. taki aðra afstöðu til málsins, og því geng ég inn á að taka brtt. aftur við þessa umr.