10.12.1934
Efri deild: 57. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2193 í B-deild Alþingistíðinda. (3334)

77. mál, áfengislög

Ingvar Pálmason [óyfirl.]:

Það virðist vera eins og hv. þdm. séu ekki eins ákafir eftir því að hlusta á umr. um þetta mál eins og fylgi þeirra er tryggt, eftir því sem hv. frsm. lýsti. Hann lýsti því yfir, að það væri tryggt, að málið gengi fram hér í d. En ef marka mætti fylgi við frv. eftir tölu þeirra hv. þdm., sem nú eru viðstaddir, þá hygg ég nú, að það sé heldur dauft hér í d. Það er kunnugt, að af þeim fáu hræðum, sem hér eru nú í d., þá hefir meira en helmingurinn lýst því yfir, að hann væri andvígur frv. En þrátt fyrir það, þó að hv. þdm. óski ekki eftir að ræða frv., vildi ég samt sem áður, eins og þingsköp heimila, fara nokkrum orðum um það nú við 2. umr.

Ég átti ýmsu ósvarað við 1. umr., sem fram kom eftir að ég talaði; ég féll þá frá orðinu vegna þess, að mér skildist á hv. þdm. að þeir óska, að málið fengi að ganga undir atkv. án frekari umr., og þó ekki sízt vegna þess, að mér virtist afarmikill uggur í sumum um það, að við hv. 4. þm. Reykv. hefðum í hyggju að beita hér málþófi og hindra þannig framgang þessa máls. Við gáfum þó enga ástæðu til, að slíkt væri álítið, en að nokkur uggur var í hv. dm., má m. a. ráða af því, að d. brá út af þeirri föstu þingvenju að vísa málum til sömu n. í báðum d. Var auðheyrt á sumum hv. dm., að þetta var af ótta við það, að við hv. 4. þm. Reykv., sem báðir eigum sæti í þeirri n., sem málið að réttu lagi heyrði undir, mundum gera því einhvern ógreiða. Þetta ber vott um, að hv. þm. finnst, að þeir séu með þetta „þjóðþrifamál“ í svo brothættu keri, að þeir eru hræddir um, að jafnvel ekki meiri garpar heldur en við hv. 4. þm. Reykv. erum e. t. v. brjótum það. Ég vildi náttúrlega gjarnan vera svo mikill garpur, en ef fylgi hv. d. við þetta þarfa frv. er svo öruggt, að því sé fyrirfram tryggður framgangur, eins og haldið er fram, þá er gefin sök, að það þarf meira en meðalmann til þess að draga það úr höndum hennar. Og ég skal bæta því við, hv. dm. til hughreystingar, að ég mun láta niður falla frekari umr. um málið almennt, þó þarflegt hefði að vísu verið, ekki vegna hv. þm., sem vilja ekki einu sinni hlusta á umr. um málið, heldur vegna þeirra, sem kynnu að líta einhverntíma í Alþt., að færa fram ennþá ýtarlegri rök heldur en gert var við l. umr. gegn þessu frv., sem undir öllum kringumstæðum verður að teljast allt annað en þjóðnytjamál.

Ég get þó ekki látið hjá líða, þar sem tilefni gafst til þess við þessa umr., að fara örfáum orðum um undirbúning þessa máls. Hv. frsm. sagði, að frv. væri vel og rækilega undirbúið. Það má vel vera, að mikill viðbúnaður hafi verið hafður og mikil vinna lögð í verkið. en árangurinn er sáralítill. Því ekki einu sinni þeim ákvæðum gildandi áfengislaga, sem mest hneyksluðu hv. frsm. við 1. umr., hefir verið breytt. Ég man ekki betur en hv. frsm. líkti refsiákvæðum áfengislaganna við Stóradóm, en þó er varla hægt að segja, að í þeim sé haggað nokkrum staf með þessu frv. Hvað mikla elju, sem andbanningar hafa lagt fram, og hvað mikla peninga sem hinn mikli undirbúningur hefir kostað, þá hefir hann ekki borið annan árangur en þann, að koma inn sterku drykkjunum. Og það voru hv. þm. búnir að bera fram till. um á undanfarandi þingum undirbúningslaust.

Nei, ég get ekki annað séð en undirbúningur þessa máls sé að öllu leyti mjög lélegur, sérstaklega vegna þess, að í frv. vantar algerlega ákvæði um það, sem hv. andbanningar þó viðurkenna að nú eigi fyrst og fremst að vinna að, en það er að fyrirbyggja misnotkun áfengis og efla sem mest bindindisfræðslu í landinu. Þetta er það, sem vantar í undirbúning málsins; það hefir alltaf vantað og vantar ennþá. Andbanningar lofa öllu góðu í þessu efni, en það vill minna verða um efndirnar. Þeir segja, að það sé ekki til neins að beita hörðu og hræða fólkið með hörðum refsingum, það eigi að efla frjálsa bindindisstarfsemi og leggja áherzlu á bindindisfræðslu. En hvað margir af þessum mönnum ganga í bindindisfélög? Og hvað gera þeir til þess að efla bindindisfræðslu? Ekkert.

Ég skal svo ekki þreyta hv. d. með meiri umr. um málið almennt, en vil víkja nokkrum orðum að brtt. okkar hv. 1. þm. Reykv. á þskj. 714.

1. brtt. er við 3. gr. og er þess efnis, að niður falli niðurlagsorð 2. málsgr. Við gerum nefnilega ráð fyrir, að það sé algerlega óþarft að ætla skipum, sem fara hér með ströndum landsins, að hafa skipsforða af áfengi óinnsiglaðan til neyzlu handa skipverjum. Mig furðar á því, ef þeir þjóðhollu menn, sem eru að berjast fyrir því, að föðurlandið fái sem mestar tekjur af brennivíninu, sjá ekki, að það er eðlilegast, að ef skipverjar á skipum hér við land vilja fá áfengi, þá kaupi þeir það af áfengisverzlun ríkisins. Það er þeim frjálst. Úr því ekki má hafa um hönd annað áfengi innan íslenzkrar landhelgi heldur en það, sem áfengisverzlun ríkisins selur, þá virðist rétt, að þetta undanþáguákvæði falli einnig niður. Þar af leiðir b-lið brtt., þar sem við leggjum til, að l. málsgr. sömu gr. falli niður, því ef ekki er leyfilegt að hafa óinnsiglað vín um borð í skipum, sem hafast við hér við land, þá þarf dómsmrh. vitanlega ekki að setja reglur um meðferð þess.

Þá kemur 2. brtt., við 9. gr. Það vill svo vel til, að meginhluti hennar fellur saman við brtt. n. Þó eru í brtt. okkar nokkuð víðtækari ákvæði. N. virðist okkur sammála um það, að ákvörðunarrétturinn um útsölu vína eigi ekki einungis að miðast við íbúa þeirra kauptúna, sem vínin yrðu seld í, heldur eigi hann einnig að ná til umhverfis þeirra. En við viljum ennfremur láta þennan ákvörðunarrétt að því er sterku vínin snertir ná til þeirra staða, þar sem nú eru útsölur léttra vína. Það virðist mjög ósanngjarnt, þar sem útsölur Spánarvínanna voru á mörgum stöðum settar upp þvert á móti vilja íbúanna, ef þar á ofan á að taka af þeim réttinn, sem öðrum borgurum landsins er veittur, til þess að ákveða, hvort útsala sterku vínanna skuli leyfð. (JÁJ: Hvað segja Spánarsamningarnir?). Það er nú búið að hampa þeirri grýlu svo mikið, að menn fara varla að óttast hana úr þessu. Hér er aðeins að ræða um, hvort bæta á útsölu sterku vínanna við, og Spánverjum er sjálfsagt engin þægð í því, þó farið sé að selja danskt kornbrennivín við hliðina á þeirra vínum. (JÁJ: Ætli þeir vilji ekki gjarnan selja hér koníak og líkör líka?). Hv. þm. veit vel, að það er aðallega brennivín, sem inn verður flutt, og það er barnaskapur að álíta, að það verði Spánverjum til nokkurra hagsbóta, þó leyfðar verði útsölur sterkra vína.

Í síðari málsgr. 2. brtt. förum við fram á, að í stað þess, að frv. gerir ráð fyrir, að þar, sem fellt hefir verið með atkvgr. að setja á stofn útsölu, megi ekki fara fram atkvgr. aftur fyrr en eftir tvö ár, þá skuli ekki endurtaka slíka atkvgr. fyrr en eftir fjögur ár.

Þá er brtt. okkar við 11. gr. Get ég hugsað mér, að ýmsum þyki þar nokkuð langt gengið, en þessi ákvæði hafa þann kost, að það eru engin vandkvæði á að framfylgja þeim. Það er enginn vafi á því, að ef einhver vilji er á því, þá er hægt að setja þau skilyrði fyrir vínveitingaleyfi, sem brtt. tiltekur, og sjá um, að þau séu uppfyllt. Að veitingar fari aðeins fram í veitingasölum og aðeins í sambandi við máltíðir, að veitingar fari aldrei fram eftir kl. 9 að kvöldi, og að veitingar fari aldrei fram í sambandi við dansskemmtanir. Ekkert af þessu er eins erfitt að framkvæma eins og ýmislegt, sem er fyrir í frv. og fylgismenn þess hafa ekki mikið við að athuga. En þetta er einmitt það, sem máli skiptir, sem tekur á kýlunum og reynir á heilindi þeirra manna, sem prédika allar mögulegar varnir gegn „misnotkun áfengis“. Menn eiga aðeins að nota þennan heilnæma drykk til þess að hressa sig og auka matarlystina, segja þeir; það á svo sem ekki að vera að fara á fyllirí. Þeir, sem greiða atkv. á móti þessum ákvæðum, sýna það, að þeim er engin alvara, þegar þeir eru að tala um, að þeir vilji draga úr áfengisbölinu.

Þá er brtt. við 12. gr. Hún er í tveimur stafl., og fer sá fyrri fram á, að ákveðið sé í l. hámark útsölulauna á útsölustöðum. Er það gert með það fyrir augum að minnka hvötina til þess að ota víni að fólkinu. Því minni sem hagsmunavon útsölumannsins er, því minna gerir hann til þess að koma vínunum út. Ég fyrir mitt leyti ætlast til, að þetta ákvæði geri það að verkum, að alls ekki verði samið um prósentur, heldur verði útsölumönnum greidd viss upphæð fyrir útsölustarfið. Það er vitanlegt hvað brugg og smyglun snertir, að hagsmunavonin hefir verið sterkasta hvötin. Það má segja Íslendingum til hróss, að það er ekki ílöngunin í áfengi, sem þar hefir verið mest að verki, heldur fjáröflunarhvötin. Og í samræmi við það viljum við takmarka útsölulaunin við 10%.

Þá er b-liðurinn, sem fer fram á, að ákveðið sé hámark þess áfengismagns, sem útsölur mega láta af hendi í einu. Því hefir verið haldið fram, ekki síður af stuðningsmönnum þessa frv. en andstæðingum þess, að geysimikið væri um brugg og smyglun úti um land. Skal ég ekki draga fjöður yfir, að töluvert sé um það. En hvað verður, þegar þetta frv. er komið í gildi? Það mun hvorki minnka bruggun né smyglun, en þriðji liðurinn bætist við, launsölurnar á löglega innfluttu áfengi. Það verður líklega stærsti árangur þessa frv. Einmitt til þess að hindra það, viljum við, að þetta ákvæði sé sett inn í frv. Ég býst nú við, að gamla viðkvæðið kveði við hjá hv. fylgismönnum frv., að það sé ekki til neins að setja þetta ákvæði, því það sé ekki hægt að framfylgja því. En það er þá ekki heldur til neins að setja neinar hömlur. Við getum þá strikað yfir þetta allt saman, allt veldur það fyrirhöfn, ef það á að koma að nokkru gagni, og það má segja, að það sé ákaflega erfitt að standa í öllu þessu bölvuðu stímabraki. Nei, við megum ekki horfa í fyrirhöfnina; það leiðir af sjálfu sér, að það verður að leggja eitthvað á sig til þess að framfylgja þessum lögum eins og öðrum.

Þá er 5. brtt. okkar, við 16. gr., um að aftan við gr. bætist ný málsgr. þess efnis, að óheimilt sé öllum öðrum en áfengisverzlun ríkisins að flytja áfengi um þau héruð, þar sem útsala áfengis hefir ekki verið leyfð. Ég hygg, að ef það á að vera nokkuð annað en yfirskin að veita héruðum þennan rétt til þess að halda sér þurrum eftir megni, þá sé nauðsynlegt að setja ákvæði sem þetta. Eigi að vera heimilt að flytja vín óhindrað um þessi héruð jafnt og önnur, þá sjá allir, hvað af því leiðir.

6. brtt. okkar er við 17. gr. Þar er farið fram á, að orðin „nema leyfi lögreglustjóra komi til“ falli burt. Þarna er um að ræða að banna að neyta áfengis í veitingastofum, veitingatjöldum og á öðrum veitingastöðum og að ekkert félag megi hafa um hönd áfengisnautn í félagsskap eða félagsherbergjum, hvort sem þau eru í húsi félagsins eða annara. Ef nokkur alvara er í að banna þetta, þá eigum við að þora að banna það undantekningarlaust og ekki gera lögreglustjórum þann ógreiða að láta þá aldrei hafa frið fyrir nauði manna um undanþágur. Þetta eru undanþágur, sem engin þörf er á, en lögreglustjórar undir vissum kringumstæðum mundu illa komast hjá að veita, og þegar fordæmi væri gefið, er bágt að segja, hvar staðar yrði numið. Ég tel því sjálfsagt að samþ. þessa brtt., ekki einungis til þess að draga úr áfengisnautninni, heldur einnig til þess að fría lögreglustjóra við áleitni þeirra, sem undanþáguheimildina vilja nota sér.

Þá kemur 7. brtt., sem ég tel víst, að ekki þurfi að fara mörgum orðum um. Ef dæma á eftir allri þeirri velvild, sem kemur fram hjá hv. þm. í garð bindindismanna, hlýtur hún að verða samþ. Brtt. þessi hljóðar um það, að ríkisstj. skipi sér til aðstoðar ráðunaut í áfengismálum, að fengnum till. frá þeim bindindisfélögum, sem styrks njóta af opinberu fé. Býst ég ekki við að þurfa að tala mikið fyrir henni, — hún er svo sjálfsögð, ef það er á annað borð ekki eini tilgangur frv. að fá sem mest brennivín inn í landið, sem ég vona að ekki sé. Því allar ræður hv. þm. ganga út á, hvað þeim sé bölvanlega við alla ofdrykkju og að frv. sé bara til þess að bæta úr ástandinu. Leggja þeir þá væntanlega ekki stein í götu þeirra manna, sem vilja hafa á og líklegastir eru til að koma með ráð, sem duga til þess að bæta úr því ástandi, sem er.

A-liður 8. brtt. er afleiðing af 7. brtt., um að leitað skuli till. áfengismálaráðunauts áður en ákveðið er verksvið áfengisvarnanefnda. — B-liðurinn er aftur á móti alveg sjálfstæður. Hann fer fram á það, að ríkisstj. láti auglýsa á skipum, sem annast farþegaflutning með ströndum landsins, á veitingahúsum, pósthúsum og símastöðum og öðrum þeim stöðum, sem þurfa þykir, útdrátt úr lögum þessum. Það er fordæmi fyrir því, að ríkisstj. hefir látið auglýsa mikilsverð lög á viðeigandi stöðum, og það er sjálfsagt að kynna fólki svo vel þessi lög, að það geti ekki haft sér til afsökunar, að það hafi ekki vitað um ákvæði þeirra.

Þá átti ég eftir að drepa á örfá atriði í ræðu hv. frsm., þegar hann var að mæla fyrir brtt. n.; skal ég minnast á þær af þeim, sem ég hefi ekki þegar talað um.

Um 2. brtt. n. er það að segja, að ég sé ekki annað en þar sé verið að draga úr því litla öryggi, sem í frv. er. Það á sem sé að gera upp á milli þeirra, sem gerast brotlegir við lögin, og nota þá skilgreiningu, sem hv. frsm. dæmdi svo hart hér ekki alls fyrir löngu. Hann taldi ákaflega óviðeigandi að tala um meiri háttar og minni háttar embættisstörf, en nú vill hann greina brot gegn lögum þessum í meiri háttar og minni háttar brot og ekki láta minni háttar brot valda því, að ekki megi selja viðkomandi manni vín eftir sem áður. Ég tel, að frv. eigi að standa óbreytt hvað þetta snertir. Til glöggvunar skal ég lesa upp, hvernig þetta er orðað. Brtt. er við 13. gr., þar sem segir svo: „Áfengi má ekki afhenda né veita neinum, sem er bersýnilega ölvaður, og ekki heldur yngri mönnum en 21 árs. Einnig er bannað að selja þeim manni áfengi, er sekur hefir gerzt um óleyfilega sölu eða aðra óleyfilega meðferð áfengis“. Nefndin vill fella niður orðin „eða aðra óleyfilega meðferð áfengis“. Mér skildist, að frsm. teldi, að þetta ákvæði myndi verða svo erfitt í framkvæmd, að það ætti ekki að vera í lögum. Það var líka á honum að heyra, að hann áliti það ekki svo saknæmt að brugga eða smygla handa sjálfum sér. Ég skal ekki neita því, að nokkur stigmunur sé á hinum ýmsu brotum gegn áfengislöggjöfinni, en allt eru það lagbrot, og tilgangurinn er sá, að þeir, sem hafa orðið brotlegir við lögin, fái ekki keypt áfengi.

3. brtt. er aðeins leiðrétting. t. brtt. er til bóta. Hún er ákveðnari en orðalag frv. Það er fyllilega réttmætt, að bifreiðarstjóri, vélstjóri eða skipstjóri, sem vanrækir starf sitt sökum drykkjuskapar, fái refsingu. 5. brtt. er leiðrétting.

Ég hefi því vikið nokkuð að brtt. okkar og nefndarinnar. Ég tel, að brtt. okkar við 9. gr. sé víðtækari en brtt. n. og eigi því að berast upp á undan.

Þá liggur fyrir brtt. frá hv. 4. landsk. við 9. gr. Ég er andvígur þessari till., þótt hún sé til bóta við frv. eins og það er nú. Efni hennar er það, að þeir kaupstaðir utan Rvíkur, sem nú hafa Spánarvínaútsölur, megi greiða atkv. um það, hvort þeir óski eftir sterku vínunum í viðbót. En till. hefir þann ókost, að ætlazt er til, að einfaldur meiri hluti ráði úrslitum. Auðvitað má um það deila, hvort réttara sé, að einfaldur meiri hl. ráði, eða viss lágmarkshluti kjósenda, eins og ákveðið er í frv. En ákvæðið er í frv. og Nd. hefir talið rétt, að það stæði þar, og ég vil ekki missa það þaðan, þótt auðvitað megi færa margt fram því til stuðnings, að einfaldur meiri hl. ráði í þessu sem öðru. Ég gæti þó gengið að þessari brtt. að okkar brtt. felldum, þótt ég telji sjálfsagt, að Rvík fái einnig þennan ákvörðunarrétt.

Ég vona, að hv. deild taki till. okkar hv. 4. þm. Reykv. vinsamlega, og frsm. n. einnig, því að mér heyrðist á honum, að hann og n. væru sammála um það, að að því bæri að vinna, að tjón af þessari löggjöf verði sem allra minnst.