10.12.1934
Efri deild: 57. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2209 í B-deild Alþingistíðinda. (3342)

77. mál, áfengislög

Ingvar Pálmason [óyfirl.]:

Þó að svo sé, að hv. frsm. n. og flm.till. á þskj. 414 virðist bera lítið á milli, verð ég að fara nokkrum orðum um þær aths., sem hv. frsm. gerði við brtt. okkar.

Ég kannast ekki við að hafa gert lítið úr starfi hv. fjhn. Ég sagði, að brtt. þeirra væru ekki mikilsverðar, en að öðru leyti veik ég ekki að því, hvernig starfið hefði farið þeim úr hendi.

Hv. frsm. sagði um 1. brtt., að sér fyndist eðlilegt, þar sem þau ákvæði væru í l., að skip mættu hafa óinnsiglað áfengi um borð, að þá héldi það áfram. Það eru engin rök út af fyrir sig. Ef ekki væru aðrar ástæður, þá ætti að sjálfsögðu að nema þetta úr gildi. Hann sagði líka, að ef brtt. næði samþykki, þá yrði líka að lagfæra orðalagið á 3. málsgr. 3. gr., og get ég fallizt á það.

Þá varð hv. þm. tíðrætt um 2. brtt. okkar og tók hana fyrir í stafliðum, sem eðlilegt er. En það þótti mér einkennilegt, sem hann sagði um a-lið, að hann væri í sjálfu sér góður, en þýðingarlítill. Sagði hann, að menn myndu þá fá sér egg eða eitthvað þess háttar, til þess að geta fengið vín, ef það mætti ekki veita nema með mat. Okkur er ekkert aðalatriði, að menn verði að kaupa jafnframt víninu mikinn mat, heldur hitt, að þessir veitingastaðir verði ekki sóttir eingöngu til að drekka vín. Andbanningar segja það hollt og gott að fá sér í staupinu með mat, og viljum við láta það eftir þeim að njóta þessa, en við treystum þeim aftur á móti til að misnota það ekki.

Um b-liðinn sagði hv. þm., að ákvæði þess efnis, að veitingar víns væru ekki leyfðar eftir kl. 9, hefðu áður verið í l. og gefizt illa. Menn hefðu bara hellt sig fulla fyrir kl. 9. Við því verður ekki gert að menn drekki of mikið. En á því er þó mikill munur, hvort menn mega halda áfram fram yfir kl. 9 eða eru stöðvaðir þá. Ég skil ekki, að menn missi vínlöngunina eftir kl. 9, og ef svo er, þá er þeim þetta skaðlaust. Og ef setja á hömlur í þessu efni, þá er betra, að þær komi kl. 9 en 12. Hann gerði ráð fyrir, að þeir, sem illa er við að hætta kl. 9, myndu þá halda áfram annarsstaðar. Hvernig? Annarsstaðar á ekki að vera hægt að fá vín. Það er þetta, sem gengur gegnum allar ræður hv. þm., að þessi ákvæði muni ekki verða haldin. Þessum mönnum væri bezt að segja hreinskilnislega, að bezt væri að hafa engar varnir og selja vín sem víðast.

Um c-lið sagði, hann, að það væri að vísu gott, að ekki væri selt vín á dansleikjum. En svo sagði hann, að vasapelar kæmu í staðinn. Sjálfur lagasmiðurinn hefir ekki trú á því, að l. þau, sem samin eru, verði haldin. Ég get trúað, að hann greiði atkv. á móti þessu öllu saman, því að hann hefir enga trú á því. Hann endaði með því að segja, að þetta væru góðir liðir, en óframkvæmanlegir.

Ég sé ekki betur en að það sé í lófa lagið að sjá svo um, að vín verði ekki veitt eftir kl. 9 á veitingahúsum. Eins að hafa eftirlit með því, að vín verði ekki veitt nema með mat. Þetta fer allt fram á opinberum stöðum, þar sem lögreglumenn geta verið viðstaddir. Eins er um dansskemmtanir. Þessir liðir okkar eru því þær varnir, sem bezt er að framkvæma.

Þá sagði hv. þm. um brtt. við 12. gr., e-lið, að sú grg. væri rétt, sem ég hefði gert fyrir henni, að því meiri sem hagnaðarvonin væri, því meira myndi verða selt af áfengi, en svo bætir hann við: Ég býst ekki við, að þessi rök standi. Hvers vegna? Það skýrir hann á þann hátt, að þegar ekki eru greidd nema 10% sölulaun, þarf að selja meira en þegar greidd eru 30% sölulaun til að ná sömu tekjum, og hagnaðurinn því minni. Þetta veit ég ósköp vel. Það er áreiðanlegt, þegar hagnaðurinn er minni eða sölulaunin aðeins 10%, þá kæra veitingahúsin sig ekki um að hafa áfengið til sölu. Þetta er líka það, sem ég meina. Þess vegna vil ég hafa sölulaunin svona lág, að ég álít, að þá sé ekki gróðavon af að selja áfengi á veitingahúsum; ég veit, að það fylgja því óþægindi fyrir veitingahúsin að selja vín. Þegar þetta er skoðað í mínu ljósi, er brtt. sjálfsögð, þ. e. a. s. fyrir þá, sem ekki skoða vínveitingaleyfið sem nauðsynlegan stuðning fyrir viss veitingahús. Ef litið er á málið frá þeirri hlið, þá er réttmætt að hafa álagninguna meiri eða sölulaunin hærri. Þetta fer allt eftir því, hvað menn vilja. Þeir, sem vilja gera lögin þannig úr gerði, að sem minnst tjón verði af, fylgja brtt. okkar tvímenninganna. Hinir, sem vilja gera áfengið að gróðalind fyrir einstaka menn, verða auðvitað ekki með því að minnka hagnaðarvonina af því að selja vínin. Hv. frsm. sagðist vera alveg sammála um, að á útsölustöðunum ætti að semja við útsölumenn um ákveðna þóknun, en ekki greiða hundraðshluta. Ég er honum þakklátur fyrir það, og ekki ber mikið á milli í þessum efnum. Það snýst þá helzt um, hvort vínið á að verða tekjulind fyrir einstöku veitingahús eða ekki. Ég geri nú fastlega ráð fyrir, að hæstv. stj., sem nú situr, muni semja við útsölumenn um ákveðna þóknun, en ekki miða við sölumagn.

Um 6. liðinn í brtt., sem kveður svo á, að ekki sé heimilt að selja einum manni meira en 5 lítra í senn, sagðist frsm. viðurkenna tilganginn, en efaðist um, að honum yrði náð með þessu ákvæði. Taldi hann réttara, að brtt. færi fram á þannig löguð ákvæði, að segja hvað mætti selja einstakling mest á mánuði eða ári. Ég skal geta þess, að ég er fús til samkomulags um þetta atriði, og er ekki hræddur um, að við munum ekki koma okkur saman um þetta, og vil ég bjóðast til að taka þennan lið aftur til 3. umr. og færa hann þá í það horf, sem frsm. sættir sig við.

Þá er það 5. brtt., við 16. gr. frv., sem er þess efnis, að öllum öðrum en áfengisverzl. ríkisins og útsölustöðum hennar sé óheimilt að flytja áfengi inn í annað lögsagnarumdæmi. Mótbáran var sú sama og kom fram við aðrar brtt. okkar, að hv. frsm. taldi þetta óframkvæmanlegt. Og hann kvað sterkara að orði síðar í ræðu sinni. Hann tók dæmi, að maður úr Árnessýslu — (BSt: Ég sagði Rangárvallas.). Jæja, það getur vel verið, mig minnir samt, að frsm. tæki til Árnessýslu, en það skiptir litlu máli. Hann tók dæmi, að þessi maður keypti flösku hér í Rvík, hvernig ætti hann að fara að, ef hann mætti ekki flytja hana heim. (BSt: Hann má drekka úr flöskunni náttúrlega). Ég hélt. að hv. frsm. væri kominn til svo mikils skilnings, af því hann fékk nú heiðurinn af að fara yfir þetta frv. í nefnd, að hann skildi, hvað átt væri við með þessari till. Það, sem átt er við með brtt., er ekki annað en það, að reyna að fyrirbyggja það böl, sem andbanningar sjálfir hafa sagt og viðurkennt, að erfiðast væri að eiga við a. m. k. hér á Suðurlandi, sem sé áfengið í bílunum, og ég hefi gengið út frá, að það væri satt. (BSt: Það er bannað að neita víns). Það veit ég vel. En þar sem gengið er út frá, að ákvæði laganna verði ekki haldin, vildi ég gera sem tryggilegast ákvæði um, að þau yrðu ekki brotin, og þetta er einmitt tilraun til að draga úr þeirri hættu. Þetta torveldar ekki að verulegu leyti fyrir þeim, sem fjær búa, að ná í áfengi, en þeir mega bara ekki hafa það með höndum fyrr en á ákvörðunarstað. Ég tek ekki til greina fjarstæðu eins og það, að ekki megi taka móti flösku á pósthúsi og flytja heim. Það sjá allir heilvita menn, að hver einasti bíll getur verið fullur af áfengi, og sagt sem svo, að hann sé að flytja fyrir nágranna sinn. Ég verð að segja eins og er, að ef mönnum er alvara að setja ákvæði í lögin, er koma að gagni, þá geta þeir ekki fundið sig í því að nota hártoganir sem aðalrök. En það er heldur engum blöðum um það að fletta, að ef sent er áfengi á ákvörðunarstað, merkt viðtakanda, þá er honum heimilt að taka þar á móti því. Hitt er annað mái, að ég tel ekki heimilt, ef mér er sent áfengi til Seyðisfjarðar, að afhenda það öðrum en mér, því öðrum væri óheimilt að flytja það. Ef hv. nefnd athugar þessar till. og telur að það megi gera þessi ákvæði fyllri, þá er ég fús til samstarfs. En ég held, að ef ekkert er gert til að fyrirbyggja þann ósóma, sem mér er tjáð, að gerist í bílunum hér sunnanlands, þá muni afleiðingar þess sjást fljótlega.

Mér þykir óviðkunnanlegt, að jafnhygginn maður og frsm. er, skuli ekki taka alvarlega þessar brtt. Um 6. brtt. sagði hann það eitt, að nm. hefðu óbundnar hendur um atkv. sitt. En það fylgdi sá böggull skammrifi, að þó ekki væri mikið við hana að athuga, þurfti hann að geta þess, að þó afnumið yrði, að lögreglustjórum væri heimilt að veita leyfi, mundi áfengið notað eftir sem áður á ólöglegan hátt. Það er alltaf sama vantraustið á því, að ákvæði laganna verði haldin. Þetta kom alstaðar fram í ræðu hv. frsm.

Um 7. brtt. hafði hann ekkert nema allt gott að segja, en áleit hana óþarfa, því hvað væri eðlilegra en að stórtemplar væri ráðunautur ráðh. í áfengismálum. (BSt: Þetta er ekki rétt farið með, ef ég má grípa fram í og leiðrétta. Ég taldi, að eðlilegast væri, að stórtemplar hefði ráðgefandi rétt til ráðh.). Ég verð að segja, að það er erfitt að fara rétt með orð eftir þessum hv. þm. eða vandfarið, þegar hann segir, að það sé ekki rétt, sem ég skrifaði orðrétt niður eftir honum. (BSt: Ætli það hafi verið orðrétt? Ég sagði fleira). Já, það er alveg rétt, ég skrifaði ekki alla ræðuna. En ég vil spyrja: Hvernig stendur á því, að ekki má setja þetta í frv., úr því ekki er nema gott eitt um þetta að segja og þetta er eðlilegt? Ef það er þetta eitt, sem ber á milli, að hann vilji ekki lögfesta, að stórtemplar sé ráðunautur, því þá ekki að leita samkomulags um þetta, ef honum er þetta svo ríkt í huga, að hann telji það sjálfsagt? Ég teldi eðlilegt, að ráðunauturinn yrði skipaður að fengnum till. allra bindindisfélaga í landinu, og ef þeim finnst rétt, að stórtemplar verði það, þá er auðvitað allt það bezta um það að segja. Ég hefi heyrt. að sumir telja, að ekki sé víst, að reglan verði eilíf, og það gæti komið annar félagsskapur með sama markmiði, og þá tel ég réttara, að ekki væri bundið við stórtemplar. Um 8. brtt., a-liðinn, er það rétt, að hann er afleiðing eða beint áframhald af 7. gr. Þar um sagði hv. frsm. þetta sama, að ekki væri nema gott eitt að segja, en þetta væri bara framkvæmdaratriði. En fyrst það er gott, er þá nokkuð á móti því, að það sé sett í lögin? Ef það væri vont, þá skildi ég, að það mætti ekki koma í lögin, en mér finnst sjálfsagður hlutur, ef manni finnst eitthvað gott, að fylgja því fram.

Svo endaði hv. frsm. ræðu sína með því að láta uppi gremju sína yfir því, hvað ég hefði haft rangt eftir sér við 1. umr. — Ég skal ekkert um það segja, en nokkuð var, að hann leiðrétti mig ekki þá í þeirri ræðu, sem hann átti kost á að flytja. (BSt: Ég flutti enga ræðu þá á eftir). Ég sagði það heldur ekki, heldur að hann hefði átt kost á að flytja. Annars skal ég ekki pera um það, en hann var ekki búinn að nota sinn ræðutíma, og virðist mér koma hér skýrt fram, að flutnings- eða meðhaldsmönnum þessa frv. er ekki vel við miklar umr. um málið, en hv. frsm. var búinn að kveðja sér hljóðs, en féll frá orðinu, sem ég gerði líka, því ég vildi fara að hans dæmi og hvíla deildina til þessarar umr.

Ég hefði ekkert haft á móti því, að hv. frsm. tæki upp þráðinn nú við þessa umr. Ég gat þess hér fyrr í dag, að af því ég hefði átt mörgu ósvarað, en frsm. minntist ekki á þetta, sá ég ekki ástæðu til að taka upp þráðinn aftur.

Hv. frsm. bar á mig mikið hól — og meira en ég á skilið —, en það fór um það eins og um brtt., að þegar hann hafði borið á mig mikið hrós, þá varð ekkert úr gæðunum. Vildi hann heimfæra, að það kæmi til af því, að ég hefði ekki rétta trúarskoðun, vildi hann tileinka það þessari sérstöku trúarskoðun, sem hefði leitt mig afvega í þessum málum. Það er satt, að ég hefi aðra trú í þessu máli en hv. frsm. (BSt: Ég hefi skoðun, en ekki trú). Hér getur ekki verið um skoðun að ræða, því hér er framtíðin; sem við vitum ekki um, heldur verðum að trúa um.

Ég vildi mega vænta þess, að hv. þm. láti sinn betri helming — ekki konuna, heldur þann helming sinnar eigin persónu, sem sagði í ræðunni, að brtt. væru góðar, en ekki þann helming, sem hafði ýmislegt við þær að athuga og gat ekkert fengið út úr þeim — ráða, er hann greiddi atkv. Þá veit ég, að hann greiddi atkv. með þeim brtt., sem hann taldi, að ekkert nema gott væri um að segja.