12.12.1934
Efri deild: 59. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2214 í B-deild Alþingistíðinda. (3348)

77. mál, áfengislög

Ingvar Pálmason [óyfirl.]:

Ég og hv. 4. þm. Reykv. höfum borið fram brtt. á þskj. 770. Sú fyrri er við 12. gr. og er að mestu leyti sama efnis og brtt. sú, sem ég tók aftur við 2. umr. þessa máls. Hún er eingöngu fram borin vegna þess, að mér fannst sennilegra, að hún næði frekar fram að ganga hér í hv. deild, þar sem hún er breytt að forminu til frá því, sem hún var. Eins og hv. þdm. sjá, er efni hennar það, að heimilað er, að í reglugerð megi ákveða hámark þess áfengis, sem áfengisverzlunin og útsölur megi afhenda einstaklingum, svo og setja nánari reglur um meðferð áfengis. Ég hygg, að þær verði ekki færri en þrjár reglugerðirnar, sem setja þarf í sambandi við þessi lög. En að því er snertir efni brtt. þessarar, þá trúi ég ekki öðru en að hv. dm. geti fallizt á að gefa þessa heimild, því að vel getur komið til mála að taka upp slíkt fyrirkomulag hér, sem þar er bent til. Líkt fyrirkomulag sem þetta hefir að undanförnu verið notað í Svíþjóð og talið reynast vel. Vænti ég því, að hv. dm. samþ. þessa brtt.

Þá er hin brtt., sem er við 17. gr. Hún er þess efnis, að aftan við 1. málsgr. þessarar gr. bætist orðin: „Svo og í bifreiðum, er flytja farþega.“ Þessi fyrri málsgr. 17. gr. hljóðar svo: „Bannað er að neyta áfengis í veitingastofum, veitingatjöldum eða öðrum stöðum, þar sem veitingar fara fram.“ Hér er því farið fram á, að bannað verði einnig að neyta áfengis í bílum, sem flytja farþega. Það hefir nefnil. komið fram undir umr., að ýmsir kunnugir telja, að mjög mikill drykkjuskapur fari fram í bifreiðum. Ég er sjálfur ekki kunnugur þessu, en þar sem þetta er fullyrt af skilgóðum mönnum, þá tel ég engan vafa geta á því leikið, að þetta sé rétt, og því tel ég sjálfsagt að reyna að koma í veg fyrir, að mikill drykkjuskapur sé látinn viðgangast í bifreiðum.

Samkv. 17. gr. er talið, að ölvun manna geti orðið til þess að raska samkomum, og því þykir rétt að banna mönnum að neyta áfengis í veitingastofum og veitingatjöldum í sambandi við þær, nema þar sem sérstakt vínveitingaleyfi er. Mér virðist nú engu síður ástæða til þess, að sett séu ákvæði um, að menn megi ekki neyta víns í farþegabílum, því að það getur haft margar miður góðar afleiðingar, ef menn verða ölvaðir í slíkum farartækjum. Ég hefi t. d. orðið fyrir því að vera í bifreið, þar sem áfengi var haft um hönd, og það verð ég að segja, að það hafði óskemmtileg áhrif á mig og suma aðra farþegana. (BSt: Hafði áfengið áhrif á þm.?). Í þessu sambandi vil ég minna á, að bifreiðarstjórum er bannað að neyta áfengis meðan þeir eru við akstur. Mér finnst því viðurhlutamikið af löggjöfinni að leyfa farþegum, sem með bifreiðum ferðast, að neyta áfengis, sem getur orðið til þess að freista bifreiðarstjóranna. Það virðist því liggja mjög beint við, að eins og ástæða þykir til þess að gera ráðstafanir í löggjöfinni til að tryggja öryggi þeirra, sem ferðast með þessum farkostum, svo þeim stafi ekki hætta af þeim, sem farartækjunum stjórna, þá þurfi líka að tryggja það, að þeim, sem farartækjunum stjórna, stafi ekki heldur hætta af farþegunum sjálfum. Það mun t. d. venjulegt, að einn farþegi sitji við hlið bifreiðarstjórans; sé hann ölvaður, er ekki óhugsandi, að hann geti orðið valdur að slysi, með því t. d. að slangra utan í bifreiðarstjórann, svo hann missi stjórn á bifreiðinni og hún velti út af veginum. Á þessu ber farþeginn enga ábyrgð. Ég fæ því ekki annað séð en að brtt. þessi sé alveg ómissandi, svo framarlega sem á að fyrirbyggja það, að slys verði við bifreiðaakstur vegna ölvunar manna.

Þá vil ég með nokkrum orðum minnast á brtt. þær, sem fyrir liggja frá einstökum þm. Það er þá fyrst brtt. á þskj. 771. Fyrsta brtt. á þessu þskj. er þess efnis, að í staðinn fyrir það, að allar sektir fyrir brot gegn lögum þessum skuli renna í Menningarsjóð, þá er hér farið fram á, að þær skuli renna í ríkissjóð. Brtt. þessi mun fram komin sakir þess, að ýmsir hv. þdm. hafa mjög mismunandi skoðanir á því, hvort sektarfé þetta eigi frekar að ganga í Menningarsjóð en ríkissjóð. Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að það fari vel á því, að fé þetta gangi í Menningarsjóð. Það hefir jafnan verið skoðun mín, að áfengisnautn og afleiðingar hennar ættu ekki að vera tekjugrein fyrir ríkissjóðinn. Ég tel því rétt, að úr því að svo er, að ekki verður hjá því komizt, að eitthvað falli til af sektarfé sakir þessara hluta, þá renni það í Menningarsjóð.

Um brtt. á þskj. 773 vil ég aðeins segja það, að ég tel eðlilegt, að þær komi fram, því að hv. flm. þeirra hefir allt önnur sjónarmið í þessum málum en við, sem viljum draga úr afleiðingum vínnautnarinnar. Ég skal játa, að bæði hv. fim. brtt. þessara og aðrir, sem hafa þá skoðun á þessum málum, að því minni hömlur sem settar eru um notkun áfengis, þess meiri líkur séu til, að koma megi í veg fyrir bruggið, hafi kannske eitthvað til síns máls, a. m. k. frá sjónarmiði sumra bindindissinnaðra manna. En ég fyrir mitt leyti lít svo á, að miklar líkur séu til, að bæði brugg og smygl haldist eftir að lög þessi ganga í gildi, og því beri að setja hömlur, sem geta orðið til þess að draga úr neyzlu áfengis, og því sé ekki rétt að ganga inn á þá leið, að allir séu sem frjálsastir með neyzlu og sölu þessa skaðræðisdrykkjar. Ég er því eindregið á móti þessum brtt., enda þótt ég þykist skilja, hvers vegna þær eru fram komnar.

Að ég hefi minnzt á brtt. þessar nú, áður en flm. hafa talað fyrir þeim, var sökum þess, að ég vildi ekki tefja umr. með því að fara að kveðja mér aftur hljóðs við þessa umr. málsins.