12.12.1934
Efri deild: 59. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2225 í B-deild Alþingistíðinda. (3354)

77. mál, áfengislög

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég hefi hugsað mér að lengja ekki þessar umr. um skör fram, en það er vegna brtt., sem fram hafa komið, og þeirrar stefnu, sem á bak við fær felst, að ég vil ekki sitja þegjandi hjá. Og það, sem markar þessa stefnu skýrast, eru sumar þær brtt., sem hv. 2. þm. Rang. hefir flutt. Ég get vel skilið hans rökfærslu í þessu máli frá hans sjónarmiði og þeirra, sem hugsa líkt og hann í þessum efnum, en okkar sjónarmið er þannig, sem yfirleitt viljum engin vín inn í landið, að ef það verður að vera, þá sé sem allra mest takmörkun viðhöfð. Að við getum ekki orðið honum sammála um að rýmka um möguleikana, sem fólkið eigi að hafa til þess að ná sér í vín, er af skiljanlegum ástæðum.

Það var annað mjög merkilegt atriði, sem hann hreyfði hér og reyndi að rökstyðja, og það var um ölið. Eftir því, sem ég hefi lesið um þetta í fræðibókum, þá hefir víðar verið deilt um þetta atriði en hér hjá okkur, og meira að segja herma nýjustu fregnir frá öllöndunum það, að hafin sé sérstök herferð einmitt á móti ölbruggun og öldrykkju, og það er af þeirri einföldu ástæðu, að það er viðurkennt, að ölið er meðal til þess að menn leiðist út í að drekka sterkari drykki. Þetta er almenn reynsla, og menn sjá hættuna, sem af þessu stafar, og þess vegna er nú hafin barátta á móti öldrykkju og ölbruggun. Í öðru lagi er það að athuga í þessu efni, að þær stéttir þjóðfélagsins, sem hafa yfirleitt úr minna að spila, sem hafa minni kaupgetu, þær halla sér vitanlega helzt að þeim drykkjum, sem ódýrastir eru, og þá verður fyrst fyrir þeim ölið. En eftir að menn eru búnir að neyta öls nokkuð lengi, þá er reynslan sú, að þeir fara að leita eftir sterkari drykkjum. Þá er annað atriði til í þessu sambandi, sem er þess vert, að það sé athugað, og það er, hvaða verkanir öldrykkjan hefir. Þessi rannsókn hefir sýnt það, að öldrykkja er ekki eins fljótdrepandi frá heilsufræðilegu sjónarmiði og neyzla sterkari vína, en hún drepur samt. Ég gætti þess því miður ekki að hafa með mér þær heimildir, sem ég vitna í, en þessi rannsókn fór fram á mönnum, sem um langt skeið höfðu neytt öls, og á bezta aldursskeiði höfðu þeir algerlega eyðilagt heilsu sína. Þessi rannsókn fór fram í Danmörku, þar sem menn eiga greiðan aðgang að öli og neyta þess óspart, þó að þeir drekki sig ekki ölvaða að jafnaði, en þó hefir það þessar verkanir. Frá sjónarmiði okkar bindindismanna er þetta mjög merkilegt atriði um áhrif ölneyzlu, og því leggjum við áherzlu á, að ekki sé leyfður innflutningur sterkra öltegunda eða leyft að brugga sterkt öl í landinu. Hitt skil ég vel frá sjónarmiði þeirra, sem álíta hóflega vínnautn, eins og þeir kalla það, óskaðlega, að þeir vilji hafa ölið með. En þar stangast lífsskoðanir okkar um þetta merkilega mál. Ég get því alls ekki fylgt þessari till.

Þá er hitt atriðið, að heppilegt geti verið að leyfa vínsölu sem víðast, í því skyni að kveða niður bruggið. Í þessu felst sú merkilega játning, að með áfengislögunum sé bruggið ekki úr sögunni. M. ö. o., það eru ef til vill líkur til, að bruggið þróist í skjóli þessara laga, eins og það hefir gert í skjóli núgildandi áfengislaga. Út frá því sjónarmiði væri kannske réttasta leiðin að hafa útsölur sem allra víðast. En hér stangast enn skoðanir okkar. (PM: Er þá „landinn“ hollari?). Ég get nú ekki dæmt um það af eigin reynslu, því að ég hefi ekki bragðað á þeim drykk. Ég veit að vísu, að talið er að „landinn“ hafi skaðleg efni, sem aðrir sterkir drykkir, bruggaðir undir nákvæmu eftirliti, eru lausir við. En segjum, að svo sé, þá get ég ekki gengið inn á þá stefnu að dreifa þessum útsölum sem víðast, því að reynslan sýnir, að neyzla áfengis er að öllum jafnaði því minni sem erfiðara er að ná í það. En þegar svo er komið, sem reynslan mun sýna að verður, að ekki stærra þjóðfélag en okkar neytir áfengis fyrir 2 millj. kr. á ári eða meira, þá er nokkur alvara á ferðum. Það mun hafa verið selt áfengi fyrir 1600 þús. kr. til neyzlu í landinu 1933 samkv. reikningum áfengisverzlunarinnar. og það má víst gera ráð fyrir, að neyzlan aukist upp í 2 millj. En ég verð að segja, að mér þykir það nokkuð þungbær skattur fyrir þjóðina að greiða 20 kr. á hvert mannsbarn fyrir vín. — Það voru þessi tvö atriði í till. hv. 2. þm. Rang., sem ég vildi andmæla.

Hv. frsm. n. var að gagnrýna till. okkar hv. 2. þm. S.-M, og vildi ég svara því nokkrum orðum. Hann taldi það fjarstæðu að banna farþegum að hafa vín um hönd í bil eða vera ölvaðir þar. En það er nú svo, að menn, sem hafa ógeð á vínnautn, vilja gjarnan vera lausir við að vera dæmdir til að sitja í þessum farartækjum með ölvuðum óróaseggjum. Á það má líka benda, að það hefir oft komið í ljós við rannsókn mála út af ölvun bifreiðarstjóra, að víninu hefir einmitt verið haldið að þeim af ölvuðum farþegum. En það er krafa allra gætinna manna, að bílstjórar aki ekki undir áhrifum víns. Nú getur hæglega svo að borið, að einn farþegi sé í bíl. Hann hefir flösku meðferðis og vill dreypa á, en flestum er svo farið, að þeir hafa litla ánægju af að drekka einir. Mætti þá vel svo fara, að farþeginn fengi bílstjórann til þess að drekka með sér unz báðir væru orðnir blindfullir. (BSt: Bílstjórar mega ekki drekka). Nei, en það væri nú hugsanlegt, að þeir brygðu út af því, þegar enginn sér til.

(BSt: Sama máli gegnir um farþega!). Þetta eru engar röksemdir. Hitt er annað mál, að hv. þm. finnst kannske hart að mega ekki hafa pyttlu með sér í svona ferðalög. En það er nú svo margt, sem við verðum að neita okkur um, og þetta er sízt meiri sjálfsfórn en margt annað. — Þá vildi hv. þm. leggja mikið upp úr því, að ekki mætti takmarka vín við þá, sem halda uppi risnu. Ég veit nú ekki, hvað þeir eru margir, sem þar kynnu að koma til greina. Það mun vera forsrh. og e. t. v. borgarstjóri og bæjarstjórar. En ég hefi þekkt þá menn í þessum stöðum, sem ekki hafa séð sig knúða til að hafa vín til risnu, og þeir hafa ekki verið verr séðir hjá þjóðinni en aðrir embættismenn, og ég teldi rétt, að þjóðfélagið setti einhver takmörk í þessu efni. Annars vil ég láta þess getið, að mér finnst það hálfgerður skollaleikur, þegar hv. þm. er að tala vingjarnlega um sumar brtt. okkar, en greiðir svo atkv. á móti þeim öllum. Það væri hreinlegri aðferð að tala á móti þeim og greiða atkv. á móti þeim. Hv. þm. var að tala um, að þetta hefði verið svo og svo þegar hann var um þrítugt. Ég held, að hann sé farinn að ruglast eitthvað í ríminu. Hann mun vera fæddur 1889, en lögin komu í gildi 1912. (BSt: 1915!). Innflutningsbannið kom í gildi 1912, svo að ég held, að þetta tímatakmark í sögu þjóðarinnar sé eitthvað farið að ruglast í höfði þessa hv. þm. Ég skal svo ekki elta ólar við hans loðnu andmæli gegn okkur, sem viljum laga frv. Ég ætla, að það myndi árangurslítið, því að örlög frv. munu þegar vera ákveðin. Taka þeir nú höndum saman, sem annars geta ekki verið sammála um nokkurn hlut. Má segja um framgang þessa skaðsemdarmáls líkt og sagt var af öðru tilefni, að á þeim degi urðu þeir Heródes og Pílatus vinir.