12.12.1934
Efri deild: 59. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2230 í B-deild Alþingistíðinda. (3356)

77. mál, áfengislög

Guðrún Lárusdóttir [óyfirl.]:

Ég vil svara nokkrum atriðum, sem fram komu í síðustu ræðu hv. þm. S.-Þ. Hann taldi, að brtt. mín um, að fyrir Menningarsjóð komi ríkissjóður, væri byggð á misskilningi og þekkingarskorti á þessum málum. Ég hefi áður minnzt á það, að ríkissjóður ætti að vera milliliður, sem skammtaði nákvæmlega sömu upphæð til þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, og fæst nú sem sektarfé. Þetta tók ég greinilega fram í þessari hv. deild, en hv. þm. S.-Þ. hefir síst ekki verið viðstaddur í það skiptið, eins og oft ber við, og því ekki heyrt mál mitt.

Svipað kom í ljós hjá hv. frsm. fjhn. Ræða hans gaf ótvírætt í skyn, að hann álíti, að ég ætlist til þess, að styrkurinn til Menningarsjóðs falli alveg niður. Þetta hefi ég aldrei sagt. Ég sagði aðeins, að mér þætti ósæmilegt, að sjóður, sem styður listir og vísindi landsmanna, væri byggður upp á glæpafé og sektum fyrir slæmt framferði. Ég sé því ekkert til fyrirstöðu, að þetta sektarfé renni í ríkissjóð, og hann miðli svo Menningarsjóði sömu upphæð, sem undanfarið hefir gengið til hans. En þar sem í ráði er að þýða þessi lög á dönsku, þýzku, ensku og frönsku, þá er þetta ákvæði laganna, sem ég hefi lagt til, að breytt yrði, varla til þess að efla menningarbrag íslenzku þjóðarinnar með erlendum þjóðum. Hitt tek ég alls ekki til mín að ég sé að sparka í menningu landsins, þótt ég beri fram þessar brtt.

Hv. frsm. fjhn. fór nokkrum orðum um brtt. mínar, sem ég vil leyfa mér að minnast lítilsháttar á. Hann sagði, að það ætti ekki við, að atkvgr. væri endurtekin nema því aðeins, að fram kæmi ósk um það. Nú er það svo, að í 9. gr. þessara laga er talað um það, hvernig til skuli haga, þegar atkvgr. um stofnun útsölu hefir verið felld á einhverjum stað. Þá kemur ekki til óska íbúanna. Þá er gert ráð fyrir, að atkvgr. geti ekki farið fram fyrr en 2 árum seinna, þar sem gert er ráð fyrir atkvgr. Mér þykir réttmætara, að móti þessu komi það, að þeir staðir, sem hafa leyft vin, fái eingöngu tækifæri til þess að endurtaka þessa atkvgr. Það hefir ef til vill verið yfirsjón mín, að taka þetta ekki fram í brtt. minni, en mér fannst þetta svo augljóst mál, að ég taldi þess ekki þörf.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um 3. brtt. mína, við 13. gr. frv., um það, að orðin „og bruggun áfengis“, bætist við. Hv. frsm. fjhn. taldi rangt að samþ. þessa brtt., vegna þess að hún hefði verið felld við 2. umr. málsins. Ég held, að það sé misskilningur hjá hv. þm., vegna þess að við 2. umr. voru einungis felld burt orðin „eða ólögleg meðferð áfengis“. Nú stóð aðeins, eins og ég tók fram í fyrri ræðu minni, eftir í frv. „ólöglega sölu“. Hv. þm. sagði, að till. geri ekki grein fyrir, hvaða sölu átt sé við. Þess vegna fannst mér vanta í þessa setningu, að það, sem undir bjó, kæmi fram. Þess vegna bætti ég þessum orðum við.

Ég gleymdi áðan að minnast á skrifl. brtt., sem ég hefi borið fram við 3. gr. frv., þar sem talað er um, að fram skuli fara fræðsla við þá skóla landsins, sem opinbers styrks njóta, um skaðleg áhrif áfengis; í brtt. er bætt við orðunum „og tóbaksnautnar“, þar sem kunnugt er, að tóbaksnautnin fer mjög í vöxt hér á landi, svo að til vandræða horfir. Ég hefi oft rekið mig á tiltölulega ung börn reykjandi. Kennarar við barnaskólana hafa kvartað undan því, hvað reykingar hafi skaðleg áhrif á andlega og líkamlega heilsu barnanna. Og það eru margir, sem telja, að vindlingurinn sé fyrsta sporið í áttina til áfengisnautnar. Reykingar hafa mjög skaðvænleg áhrif á taugakerfi barnanna og þar af leiðandi á mótstöðukraft þeirra yfirleitt. Af því, sem nú var nefnt, sýnist mér ekki úr vegi, að fræðslu um skaðsemi tóbaksnautnarinnar sé bætt við.