12.12.1934
Efri deild: 59. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2237 í B-deild Alþingistíðinda. (3358)

77. mál, áfengislög

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég hefi ekki lengt mikið umr. um þetta mál síðan við 1. umr., og ætla heldur ekki að gera það að þessu sinni. Um þær brtt., sem hér liggja fyrir, vil ég aðeins segja þetta:

Brtt. hv. 2. þm. Rang. á þskj. 773 held ég að sé ekki rétt að samþ. Fyrst og fremst með tilliti til þess, að búast má við, að Nd. breytti þá frv. aftur, og þar sem mjög er áliðið þingtímans, gæti það orðið til þess, að málið næði ekki fram að ganga á þessu þingi. Í öðru lagi álít ég, hvaða afstöðu sem menn síðar kunna að taka að því er snertir framleiðslu á áfengu öli, að þá sé ekki tímabært að taka ákvæði þar að lútandi inn í frv. nú, meðan ekki hafa verið sett sérstök ákvæði um nautn öls í landinu og sú hlið málsins lítið verið athuguð. Þó segja megi út af fyrir sig, að áfengt öl sé ekki skaðlegri drykkur en hvert annað áfengi, þá hefir reynslan samt sem áður sýnt, þar sem áfengt öl er leyft, að það hefir verið hættulegra ungu kynslóðinni, og einkum þó vinnandi stéttunum, heldur en annað áfengi.

Hvað snertir það, sem hv. 2. þm. Rang. var að tala um, að í Þýzkalandi, þar sem öldrykkja er afarmikil, væri ölið ekki almennt drukkið til nautnar, þá held ég sannast að segja, að það sé ekki rétt. Ég held, að þar, eins og annarsstaðar, þar sem áfengt öl er leyft, sé það notað ákaflega mikið til nautna. Það vill svo til, að ég hefi haft nokkurt tækifæri til að sjá, hvernig öl er drukkið einmitt í Þýzkalandi. Það tíðkast mikið þar og víðar, að menn hafa fast borð í ölstofunum, þar sem þeir koma tiltekna vikudaga og sitja að öldrykkju langt fram á nótt. Jafnvel líta margir svo á, að af því öl er sérstaklega mikið drukkið í Þýzkalandi og þykir þar óvenjulega gott, þá beri þýzka þjóðin beinlínis merki um hina miklu öldrykkju og að hún hafi skaðleg áhrif á heilsufar þjóðarinnar. Víða í nágrannalöndum okkar er farið að vinna mikið á móti öldrykkju, og það er vegna þeirrar reynslu, sem ég nú hefi drepið á. Þess vegna held ég, að það sé ekki rétt að samþ. þessa till. nú, það verði að bíða nánari athugunar, hvort slíkt verður yfirleitt nokkurntíma tekið upp hér.

Brtt. á þskj. 761 er ég yfirleitt andvígur. Brtt. við 13. gr. finnst mér þó, að vel mætti samþ., því það er engin ástæða til að taka léttara á þeim, sem brugga í landinu og brjóta áfengislögin á þann hátt, heldur en öðrum, sem þau lög brjóta og sæta viðurlögum 13. gr.

Um brtt. á þskj. 770 hefi ég það að segja, að ég mun verða henni fylgjandi. Þó hún sé samþ., mun gr. ekki verða framkvæmd þannig, að það fari í bága við það, sem farið er fram á í skrifl. brtt. við sömu gr., sem ég tel líka áreiðanlega rétt að samþ. En hvað snertir brtt. við 17. gr., þá er það að mínu áliti rétt hjá hv. 2. þm. Rang., að ekki sé yfirleitt hægt að framfylgja ákvæðum hennar. Það er rétt, sem hann benti á, að farþegum væri leyfilegt að fara út úr bílunum, drekka þar áfengi og fara svo strax upp í bílana aftur, og sjá allir, að slíkt ákvæði nær ekki tilgangi sínum. En það er annað atriði í sambandi við þetta, sem er miklu hættulegra, og það er, að þegar drukknir menn eru í bílum, ber oft mikið á því, að þeir haldi víninu að bílstjórunum. Það hefir oft komið í ljós við rannsókn mála hér í Rvík, að bílstjórar hafa farið að drekka og orðið ölvaðir vegna þess, að farþegarnir hafa haldið áfenginu mjög stíft að þeim. Farþegunum finnst, þegar þeir eru sjálfir orðnir ölvaðir, að það sé eins og hver önnur greiðasemi að bjóða bílstjórunum áfengi, og finnst það jafnvel ákaflega ófélagslegt og þykkjast við, ef bílstjórinn vill ekki súpa á með þeim. Þeir eru ekki að hugsa um öryggið, sem við það tapast, ef bílstjórinn neytir áfengis, þegar þeir eru orðnir ölvaðir sjálfir. Því hefði verið rétt að hafa hér í lögunum — og vil ég beina því til þeirra, sem fram komu með þessar till., hvort þeir vilja ekki koma fram með till. í þá átt —, að yfirleitt sé refsivert að halda víni að bílstjórum, sem eru við akstur. Slík ákvæði gilda sumstaðar í nágrannalöndum okkar; t. d. er það refsivert í Danmörku að bjóða bílstjóra, sem kemur inn á veitingahús, vín, ef veitingamaðurinn veit, að hann er við akstur. Held ég, að rétt væri að koma fram með skrifl. brtt. í þessa átt.

Viðvíkjandi refsiákvæðum þessa frv. vil ég aðeins segja það út af ummælum hv. 2. þm. Rang., að það er alveg satt, að þau eru nokkuð hörð. En þess ber jafnframt að gæta, að þegar einkasala á vínum er komin á og háir tollar og mikil álagning er á vínunum, þá getur verið stórkostlegur gróðavegur að brjóta lögin. En sektarákvæði eru jafnan miðuð við þann hagnað, er sá fær, er brýtur ákvæði laganna. Og ég er þeirrar skoðunar, að þegar búið er að taka upp það fyrirkomulag, sem hér er gert ráð fyrir, og brot gegn áfengislögunum verða þar af leiðandi eingöngu auðgunarbrot, brot á tollalöggjöf, þá verði refsiákvæðin í betra samræmi við álit fjöldans heldur en þau voru áður, meðan áfengislögin voru einkum brotin til þess að ná í nautnameðal, sem ekki var fáanlegt með löglegu móti. Yfirleitt lítur fólk hér svo á, að tollsvik sé miklu alvarlegra brot heldur en brot á áfengislögunum. Það vita allir, að það þykir miklu meiri tíðindum sæta, ef það kemur stór fyrirsögn í blaði: „Stórkostleg tollsvik“, heldur en þó sagt sé frá, að svo og svo margir menn hafi verið sektaðir fyrir áfengislagabrot. Þar liggur til grundvallar, að þegar um tollsvik er að ræða, eru lögin einungis brotin í hagnaðarskyni, og það er miklu svívirðilegra í augum fólksins.

Annars ætla ég ekki að orðlengja frekar um þessar brtt. Ég vil aðeins segja það að lokum, að það er mín skoðun í þessu máli, að nauðsynlegt sé að setja ýmiskonar ákvæði í svona löggjöf um varúðarráðstafanir viðvíkjandi notkun áfengis. En það má lengi deila um aftur og fram, hvaða öryggisráðstafanir séu hentugar, og aðalatriðið er að mínu áliti, að af ríkinu sé unnið að því að útrýma áfengisnautn með þeim ráðum að reyna að koma fólkinu í skilning um, að áfengisnautnin sé böl. Hefi ég lýst yfir áður, að ég myndi fylgja öllum till., sem kæmu fram í þá átt. Eins og minnzt hefir verið á, hefi ég nú gengið svo frá, að þessu þingi verði ekki lokið án þess lögð verði fram allveruleg upphæð úr ríkissjóði til þeirra manna, sem dyggilegast hafa unnið að útrýmingu áfengisnautnar á landinu. Er þetta í samræmi við það, sem ég hefi óskað eftir um afgreiðslu áfengismálsins á þessu þingi, og er mér gleðiefni, að vonir mínar í því efni virðast ætla að rætast.