17.12.1934
Neðri deild: 62. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2338 í B-deild Alþingistíðinda. (3361)

49. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Gísli Guðmundsson:

Ég bar við 2. umr. fram brtt. við frv. á þskj. 499. Er þar um að ræða símalínur frá Skinnastað að Austara-Landi og frá henni línu um Kelduhverfi að Víkingavatni, í öðru lagi línu frá Leirhöfn, með bæjum, um Blikalón til Raufarhafnar, enda verði lögð niður núv. lína frá Kópaskeri til Raufarhafnar, og loks lína frá Þverá í Axarfirði að Sandfellshaga. Hefir hv. samgmn. tekið upp þessar brtt. mínar breytingalítið.

Hinsvegar á ég brtt. á tveim öðrum þskj. Önnur er á þskj. 693, sem ég ber fram ásamt hv. 6. þm. Reykv., og mun hann mæla fyrir henni. Hin á þskj. 635, um línu frá Grenjaðar Stað um Hveravelli í Reykjahverfi að Laxamýri, og hefir hv. frsm. samgmn. minnzt á hana. Ég get fallizt á brtt. hans, að fyrir „Laxamýri“ komi „Skógum“.

Þá vil ég minnast á c-lið brtt. minnar á þskj. 499, sem ég tók aftur til 3. umr., um línu frá Þverá í Axarfirði að Sandfellshaga. Landssímastjóri hefir ekki séð sér fært að mæla með henni, og heldur ekki n. Ég ætla að fara um þessa till. nokkrum orðum og leggja það svo á vald hv. d., hvað hún gerir. Sandfellshagi er efsti bær í Axarfirði undir Axarfjarðarheiði, sem er einn lengsti fjallgarður á landinu. Er mikil umferð um þennan fjallgarð, og kemur fjöldi ferðamanna að Sandfellshaga. Væri því mikið hagræði að síma þarna, bæði fyrir þá, sem þar búa, og eins fyrir ferðamenn, sem vilja panta gistingu fyrirfram. Væri þá rétt að taka upp þessa línu, sem ekki er nema 2 km. löng. Og þó að till. hafi ekki hlotið meðmæli landssímastjóra og n., vona ég, að hv. d. líti með velvilja á hana.