17.12.1934
Neðri deild: 62. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2340 í B-deild Alþingistíðinda. (3367)

49. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég þakka hv. samgmn. fyrir afgreiðslu á mínum brtt. Mér skildist hún vera með tveim þeirra. Stendur svo á um aðra þessara lína, að staður sá, sem ætlazt er til, að gerður verði að símastöð, er skammt frá landssímalínu. Hefi ég flutt þessa brtt. svo, að landssímastjóri gæti valið um, hvort heldur skyldi opna línuna eða leggja nýja línu á staurana frá Lækjarmóti, og mundi það þá ekki kosta meira en vírinn og kúlurnar.

Um 3. brtt., sem hv. samgmn. hefir lagzt á móti, þarf ég ekki að segja margt. Býst ég við, að andmæli n. séu nokkurskonar dauðadómur yfir henni, nema ef hv. d. vildi vekja hana upp frá dauðum. Ég gæti fært fram margar ástæður fyrir þessari till., en ég mun þó takmarka það. En hér ræðir um að koma á símasambandi um Þverárhrepp, milli tveggja afskekktra hluta sveitarinnar. Má benda á, að í öðrum þessara hluta býr mesti fjárræktarmaður Húnavatnssýslu og líklega einn af mestu fjárræktarmönnum landsins. Ég veit, að mörgum er kunnugt um, að þessi maður er oft bjarghella manna að því er snertir sjúkdóma í sauðfé og hrossum. Það er oft ein af veigamiklum ástæðum fyrir að setja símalínu, að koma ákveðnum mönnum í samband við símakerfið, eða þeim mönnum, sem almenningur þarf að leita til. Þessi maður hefir enga viðurkenningu hlotið fyrir störf sín, sem enginn efast þó um, að hafi verið til mikils gagns, einkum eftir að útflutningur byrjaði á freðkjöti, þar sem hann hefir komið upp fé, sem skarar fram úr og er til fyrirmyndar. Mér er ánægja að því að geta vitnað til hv. 2. þm. N.-M., því þar sem hann hefir verið á ferð og athugað té, þá hefir féð frá Ásgeiri Jónssyni verið í hópi þess fjár, sem verðlaun hefir hlotið. Á þessu sést, að ástæða er til þess að veita starfi þessa manns viðurkenningu, ekki beinlínis vegna sjálfs hans, heldur þeirra, sem til hans þurfa að leita. Ég læt mér lynda það, sem n. hefir um þetta sagt, en vildi ekki láta þetta niður falla, af því að ég býst við, að n. hafi ekki verið kunnugt um þetta, þar sem ég hafði ekki talað um það við hana eða á neinn hátt reynt að draga sérstaklega fram hagsmuni míns héraðs.