15.12.1934
Sameinað þing: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

1. mál, fjárlög 1935

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal reyna að komast yfir sem mest af brtt. mínum á þskj. 815 á sem stytztum tíma, þar sem fundartími er nú takmarkaður. — Það er þá fyrst brtt. II, um 25000 kr. fjárframlag til þess að kaupa talstöðvar í skip. Eins og hv. þm. er kunnugt, flutti ég þáltill. um, að landssíminn leigi fiskiskipum talstöðvar með svo vægum kjörum, að nokkurnveginn væri tryggt, að þær yrðu notaðar af sem flestum fiskibátum, og ástæðan er sú, að það er fullsannað á síðustu vertíð, að slíkar talstöðvar geta forðað sjómönnunum frá mörgum slysum, hrakningum og líftjóni. Ef nokkrir bátar í hverri verstöð hafa slíkar stöðvar, geta þeir mjög oft gert hver öðrum aðvart, ef eitthvað alvarlegt kemur fyrir þá eða aðra báta úti á miðunum. Meðal þeirra 36 báta, sem gerðir voru út frá Ísafirði á síðustu vertíð, eru mörg dæmi þess, að bátarnir hafa getað hjálpað hver öðrum, þegar vélabilanir eða annað slíkt hefir að höndum borið. Landssímastjóri hefir í till. sínum til fjvn. lagt til, að fé verði veitt í þessu skyni, og þurfi það að vera allmikið, ef notkun talstöðvanna eigi að verða almenn. Hefir hann lagt til, að þessi upphæð verði 20000 til 25000 kr. og telur, að fyrir þá upphæð geti hann keypt um 30 talstöðvar, til þess að leigja fiskiskipunum. Allir þeir, sem ég hefi talað við um þetta mál, eru sammála um, að þessar stöðvar geti orðið að miklum notum. Ég hefði gjarnan viljað hafa þessa upphæð hærri, til þess að hún komi að sem almennustum notum, en ég sé, að meiri hl. fjvn. hefir ekki getað fallizt á till. landssímastjóra, og hefi ég því ekki þorað að hafa till. hærri. Ég vænti, að það sé öllum hv. þm. ljóst, að hér er um mikla nauðsyn að ræða. Þetta verður síður en svo tapað fé fyrir landssímann, því eftirgjaldið, sem hann fengi fyrir stöðvarnar, verður miklu meira en vextir af fénu. Landssíminn þarf því aðeins að leggja féð fram.

Ég sé á till. hv. meiri hl., að hann hefir gert nokkuð aðra skipun á tillögum til hinna ýmsu símalína og niðurröðun þeirra heldur en landssímastjóri hefir lagt til. Niðurröðun hv. meiri hl. á símalínunum er svo einkennileg, að hún hlýtur að stinga mjög í stúf við niðurröðun landssímastjóra; auk þess er í nál. fullt af missögnum um þessar línur. T. d. er sagt um Reykhólalínu, að læknirinn á Reykhólum sé eini maðurinn í læknastétt landsins, sem ekki hafi símasamband við umdæmi sitt. Ástæðan fyrir þessum mótsögnum gæti sumpart verið sú, að margir af þessum mönnum eru ókunnugir staðháttum, sumpart vilja þeir kannske villa sýn með þessum missögnum. Það er vitanlegt, að Hesteyrarhérað er eitt af erfiðustu læknishéruðum á landinu; landlæknir telur það erfiðasta héraðið, og það er símasambandslaust. Læknirinn á Hesteyri hefir ekki símasamband við sitt hérað. Þar við bætist, að símalína til Hesteyrar mundi auk kauptúnsins koma tveimur hreppum í símasamband. Það er alveg víst, að sú lína mundi verða til stórgróða fyrir landssímann, þó ekki væri nema fyrir það eitt, að hægt verður, þegar sú lína er komin, að losna við að reka loftskeytastöðina á Hesteyri, sem kostar á ári um 4000 kr., en Hesteyri hefir lítil not af henni og Grunnavíkurhreppur alls engin. Hinsvegar er víst, að tekjur af væntanlegri símalínu mundu nema 2000 til 3000 kr. Er það sýnilegt, miðað við það ástand, sem er að þessi lína mundi „forrenta“ sig með 20 til 25% árlega, þó hún kostaði 25000 kr. — Hv. frsm. meiri hl. var að tala um það, að ekki væri bindandi röðunin á símalínunum, enda væri það stórskaði, ef henni yrði fylgt. Nú veit ég ekki betur en það eigi að flytja loftskeytastöðina á Hesteyri á annan stað, og ég veit ekki betur en að stöðvarstjóranum hafi verið sagt, að það yrði gert á næsta ári.

Þá skal ég minnast á Djúpbátinn. Eins og kunnugt er, var felld brtt., sem ég flutti um styrk til hans í sambandi við frv. um framlag til h/f Skallagríms. Ég hefi áður lýst því, hversu erfiðar eru samgöngur í Norður-Ísafjarðarsýslu, og er það vitanlegt, að þær eru erfiðari heldur en í nokkurri annari sýslu á landinu. Þær einu samgöngur, sem þar er hægt að koma við, eru á sjó. Fyrir 1914 var varið bara til póstflutninganna einna 12000 kr. Nú í nokkur ár hefir verið varið á ári til póst- og vöruflutninga 19000 kr. Ég hefi fært sönnur á það, að í 15 sýslum landsins er varið til jafnaðar yfir 60000 kr. í hverri sýslu til samgangna á sjó og landi. Í Norður-Ísafjarðarsýslu hafa héraðsbúar nú lagt fram yfir 70000 kr. til viðbótar við það, sem ríkið hefir lagt fram, en þetta fé er allt sokkið; héraðið stendur í sömu sporum í þessum efnum þrátt fyrir þessa eyðslu. Nú hefir verið stofnað þarna hlutafélag með 37000 kr. hlutafé, og er tilgangur félagsins sá, að byggja bát til flutninganna í Norður-Ísafjarðarsýslu. Hinsvegar hefir verið gefinn ádráttur um það, að ríkisstj. lánaði vitaskipið Hermóð til póst- og vöruflutninga þangað norður, en n. í sýslun. Norður-Ísafjarðarsýslu, sem sér um þessi samgöngumál, hefir tjáð mér, að á fundi, sem hún hélt í gær, hafi hún ekki með nokkru móti séð fært að taka við Hermóði með svo lágu tillagi, sem viðgengizt hefir undanfarið. Afleiðingin verður sú, að ríkisstj. verður að sjá a. m. k. um póstflutningana, en þó það væri gert, þá eru vöruflutningarnir eftir. Héraðinu er tví- eða þó öllu heldur þrískipt, og ekki hægt að fara nema í einn hlutann í hverri ferð. Fyrir það verður kostnaðurinn auðvitað hlutfallslega mjög mikill, samanborið við flutninginn. Með þeim farkosti, sem hefir verið, er ekki forsvaranlegt að láta fólk sitja 12 til 14 klst. í svo lélegu plássi. Þó að Hermóður verði tekinn, þá rúmar hann svo lítið — 12 menn — að það er langt frá því, að hann fullnægi mannflutningaþörfinni, vegna þess að allir fólksflutningar fara fram á sjó. Ég hefi því ásamt hv. þm. V.-Ísf. leyft mér að koma með brtt., sem fer fram á það í fyrsta lagi, að styrkurinn til flóabátaferða verði hækkaður um 4 þús. kr., sem leggist til Djúpbátsins. Í öðru lagi er till. sama efnis og ég fór fram á í hv. Ed., að ríkissjóður taki þátt í hlutabréfakaupum vegna hins nýstofnaða h/f Vestfjarðabátsins, og einnig að ríkissjóður gangi í ábyrgð fyrir byggingarkostnaði Vestfjarðabátsins.

Ég get látið lokið máli mínu að þessu sinni, þó að ég hefði gjarnan viljað athuga ýmislegt viðvíkjandi brtt. meiri hl. fjvn., en ég fæ þá orðið aftur, þegar ég hefi heyrt undirtektir hv. fjvn. undir mínar till.