15.12.1934
Sameinað þing: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

1. mál, fjárlög 1935

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Ég get verið stuttorður, því flestar af þeim till., sem fyrir liggja, skýra sig sjálfar.

Um fyrstu brtt. n. við þennan hluta fjárlagafrv. vil ég geta þess, að við nánari athugun komst n. að þeirri niðurstöðu, að óhætt væri, í því árferði sem nú er, að fella niður styrkinn til jarðvegsrannsókna á næsta ári. Er það með tilliti til þess, að sá maður, sem byrjaði á þeim rannsóknum og mun verða aðalmaðurinn í þeim framvegis, Hákon Bjarnason, hefir ekki að svo stöddu aðstöðu né húsnæði til þess að stunda þær. Hvað hann snertir er þetta aðeins hugsað sem bráðabirgðaráðstöfun til eins árs. Aftur virtist n., að rannsóknarstofan sjálf, þó tekið væri tillit til afborgana af byggingarláni hennar og starfrækslukostnaðar, gæti vel starfað með þeim styrk, sem hér er ákveðinn, þar sem hún er nú komin vel á legg, hefir gott húsnæði, mikla framleiðslu og öruggan markað fyrir hana.

Iðnskólarnir í kaupstöðunum úti um land eiga við mjög erfiðan hag að búa. Hefir n. því lagt til að hækka styrkinn til fjögurra þeirra um 500 kr. til hvers.

Þá er liðurinn til sundskóla á Sveinseyri. Það eru tveir staðir á Vestfjörðum ágætir til sundnáms, Reykjanes við Ísafjarðardjúp og Sveinseyri. Á Reykjanesi er komið upp ágætt hús, og er aðstaða til sundkennslu orðin hin bezta þar. En á Sveinseyri er sundskálinn aðeins hálfgerður, og þarf þennan styrk til þess hægt sé að ljúka við hann, svo að sjómenn á Vesturhluta Vestfjarða geti stundað þar sundnám að vetrinum. Á að koma upp heimavist fyrir þá, sem sundnámskeiðin sækja.

Knattspyrnufélag Reykjavíkur hefir lagt mikið fé í íþróttahús sitt og lengi verið forgangsfélag um íþróttir hér í bænum. Þykir rétt að veita því nokkra viðurkenningu.

Það er öllum sýnilegt, að hvernig sem að er farið, hljóta að líða nokkur ár þangað til þjóðleikhúsið tekur til starfa. Því hefir þótt reynandi að veita nokkurn styrk til þess að hægt væri að breyta núv. leikhúsi lítið eitt, sérstaklega bæta aðbúnað leikenda við undirbúning sinn áður en þeir koma fram á leiksviðið. Till. miðast við, að enn í nokkur ár verði þetta aðalleikhús landsins.

Norræna félagið er eitt af þeim milliríkjafélögum, sem við Íslendingar höfum haft af mikinn stuðning. Deild þess hér er nú orðin mjög fjölmenn, og stendur hún í nánu sambandi við samskonar deildir í hinum Norðurlöndunum. Er sýnilegt, að þetta samband okkar við hin Norðurlöndin getur orðið okkur að hinu mesta gagni. Fyrrv. fjmrh. fór fram á við síðasta þing, að íslenzka deildin fengi dálítið hærri styrk heldur en hér er lagt til, en það var fellt í það skipti. Ekki af því, að menn væru á móti styrknum í sjálfu sér, heldur af því að einhversstaðar þurfti að spara, og kom það m. a. niður á þessu félagi. Nú er aftur tekin upp þessi litla upphæð.

Um styrkinn til Sambands ísl. karlakóra er það að segja, að hann er ætlaður til kennslu allra karlakóra landsins, og eru það því fleiri hundruð manns, sem hann á að koma að liði.

Karlakór Reykjavíkur hefði n. í sjálfu sér viljað styrkja ríflegar heldur en hér er farið fram á, miðað við verðleika þess flokks, sem eru miklir. Því er ekki að neita, að hann á fjölda marga aðdáendur og stuðningsmenn, bæði á þingi og annarsstaðar. N. vill þó ekki, eins og nú standa sakir, ýta undir þessa söngmenn að fara til útlanda, en telur rétt að gera þeim nokkra úrlausn, ef þeir samt brjótast í að fara, þrátt fyrir alla erfiðleika.

Þá vil ég segja nokkur orð um Jón Stefánsson málara. Þessi maður hefir verið svo heilsulaus um nokkurt skeið, að hann hefir ekki getað stundað list sína eins og áður. Hefir hann því ekki haft aðstöðu til að vinna sér inn peninga. Þó er þessi styrkur ekki fyrst og fremst miðaður við það, heldur er hann borinn fram af því margir líta svo á, að þessi maður sé einn hinn mesti listamaður, sem við eigum, í sinni grein. Ber því að líta á þetta sem viðurkenningu. Hinsvegar myndi þessi listamaður fús að vinna eitthvað fyrir landið, af því, sem það þarf að láta vinna í hans grein. Hafa t. d. sumir nefnt þar til, þó n. hafi ekkert ákveðið í því efni, skreytingu menntaskólasalanna, þar sem lengi hefir staðið til að mála myndir frá þjóðfundinum fræga; hefir í því efni aðeins staðið á fjárframlagi til þessa.

Um sandgræðslustyrkina er það að segja, að till. um 5000 kr. framlag til sandgræðslu í Meðallandi er gerð í samráði við hv. þm. V.-Sk. og trúnaðarmann Búnaðarfél., en hin litla 800 kr. fjárveiting er miðuð við það, að ljúka verki, sem fyrrv. þm. V.-Sk., Lárus í Klaustri, gekkst fyrir að byrjað væri á, en bændur eiga nú erfitt með síðustu átökin við.

Styrkur til Skógræktarfélagsins hefir fallið niður nú um skeið, en þar sem sýnilegt er, að viðreisn skógræktarinnar verður að talsverðu leyti bundin við þetta félag, sem Hákon Bjarnason ásamt fleirum leggur sérstaklega fram krafta sína til þess að geti notið sín, og þar sem sýnir sig af gróðrarstöð þess, að hér mun verða um stórkostlega framleiðslu íslenzkra plantna að ræða, þá vill n. mæla með því, að þessi styrkur sé veittur, til þess félagið geti haldið áfram starfi sínu.

Fyrirhleðslan við Héraðsvötn er þannig tilkomin, að vötnin voru í fyrra farin að brjóta sér leið inn yfir sléttlendið, og ef bændur hefðu ekki brugðið við og hlaðið fyrir þau í skyndi, þá hefðu þau eyðilagt brúna yfir Svartá og veginn yfir eylendið og gert mikil landspjöll. Stj. veitti nokkra hjálp til þessarar fyrirhleðslu, en bændur lögðu þó fram allmiklar fjárhæðir, sem þeir eiga erfitt með að standa straum af, og er þessi fjárveiting miðuð við það.

Styrkur til ræktunarvegar í Vestmannaeyjum hefir verið í fjárl. nokkur undanfarandi ár. Sá vegur hefir orðið undirstaða ræktunarinnar í Eyjum, sem er nú að breyta lífi eyjamanna á mjög skemmtilegan hátt. Verður þess ekki langt að bíða, að allt ræktanlegt land í heimaeyjunni verði ræktað, og geta þá Vestmannaeyingar framleitt næga mjólk handa sér, eftir því sem hér gerist um mjólkurneyzlu. Og þar sem Vestmannaeyingar eru ekki dýrir þjóðfélaginu hvað vegamál snertir yfirleitt, þá mun þykja sanngjarnt, að þeir fái eins fullkomið vegakerfi eins og hægt er.

Þá er c-liður þessarar brtt. um framlag til vegar við Markarfljót (á að vera við Þverá, og er aðeins um misritun að ræða). Þar er þannig ástatt, að sýslan er að leggja veg frá Hlíðarendakoti inn eftir Innhlíðinni, en það vantar tæplega eins km. vegspotta milli þjóðvegarins, sem endar við Hlíðarenda, og þessa sýsluvegar. Þann veg er mjög erfitt að gera, og er um þrjár leiðir að velja. Ein leiðin er að leggja veginn yfir hæðina og koma niður hjá Múlakoti; er dýrt og erfitt að leggja veg þá leið, en að vissu leyti öruggast. Önnur leiðin er að reyna að leggja veg yfir klifið sjálft. Það er stytzta leiðin, en taldir miklir erfiðleikar á að leggja þar veg. Þriðja leiðin og sú, sem mér skilst, að menn hallist helzt að þar eystra, er að lengja einn varnargarðinn hjá Hlíðarendakoti fram á eyrarnar og veita landkvíslinni frá landi, svo sjálfgerður vegur komi undir klifinu. Hverja leiðina vegamálastjóri eða landstj. lætur fara, ef till. verður samþ., ætlar n. ekki að blanda sér i, en vill styðja að því, að þessi vegargerð komist í framkvæmd, til þess að fólkið, sem berst sinni erfiðu baráttu við vötnin á þessum stað, geti komizt í samband við aðalvegakerfi sýslunnar.

Flestir liðir, sem næst koma, eru áður kunnir. Mun ég aðeins nefna nokkra persónulega styrki. Ólafur Ísleifsson læknir á Þjórsártúni er nú orðinn gamall maður og blindur; hafa um 60 manns í Árnes- og Rangárvallasýslu óskað eftir, að honum væri veitt einhver viðurkenning í ellinni. — Kofoed-Hansen lætur nú af störfum, og er ætlazt til, að þetta séu hans ellilaun. Hann er mjög fátækur maður, hefir slitið út lífi sínu hér hjá okkur Íslendingum, og þykir óviðeigandi, ekki síður af því hann er útlendingur, að kasta honum alveg út á gaddinn, þegar hann vegna heilsuleysis lætur af störfum.

Aths. um Reykjabúið lýtur að því, að ágóðinn af búinu geti orðið notaður til þess að byggja upp fjós, heyhlöður og önnur peningshús á jörðinni. Vegna garðræktarinnar er nauðsynlegt að hafa nægilegan húsdýraáburð, en til þess hefir búið ekki nægileg peningshús eins og er.

Aths. um landssmiðjuna skýrir sig sjálf. Ég vil aðeins geta þess, að til stj. koma stöðugt, ekki sízt á þessum krepputímum, íslenzkir hugvitsmenn með ýmsar hugmyndir sínar, sumar sjálfsagt góðar, aðrar ekki framkvæmanlegar, og óska eftir, að þeim sé hjálpað til að gera þær að veruleika. Þeir óska eftir, að landssmiðjan sé látin hjálpa þeim til að gera „model“. En það er óhugsandi að leggja það sem bagga á landssmiðjuna að gera slíkar tilraunir; með því móti gæti hún ekki keppt við önnur hliðstæð fyrirtæki. Síðan Gutenberg var keypt hefir öll prentun ríkisins og ríkisstofnana horfið þangað, og hefir það ekki þótt nema sjálfsagt. Aftur á móti hefir nokkur tregða verið á því að fá öll ríkisfyrirtæki og fyrirtæki, sem styrkt eru af opinberu fé, til þess að skipta á sama hátt við landssmiðjuna, heldur hafa sum þeirra skipt við einkafyrirtæki, sem við hana keppa. Nú er ætlazt til, að á þessu verði breyting, og þykir öruggt, að landssmiðjan hafi af því þann hagnað, að hægt sé að verja lítilli upphæð til hugvitsmannanna á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir.

Það þykir nú einsýnt, að Jóhann Kristjánsson í Skógarkoti geti ekki haldið áfram með byggingu þá, sem hann er byrjaður á samkv. leyfi núv. meiri hl. Þingvallanefndar, og því verði að greiða honum skaðabætur eftir mati dómkvaddra manna. Er talið rétt, að kirkjujarðasjóður, sem á eignina, bæti þetta.

Þá vil ég að lokum minnast á þær tvær þýðingarmiklu till., sem eru undir d- og e-lið 56. brtt., um kaup á jarðeignum Landsbankans á Eyrarbakka og Stokkseyri, og um aukningu á senditækjum ríkisútvarpsins. Það er e. t. v. ekki öllum hv. þdm. kunnugt, að á Eyrarbakka og Stokkseyri hafa lóðirnar undir húsunum og mikið af löndum þeim, sem þorpunum fylgja, verið í einkaeign örfárra manna. Nú hefir Landsbankinn eignazt þessar landeignir þannig, að hann hefir tekið þær upp í skuldir fyrri eigenda. Bankinn telur það ekki sitt hlutverk að eiga slíkar eignir, og vill hann því selja þær. Nú eru ýmsir menn í þorpunum, sem vilja kaupa smábletti út úr þessum landeignum, en bankinn hefir heldur viljað þrautreyna, hvort hrepparnir eða ríkið vildi ekki kaupa þær í heilu lagi. Nú sýnist fjárhagur beggja hreppanna vera þannig, að þeir geti ekki keypt þetta. En á hinn bóginn er það áreiðanlega mjög óheppilegt fyrir þessi hreppsfélög, ef farið verður að skipta þessu landi niður í smáparta. Þess vegna er það, að fjvn. hefir leitað fyrir sér hjá Landsbankanum um það, hvort bankinn mundi ekki fús til þess að selja landið með hagkvæmum kjörum. Bankinn hefir sjálfur tekið þessu líklega. En náttúrlega kom það ekki til greina, að n. færi að semja um þetta við Landsbankann, heldur vildi hún aðeins fá að vita, hvort bankinn tæki vel í þetta, ef þingið gæfi stj. heimild til þess að kaupa þetta land. Till. er miðuð við það, að stj. geti leitað fyrir sér um kaup á þessum eignum, ef þingið samþ. það, og þá, ef það tækist, að þær yrðu aldrei keyptar hærra verði en fasteignamat þeirra er, og ef til vill lægra verði, og ennfremur er gert ráð fyrir, að þær verði aldrei keyptar nema með því móti, að mjög langur borgunarfrestur fáist og góðir greiðsluskilmálar. En ég hefi ástæðu til þess að ætla, að bankinn vilji í þessu sýna sanngirni að sínu leyti.

Næsta stigið yrði svo, að minni hyggju og okkar nm. í fjvn., að láta Eyrbekkinga og Stokkseyringa fá lönd á erfðafestu af þessu óræktaða landi, svo að þeir geti byrjað þar stórfellda ræktun. Þar sem sjávarútvegurinn í þessum þorpum er háður miklum erfiðleikum, þrátt fyrir það, að talsvert er gert af íbúum þeirra og ríkinu til þess að bæta úr því, þá sýnist hér opnuð leið til þess að gera þessi þorp að landbúnaðarsetrum um leið og þau hafa nokkurn útveg.

Ég get sagt frá því, að fyrir ofan Stokkseyri liggja þús. hektarar af ágætu ræktunarlandi, sem er óræktað ennþá. Á hinn bóginn hafa sjómenn þar sýnt góðan vilja í þessa átt, þar sem 10 af þeim hafa myndað félag og tekizt að kaupa hluta af þessari eign. Þeir hafa unnið þar mikið þrekvirki og komið þar upp stórum túnum og görðum. Tilefnið til þess, að fjvn. hefir athugað þetta mál, er það, að hreppsnefnd Stokkseyrarhrepps hefir skrifað þinginu og farið fram á það, hvort ríkið vildi ekki kaupa þessa eign. Það er þess vegna í fyllsta samræmi við óskir þeirra, að reynt er að fara inn á þessa leið. Eyrarbakki hefir að vísu ekki óskað eftir þessu, en það þótti eðlilegast að afgreiða þetta mál með tilliti til þessara þorpa beggja, og leggja það á vald stj. og bankans, hvað frekar yrði gert. Það mun vera óhætt að fullyrða, að Eyrarbakki getur ekki keypt eignina sjálfur.

Til stuðnings þessu máli vil ég geta þess, að fyrir nokkrum árum hjálpaði stj. Akurnesingum til þess að kaupa prestssetrið þar, með því skilyrði, að það yrði látið í smábútum til sjómannanna þar. Síðan hefir á Akranesi orðið ein hin merkilegasta ræktun, sem hér á landi hefir verið gerð, og eru þó eftir alveg ótaldir möguleikar til ræktunar í því landi, sem ennþá er eftir óræktað. Það má gera ráð fyrir, að eitthvað svipað mundi gerast, ef Eyrbekkingar og Stokkseyringar fengju þetta land, sem hér er um að ræða, til ræktunar.

Síðasta stóra till. er um stækkun ríkisútvarpsins. Það liggur fyrir þinginu ýtarleg skýrsla um þetta frá forráðamönnum útvarpsins, í sambandi við þáltill., sem kom fram á miðju þingi, en hefir ekki verið rædd, og ástæðan til þess, að þessi málsmeðferð hefir verið höfð, er sú, að það var búizt við, að þetta mál yrði flutt í sambandi við fjárl. En það þótti æskilegt, að þm. kynntu sér öll gögn, sem að málinu lúta, áður en þeir tækju ákvörðun um þetta.

Það virðist nú að vísu ekki þurfa að draga það í efa, að ríkisútvarpið sé í raun og veru þess megnugt að endurborga þetta lán, ef tekið yrði 5—600000 kr. lán. En á hinn bóginn mundi hvorki þing eða stj. leggja út í slíka stækkun, þó að hún bæri sig inn á við, með núv. erfiðleikum á greiðslum erlendis, vegna markaðserfiðleikanna, nema óhjákvæmilegt væri. Þess vegna er það, að fjvn. hefir ekki viljað ganga lengra í þessu efni en að leggja það undir úrskurð þingsins, hvort stj. ætti að hafa heimild til þess að framkvæma þessa stækkun, og þá heimild ætlast n. ekki til, að ríkisstj. noti, nema nauðsyn krefji, og truflanir frá öðrum löndum verði svo miklar, að almenningur á Íslandi geti ekki haft gagn af útvarpinu hér, vegna hinna voldugu stöðva erlendis. En við það er ekki hægt að ráða með öðru móti en að byggja svo volduga útvarpsstöð hér, að hún heyrist hér á Íslandi yfir hinar stöðvarnar. Þá má telja, að stj. leggi ekki út í að framkvæma þetta, þó að samþ. verði, nema alveg knýjandi ástæður séu fyrir hendi til þess, ekki af því, að það sýnist ekki vera fullöruggt, að útvarpið geti borið þetta, heldur af því, að það er ekki efnilegt að stofna til útlendra skulda nú sem stendur.

Ég ætla ekki, að svo stöddu, að tala um till. frá öðrum hv. þm., og ekki heldur um till. viðvíkjandi góðtemplarahúsinu, þar sem ég er einn af mörgum flm., heldur mun það koma til umr. síðar.