10.12.1934
Neðri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2576 í B-deild Alþingistíðinda. (3417)

80. mál, eftirlit með opinberum rekstri

Thor Thors:

Minni hl. allshn. lætur þess getið í lok nál., að hann telji rétt, að haft sé frekara eftirlit með starfrækslu ríkisstofnananna en verið hefir hingað til, en telur hinsvegar, að þetta frv. nái ekki tilgangi sínum.

Það hefir komið fram við umr., að hv. 2. þm. Reykv., sem miklu mundi ráða um framkvæmd þessa máls, ætlist til þess, að lögð sé niður stj. ríkisprentsmiðjunnar, en þar er 3 manna stj., sem er launuð með 500 kr. handa hverjum manni. Í stað þess á að koma þetta ráð, sem auk eftirlits með ríkisprentsmiðjunni á að hafa eftirlit með skrifstofu vegamálastjóra, vitamálastjóra, húsameistara og landssmiðjunni. Sjá þá allir, að hér er ekki verið að auka eftirlit með ríkisstofnunum, heldur er verið að skerða það.

Ég er honum sammála um það, að það þurfi að auka eftirlit með ríkisstofnunum yfirleitt, en þá hefði hann átt að gera frv. svo úr garði, að það yrði til þess, að eftirlitið yrði meira. En með þeim fundahöldum, sem ráðgerð eru í frv., að þessi ráð skuli halda fundi ekki sjaldnar en einu sinni í mánuði. þ. e. a. s. að það er byggt á því sem aðalreglu, að það komi saman einu sinni í mánuði, og með þeirri kaupgreiðslu, sem hverjum manni er ætluð, þá er ekki hægt að ætlast til, að þessi ráð hafi það eftirlit, sem að verulegu gagni komi. Það getur verið gott út af fyrir sig, að þessi ráð komi saman á fund með forstjórum ríkisstofnananna, sem legðu þá fram skriflegar skýrslur, en það er ekki nóg. Ef eftirlitið á að koma að fullu gagni, þá þurfa ráðin ekki aðeins að koma saman á fundi með forstjórum ríkistofnananna, heldur þurfa þau að rannsaka reikningshald og skjöl stofnananna. Þau þurfa að hafa aðgang að faktúrum fyrirtækjanna, símskeytum, bréfaviðskiptum og bankaviðskiptum. T. d. 2. flokkur á að hafa eftirlit með tóbakseinkasölunni, áfengisverzluninni, viðtækjaverzluninni og áburðareinkasölunni. Það er ekkert eftirlit að gagni, meðan ekki er rannsakað, hvar þessi fyrirtæki kaupa sínar vörur, hvort þau hafa nægilega gætt þess, að hafa sem ríkasta samkeppni um framboð á þessum vörutegundum, hvort innkaup eru eftir því, hvort álagningin er í samræmi við landslög og hvort vörugæðin eru þau, sem hægt er að ætlast til með því verðlagi, sem á vörunni er. Þetta veit hv. þm. vel, að er mjög mikið starf, og hvernig sem stendur á samningu þessa frv., þá býst ég við, að maður með hans skapgerð mundi ekki telja það neitt eftirlit með einhverju fyrirtæki, sem honum væri trúað fyrir að hafa eftirlit með, að hitta forstjórann einn sinni í mánuði og láta þar við sitja.

Að þetta sé sambærilegt við yfirstjórn hlutafélaga og samvinnufélaga, er ekki rétt hjá honum. Stjórnir hlutafélaga og samvinnufélaga hafa úrslitavald um málefni þeirra félaga, en þessi ráð eiga aðeins að hafa tillögurétt. Stjórnir samvinnufélaga og hlutafélaga eru beinir aðilar í þeim málum, sem þeirra félög varða, en það eru þessi ráð ekki viðvíkjandi ríkisfyrirtækjunum, nema þá sem almennir skattþegnar í þjóðfélaginu.

Ég teldi, að til þess að þetta frv. gæti náð tilgangi sínum, væri nauðsynlegt, að þessi ráð kæmu saman a. m. k. einu sinni í hálfum mánuði og gerðu sér verulegt far um að rannsaka alla starfshætti hverrar einstakrar stofnunar, sem þeim er falin, og ef svo er, þá er þetta orðið verulega mikið starf, ef á að rækja það samvizkusamlega, og þá tel ég 400 kr. ársþóknun ekki nægja. Ég hefði ekkert á móti því, að nokkru fé væri varið til slíks eftirlits, ef þá er tryggt, að það komi að notum, en það finnst mér ekki nægilega gert með þessu frv.

Hann sagði að lokum, að þeir flokkar, sem vildu fylgja lýðræðinu, ættu að aðhyllast þetta frv., því að hér væri spor í lýðræðisáttina, þar sem stjórnarandstæðingum væri gefinn réttur til að útnefna menn í þessi ráð. Það er nú samt svo, að stjórnarandstæðingar fá í þessi ráð einn mann á móti hverjum tveimur frá stjórnarflokkunum, og það má fyllilega gera ráð fyrir, að réttur þessara fulltrúa okkar verði lítill, heldur verði afl atkvæða látið ráða, eins og kemur ljósast fram hér á þingi í hverju einasta máli, svo glöggt, að það stappar nærri hneyksli. Það hefir komið hér fram, að hér er ekki til neinn réttur nema réttur meiri hlutans. Minni hl. Alþingis, sem hefir meiri hl. þjóðarinnar að baki sér, hefir ekki rétt til neins hér á þingi. Þetta vil ég biðja hv. 2. þm. Reykv. að athuga næst þegar hann slær um sig með orðinu lýðræði.