10.12.1934
Neðri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2578 í B-deild Alþingistíðinda. (3419)

80. mál, eftirlit með opinberum rekstri

Frsm. minni hl. (Garðar Þorsteinsson) [óyfirl.]:

Það er náttúrlegt, að hv. 2. þm. Reykv. vilji halda fast við frv., sem hann hefir sjálfur samið og borið fram.

Ég er alveg sammála þeim tilgangi, sem í frv. felst, en hinu held ég fram, sem hv. þm. hefir líka orðið að viðurkenna, að sá tilgangur næst ekki með þessu frv.

Hann segir, að það séu ekki allt sérfræðingar, sem stjórna þessum fyrirtækjum, og ekki væru alþingismennirnir sérfræðingar. Þetta er út af fyrir sig rétt, en hann verður að gæta að því, að hér á þingi munu þm. yfirleitt leita upplýsinga hjá sérfróðum mönnum um þau mál, sem á að setja l. um, ef sérþekkingar þarf við og þeir telja sjálfa sig ekki hafa nóga kunnugleika á málinu. Eins yrði með þessi ráð. Í þau geta ekki valizt svo hæfir menn, að þeir hafi sérþekkingu á öllum þeim málum, sem fyrir þá kunna að koma viðvíkjandi opinberum rekstri. T. d. þeir, sem hafa sett sig vel inn í þau störf, sem heyra undir vegamálastjóra, hafa naumast eins vel vit á því, sem tilheyrir landssmiðjunni. Hver verður þá afleiðingin af þessu? Hún verður sú, að ef þessi ráð fá til meðferðar málefni, sem þau hafa ekki næga sérþekkingu á, þá geta þau ekki annað en leitað til sérfróðra manna. Þá sjáum við, að þessi ráð geta ekki afgr. ýmis mál án þess að leita út fyrir sig. En þá fæ ég ekki annað séð en að viðkomandi ráðh. geti alveg eins séð um slíka rannsókn, tekið skýrslur framkvæmdarstjóra fyrirtækjanna og leitað síðan upplýsinga hjá sérfræðingum.

Hr. 2. þm. Reykv. sagði, að forstjórarnir kæmu ekki með falskar skýrslur. Þar er ég á sama máli og hann, en hann tók það áður fram, að framkvæmdarstjórunum væri gefið mjög svo víðtækt vald, sem þeir gætu misbeitt, og gegn því væru þessi ráð selt. En ég geri ráð fyrir, að þeir, sem annars misbeittu sínu valdi, gætu átt það til að gefa rangar skýrslur, því að þeir væru ekki svo heimskir að leggja sjálfir snöruna um háls sér með því að játa á morgun það, sem þeir hafa brotið í dag, með því að skýra frá því, að þeir hefðu misbeitt sínu valdi. En ef einhver misbeitir valdi sínu, hvaða tryggingu hefir þá þetta ráð fyrir því að fá réttar skýrslur, þegar þær koma frá þeim, sem hafa brotið og á að hafa eftirlitið með? Það, sem hér er um að ræða, er það, að ef þetta eftirlit á að koma að fullu gagni, þá verða þessi ráð sjálf að endurskoða og athuga það, sem þau eiga að hafa eftirlit með. En ef á algerlega að treysta skýrslum frá forstjórunum, eins og hann vildi gera, þá þarf ekki að stofna neitt sérstakt ráð til að hafa slíkt eftirlit með höndum, og meðan ekki er annað upplýst, þá verður að álíta, að þessir menn séu samvizkusamir og trúir í sínu starfi, en allt eftirlit af hálfu hins opinbera er til að ganga úr skugga um, hvort svo sé, en það er ekki hægt til fulls með því að byggja eingöngu á skýrslum frá þeim sjálfum, eins og hv. 2. þm. Reykv. vill gera. Ég aftur á móti vil hafa þetta eftirlit þannig, að til þess séu fengnir þar til hæfir menn, sem eiga sérstaklega að setja sig inn í opinberan rekstur, rannsaka hann og endurskoða og gefa síðan skýrslur til stj. Ég álít, að slíkt eftirlit sé miklu öruggara en þó að þetta ráð komi saman einu sinni eða tvisvar í mánuði og byggi þá eingöngu á skýrslum frá framkvæmdarstjórunum. Ég er honum því alveg sammála um það, að slíkt eftirlit beri að hafa, en okkur skilur á um leiðirnar. Ég vil hafa það miklu strangara og það megi þá kosta eitthvað meira — ef það er þá fyrirfram öruggt, að það eftirlit verði nægilegt — en með þessu fyrirkomulagi, sem hér er gert ráð fyrir, að nógu sterkt eftirlit verði með þessum trúnaðarmönnum, ef þeir eru ekki heiðarlegir í störfum sínum.