10.12.1934
Neðri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2579 í B-deild Alþingistíðinda. (3420)

80. mál, eftirlit með opinberum rekstri

Thor Thors:

Hv. 2. þm. Reykv. þóttist vilja leiðrétta það í minni ræðu, að stjórnarflokkarnir væru í minni hl. meðal kjósenda. Ég vil benda honum á það í eitt skipti fyrir öll, að Alþfl. og Framsfl. höfðu við síðustu kosningar samtals um 22600 atkv. En þeir, sem voru í opinberri andstöðu við núverandi stj., Sjálfstfl. og Bændafl., hlutu samtals um 25600 atkv. Munurinn er því um 3000 atkv., sem þessir yfirlýstu stjórnarandstæðingar hafa meira en stjórnarflokkarnir. (HV: En kommúnistar?). Kommúnistar skipta hér engu máli, en séu þeir taldir með stjórnarsinnum, þá verða atkv.tölurnar svipaðar. Hv. þm. getur talið þá sem sína stuðningsmenn, ef hann vill, og óska ég honum þá til hamingju með þá fylgismenn sína.

Hitt skiptir ekki heldur neinu máli í þessu sambandi, þó að stjórnarflokkarnir hafi öðru hverju, þegar hv. þm. V.-Ísf. vildi ekki hlýða þeim, getað flekað einn mann úr Bændafl. til að greiða atkv. með þeim gegn vilja stjórnar Bændafl. og gegn vilja kjósenda þeirra. Þessi hv. þm. minnist þess ekki, hverjum hann á sína kosningu að þakka. Það var hv. þm. V.-Húnv., sem dró hann á eftir sér inn í þingsalinn. Það situr því ekki vel á honum að vera hér að brjóta á móti vilja flokksins.

Annars virðist það, eftir þeim umr., sem hér hafa farið fram, að það sé ekki mikið, sem á milli ber, og ég vildi gjarnan ræða þetta mál við hv. 2. þm. Reykv. í allshn. fyrir 3. umr. Ég geri ráð fyrir, að við viljum þá bera fram brtt., sem tryggja það, að þeim tilgangi, sem Sjálfstfl. óskar eftir, verði náð, sem sé þeim, að þetta eftirlit verði aukið, svo að gagni komi.