20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2344 í B-deild Alþingistíðinda. (3426)

150. mál, fiskimálanefnd

Frsm. (Finnur Jónsson):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefir verið rætt hér í d. nokkuð undir öðrum lið dagskrárinnar. Ég held því, að ekki sé eins mikil ástæða til að hafa langa framsögu fyrir því og annars hefði verið. Það mun almennt vera orðið viðurkennt, að nauðsyn beri til að skipa fisksölumálum okkar á annan hátt en verið hefir, og sú viðurkenning fæst jafnvel engu síður hjá þeim mönnum, sem telja sig fylgja frjálsri verzlun. En ég býst við, að menn greini á um leiðir. Leiðin, sem bent er á í frv., er fyrst og fremst sú, að ríkisstj. skipi fiskimálanefnd, sem gert er ráð fyrir að hafi víðtækt valdsvið. Það er gert ráð fyrir, að ýmsar stofnanir, er þarna eiga hlut að máli, tilnefni menn í þessa n. Þessir aðiljar eru: Alþýðusamband Ísl., S. Í. S., Fél. ísl. botnvörpuskipaeigenda, Fiskifélagið, Landsbankinn og Útvegsbankinn. Sjöunda manninn skipar ríkisstj. N. þessi er skipuð til 3 ára í senn og jafnframt jafnmargir til vara til jafns tíma. Ef tilnefning kemur ekki frá einhverri stofnun, sem rétt hefir til þess, þá skipar ríkisstj. mann í hans stað.

Fiskimálanefnd er gefið víðtækt vald til að úthluta verkunarleyfum og löggilda saltfiskútflytjendur. Í öðru lagi skal hún gera athuganir og tilraunir með nýjar veiðiaðferðir, aukinn markað og nýjar verkunaraðferðir. Ég sagði áðan, að það væri viðurkennt, að skipa þyrfti sjávarútveginum forystu, en greint hefir á um, hver sú forysta ætti að vera. Það að skipa þurfi sjávarútveginum forystu hefir komið í ljós í frv. um fiskiráð, sem verið var að ræða áðan og Sjálfstfl. viðurkennir, að hann standi bak við. En í því frv. var ekki tryggt, að þetta ráð, sem þar er um talað, yrði nokkurntíma fullskipað, m. a. er þar gert ráð fyrir, að tvær bráðabirgðastofnanir, sem enginn veit, hve standa lengi, sem sé sölusamband ísl. fiskframleiðenda og sölusamband ísl. matjessíldarframleiðenda, skipi sinn manninn hvor. Ennfremur átti þetta ráð ekkert valdsvið að fá, heldur vera ráðgefandi nefnd valdalaust og félaust, en þó þannig skipað, að það ætti vissar stofnanir að bakhjalli. Ekki er með frv. gefin nein trygging fyrir því, að fiskframleiðendur létu sig nokkuð varða till. „ráðsins“, eða bæri nokkur skylda til að fara eftir till. þess í framkvæmdinni. Í þessu frv. aftur á móti er gert ráð fyrir öflugu framkvæmdavaldi. Því hefir verið lýst, hvernig komið væri málefnum sjávarútvegsins. Líkur eru til, að um áramót eigum við 20 þús. smál. fiskjar óselt af þessa árs framleiðslu. Það hefir verið bent á með réttu, að ef ekki yrði breytt um verkunaraðferðir, hlyti sjávarútvegnum að verða siglt í strand, og þess mundi verða skammt að bíða, að saltfiskmarkaðurinn þrengdist svo, að við lægjum í landinu með ársframleiðsluna óselda. Af þessari lýsingu má sannarlega verða ljóst, að hér þýðir ekkert kák, það þarf öflugt framkvæmdavald í þessum málum, vald sem getur unnið það, sem þarf að vinna. Ég gat þess áðan, að í frv. þessu er gert ráð fyrir, að fiskimálanefnd fái víðtækt valdsvið. Auk þess að löggilda fiskútflytjendur á hún að úthluta verkunarleyfum, og eftir því sem hún telur henta vegna markaðsins, getur hún fyrirskipað, að viss hluti aflans verði verkaður á annan hátt en verið hefir.

Ég hefi undir umr. í dag um fiskiráðsfrv. verið að blaða í skýrslu sölusamb. ísl. fiskframleiðenda, sem útbýtt var í dag hér í d. Þar er mikið rætt um þessi mál, þ. á m. um nauðsyn þess, að ráðstafanir verði gerðar til að nokkur hluti aflans verði verkaður á annan hátt en hingað til. Nú hefði mátt búast við því, að S. Í. F. hefði gert till. um, hvernig þessu skyldi haga, en það hefir ekki verið gert; S. Í. F. hefir ekki talið það sitt hlutverk, en skýrslan sýnir þó fram á nauðsynina fyrir því að bæta úr vandræðum þeim, er fiskverzlun landsmanna er i, m. a. með fjölbreyttari verkunaraðferðum.

Það er gert ráð fyrir því í frv., að fyrir geti komið það, sem í rauninni er verst fyrir okkur alla, að takmarka þurfi veiðina, ekki hjá einstökum skipum, heldur takmarka aukningu skipaflotans í heild, og fari það fram eftir því sem bezt hentar.

Í frv. er gert ráð fyrir, að menn verði að leita eftir veiði- og verkunarleyfum og tilkynna fyrir ákveðinn tíma, sem n. tiltekur, fiskimálanefnd ósk sína í þessum efnum, og einnig hvernig þeir ætla að verka aflann. Nauðsyn þessa ákvæðis sést af skýrslum „sölusambands ísl. fiskframleiðenda“, sem útbýtt var hér í d. í gær. Sölusambandinu var það fullkomlega ljóst strax í apríl í vor, að ekki dugði að verka allan fisk.

Ég geri ráð fyrir, að það hafi verið skylda stj. sölusambandsins að vara fiskeigendur við því, að það mætti ekki verka allan fiskinn á venjulegan hátt, því að hann seldist ekki allur þannig. En þær aðvaranir sölusambandsins hafa engum fiskiframleiðendum borizt.

Um áramótin verða um 20 þús. tonn af verkuðum saltfiski óseld, en á þessum tíma hefði verið hægt að selja nokkur þús. smál. af saltfiski, hefði hann ekki verið þveginn og verkaður. Þetta skipulagsleysi, sem verið hefir á þessum málum nú í ár, verður þess valdandi, að fiskbirgðirnar í landinu verða a. m. k. nokkrum þús. smál. meiri óseljanlegar nú um næstu áramót heldur en þurft hefði að vera og átt hefði að vera. Fiskimálin eru stærstu atvinnumál okkar, og hvernig er þeim skipað?

Eins og nú standa sakir, eru aðeins til tvær línur í einu lagafrv., sem ákveða um fisksölunat, þannig að ekki megi flytja saltfisk út úr landinu, nema að fengnu leyfi ríkisstj., önnur ákvæði eru ekki til um þetta í l., en að öðru leyti er þessum málum skipað með reglugerð.

Hve mikil vandkvæði eru á þessu skipulagi, eða öllu heldur skipulagsleysi, má sjá af skýrslu sölusambands ísl. fiskframleiðenda, sem ég vitnaði í áðan í ræðu minni. Þau ummæli eru á bls. 20 í skýrslunni og hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

... Leið svo allt fram í aprílbyrjun, að stj. sölusambandsins vissi ekki með óyggjandi vissu, hvort hún mundi fá það fiskmagn til umráða af þessa árs framleiðslu, sem nægilegt var að hennar dómi til þess að halda starfsemi sinni áfram í sama horfi sem verið hefir.

Þótt þessi dráttur framleiðenda á því að taka ákvörðun um ráðstöfun fiskjar síns, hafi ekki komið að mikilli sök að þessu sinni, þá þarf naumast að fara mörgum orðum um það, hve slíkur dráttur getur verið skaðlegur. ...

Þegar langt er liðið á vertíð veit stj. þessa stóra fyrirtækis ekki um það með vissu, hvort það haldi áfram störfum eða ekki. Slíkt öryggisleysi telur hún að vonum óþolandi. M. ö. o. fisksölusamlagið leggur sjálft dóm á þetta ástand, sem landsbúar verða nú að búa við, að einhverju þurfi að skipa til betri vegar.

Hv. sjálfstæðismenn hér í d., og fyrst og fremst form. flokksins, sem segist hafa verið alinn upp við fiskverzlun frá blautu barnsbeini, ætlaði að skipa þessum málum með því að setja ráðgefandi n. til að gefa mönnum lauslegar leiðbeiningar, en af skýrslum sölusambandsins sést, hversu mikil markleysa hefði verið að skipa þessum málum eins losaralega og gert er ráð fyrir í frv. hv. þm.

Í umr. þeim, sem fram fóru undir öðrum lið á dagskránni um þetta frv., var ekki reynt að rökræða innihald frv., en eftirmáli frv. var tekinn og reynt að gera úr honum uppvakning til þess að hræða hv. þm. frá því að ganga til fylgis við það. Þetta voru úrræði hv. andstæðinga.

Þeir hv. þm. Sjálfstfl., sem talað hafa um þetta frv., undir umr. um fiskiráðið, hafa haldið því fram, að það miðaði að einkasölu á saltfiski. Þessir hv. þm. sögðu þetta áður en frv. var útbýtt hér í hv. d., og þeir segja það líka eftir að því hefir verið útbýtt og eftir að hv. þdm. hafa haft það til meðferðar í marga daga, og hver og einn getur séð, að þetta, sem hv. sjálfst.menn segja í þessu efni, eru helber ósannindi.

Frv. miðar að skipulagningu fisksölunnar, fyrst og fremst með skipun fiskimálanefndar, og í öðru lagi með því móti, að útgerðarmenn geti sjálfir skipulagt fiskiútflutninginn algerlega á félagslegan hátt, án íhlutunar ríkisstj.

Því hefir verið haldið fram af hv. sjálfstæðismönnum hér í d., að þetta frv. miðaði fyrst og fremst að því að drepa þau sölusamtök, sem nú eiga sér stað meðal landsmanna. Ég mótmæli þessu sem rakalausri staðhæfingu. Frv. miðar fyrst og fremst að því að gefa útgerðarmönnum kost á því að skipuleggja fisksöluna á félagslegan hátt. Eins og nú er ástatt, er fisksalan að vísu að nokkru leyti skipulögð, en ekki á félagslegan hátt. Ef hún væri það, þá væri æðsta vald í fiskútflutningsmálum á félagsfundum sölusambands ísl. fiskframleiðenda. En það er öðru nær en að svo sé.

Þátttakendur í S. Í. F. hafa engin ráð. Æðsta vald er hjá 5 sjálfskipuðum mönnum.

Ég segi ekkert um, hvernig ég álít, að þessir menn fari með sitt vald. En því verður ekki neitað, og það má vitna til skýrslu sölusambandsins í því efni, að mjög eru skiptar raddir meðal þeirra, sem eru í sölusambandinu, um það, hvernig störf þess verki í framkvæmdinni.

Það er talsverð óánægja innan samlagsins sjálfs um það, hvernig málum útvegsins um land allt er stjórnað, að þessum stærstu samtökum í landinu skuli stjórnað af sjálfskipuðum mönnum, og að æðsta vald skuli ekki vera hjá félagsfundum fyrst og fremst.

Það má t. d. geta þess um þær nefndartill., sem samþ. hafa verið í þessu máli, á svo nefndum fulltrúafundi S. Í. F., sbr. skýrsluna á bls. 51, að aðeins 4 af 7 nm. greiddu þeim atkv., 1 var á móti og 2 sátu hjá.

Þegar verið er að tala um það, að frv. þetta miði fyrst og fremst að því að uppleysa þessi samtök, má benda á það í þessu sambandi, að í 4 gr. l. er beinlínis gert ráð fyrir því, að ef sölusamband fiskframleiðenda starfar, sem hefir umráð yfir 80% af fiskútflutningi landsmanna, þá geti fiskimálan. veitt fél. sérstök hlunnindi. En um leið er gerð sama krafa til fél. eins og til allra annara fél. í landinu, að félagsmenn ráði einhverju, að þeir kjósi sjálfir stjórn í fél. sínu, en hún sé ekki skipuð sjálfskipuðum mönnum, eins og nú er.

Ég skal viðurkenna, að eftir þeim brtt. á lögum S. Í. F., sem fram hafa komið á fulltrúafundi þess, er nokkur lagfæring fengin á þessu skipulagi á sölusambandinu, ef þær ná fram að ganga.

Þó eru till. þessar harla einkennilegar. Þar er gert ráð fyrir því, að stj. fél. sé kosin með almennum kosningum. Þar á eftir sé kosið fulltrúaráð, og þegar það er búið, á að byggja upp félagsskapinn. Ég held, að það sé einsdæmi, að byrjað sé á því að kjósa stj. í fél., og síðan sé farið að byggja upp félagsskapinn.

Ég álít þessar till. gera meiri kröfu til vanþroska Íslendinga í félagsmálum en fyrirgefanlegt er.

Það er viðurkennt í frv. af hálfu flm. með því að gefa einu fél., sem hefir umráð yfir 80% af fiskmagninu, sérstök réttindi, að það sé æskilegt, að slíkur félagsskapur starfi. En um leið eru gerðar þær kröfur til þessa félagsskapar, að hann geri þá menn ánægða, sem við skipulagið eiga að búa. Ef þetta tekst ekki, þá má gera ráð fyrir, að löggilda megi fleiri en einn útflytjanda.

Það er gert ráð fyrir því, að löggilda megi tiltekna tölu útflytjenda, en enginn megi samt hafa yfir minna að ráða en 20 þús. skp. af fiski og fullnægi að öðru leyti skilyrðum landsl. til að reka verzlun.

Það má geta þess, að margir útgerðarmenn, og skiptast menn þar alls ekki eftir stjórnmálafl., álíta, að sölusambandið hafi gert tjón með því að draga viðskiptin um of í hendur einstakra manna í markaðslöndunum. Menn ættu að gera sér það ljóst, að mikið af þeim andmælum, sem fram hafa komið í sambandi við störf sölusambandsins, er sprottið af þessu. Viðskiptin erlendis hafa dregizt í fárra manna hendur. Og því verður ekki neitað, að þessi viðskiptaaðferð hefir mætt talsverðri gagnrýni, og það með réttu. Það er t. d. kunnugt, að sölusambandið borgaði einum manni á Ítalíu nokkuð mikið fé árið 1933. Svo var látið heita sem þetta væri leiga eftir kælihús, en almennt er álitið, að þau kælihús hafi ekkert verið notuð. En upphæðin, 330 þús. kr., var borguð til þess að þessi maður verzlaði ekki með fisk á þessu ári. Þessi maður var einhver stærsti innflytjandi ísl. fiskjar til Ítalíu á undanförnum árum og einn hinn bezti viðskiptis. Þessum manni hefir ekki verið borguð þessi sama upphæð á þessu ári, svo að hann hefir tekið upp sína fyrri fiskverzlun, þó ekki við Íslendinga, heldur við Norðmenn, þar sem hann gat fengið fisk með góðu móti. Hvers vegna var þessum góða viðskiptamanni bolað út úr fiskverzluninni? Hvers vegna þurfti ekki að borga þessa sömu upphæð 1934, ef það hefir verið rétt 1933? Ég skal ekki dæma um það. Undir gangi málsins álít ég nauðsynlegt að skýra frá ýmsu, sem mælir bæði með og móti því skipulagi, sem nú er á fisksölunni.

Ég vil ítreka það, að í frv. er gert ráð fyrir því fyrst og fremst, að eitt stórt félag sé starfrækt. Flm. frv. eru sammála um það, að ef hægt verður að koma þessum félagsskap þannig fyrir, að menn megi við una, og að hann verði byggður á sæmilega félagslegum grundvelli, og ef það verður ekki til þess, að fiskviðskiptin erlendis dragist í hendur of fárra manna, og markaðsmöguleikunum verði þar með spillt, þá sé bezt að hafa þetta form á fiskverzluninni.

Áliti fiskútflytjendur þetta fyrirkomulag hinsvegar óheppilegt, þá er þeim gefinn kostur á annari leið, sem ég hefi fengið upplýsingar um, að mörgum líki betur, sem sé þá, að hafa fiskútflytjendur, ekki marga að vísu, en þó fleiri heldur en nú er. — Þetta er um sjálfa fisksöluna að segja. Ef útgerðarmenn treysta sér ekki með nokkru móti að koma þessu skipulagi á, sem tekið er fram í l., þá má gera ráð fyrir, að síðasta úrræðið verði, að fiskimálan. taki upp einkasölu á fiski.

Það verður síðasta úrræðið, sem gripið er til, í þeim tilgangi að skipuleggja fiskverzlun landsmanna, þegar útgerðarmenn sjálfir hafa gefizt upp við það, en fyrr ekki. — Þess vegna er rakalaust að halda því fram, að þetta frv. miði fyrst og fremst að því að koma á einkasölu. Frv. miðar, eins og ég gat um áðan, fyrst og fremst að því að koma upp öflugri forustu í sjávarútvegsmálum, sem öllum kemur saman um, að sé óhjákvæmilegt að hefjast handa um. Í öðru lagi miðar það að því, að útgerðarmenn geti sjálfir skipulagt fisksöluna á viðunanlegan hátt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta á þessu stigi málsins. Þetta er vitanlega eitt af allra stærstu málum þingsins, og þótt tveir hv. þm. Sjálfstfl. hafi lýst yfir því, að það væri mjög vafasamt, hvort þetta mál næði fram að ganga, þá er mér óhætt að lýsa yfir því, að þessu máli sé tryggður framgangur í þinginu með samtökum stjórnarflokkanna.

Ég skal ekkert um það segja, hvort frv. fer óbreytt í gegnum þingið. Það má vera, að fram komi einhverjar brtt., sem séu heppilegar, en meðan þær koma ekki fram, vil ég gera ráð fyrir, að frv. fari óbreytt gegnum þingið.

Ég fæ ekki séð, að hv. Alþ. geti skilið svo við þetta mál, að það skipi því ekki með þeim l., sem það telur, að geri það að verkum, að þessum tveim atriðum verði vel borgið, í fyrsta lagi þannig, að fisksölunni sé skipað á viðeigandi hátt, og í öðru lagi, að hafizt verði handa um hagnýtingu nýrra markaða og verkunaraðferða, til þess að koma í veg fyrir það yfirvofandi hrun, sem óhjákvæmilega hlýtur að koma, ef ekkert er að gert, og skipulagsleysi það, sem ríkt hefir undanfarið, er látið afskiptalaust.