20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2350 í B-deild Alþingistíðinda. (3428)

150. mál, fiskimálanefnd

Thor Thors:

Það var nú fremur ófögur og ómerkileg lýsing, sem hv. 2. landsk. gaf á flokki sínum, er hann sagði, að atkv. tveggja hv. þm. hans hér í d. væru = 0. En hann má sjálfur bezt vita, hvers virði hann er.

Hann kvartaði um kvef, og get ég vorkennt honum þann krankleika, og vil ráðleggja honum að leita sér læknis og lyfja við honum. En ef hann kallar það ónæði, að til hans sé talað eða á hann minnzt á þingi, vil ég líka gefa honum ráð við því, og það er, að segja af sér þingmennsku og víkja af þingi. Honum hefir nú áður verið gefið slíkt ráð, af manni, sem ég ber að vísu ekki mikið traust til, en virðist þó hafa séð rétt, er hann gaf það ráð. Þessi maður, þm. S.-Þ., taldi, að hv. þm. ætti ekki að vera að sletta sér fram í opinber mál, því að ekki væri rétt að láta slík gamalmenni, sem gengin væru í barndómi, vera að „leika sér að gullum þjóðarinnar“.

Um stöðu hv. þm. til vinstri við þennan og hægri við hinn, og alla þá niðurröðun í Bændafl., sem hann talaði um, verð ég að segja, að ég skildi hana ekki fullkomlega. Væri eflaust bezt, að hann léti taka mynd af sér og flokki sínum, svo að þetta yrði mönnum ljósara, enda kæmist þá kannske meiri festa á liðið. Væri svo rétt að útbýta myndinni hér á þingi, mönnum til glöggvunar. Þá sagði hv. 2. landsk., að Bændafl. væri aðeins smámynd eða vasaútgáfa af Framsfl. Ef hv. þm. er alvara með þetta, þá er auðséð, að klofningurinn úr Framsókn er og hefir aldrei verið annað en „grín“. Annars er ekki nema gott, að kjósendur Bændafl. og þjóðin öll fái að vita þetta.