20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2352 í B-deild Alþingistíðinda. (3430)

150. mál, fiskimálanefnd

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég bjóst ekki við því, að þessi fáu orð mín áðan myndu sannfæra hv. þm. G.-K. um nauðsyn frv., enda var mér áður kunn skoðun hans.

Hv. þm. heldur því fram, að flutningur frv. hér geti valdið miklum skaða og hljóti að gera það, ekki af því að það muni valda illvilja í okkar garð í löndum þeim, sem við höfum selt fisk, heldur af því að það muni sprengja sölusamtök þau, sem til eru hér heima.

Hv. þm. taldi það undarlega hjartveiki, að mig skyldi bresta kjark til að vera ráðh. eftir áramót, ef ekki kæmist ný skipan á þessi mál. Ég verð aftur að telja það undarlega hjartveiki að óttast, að sölusamlagið hljóti að springa við þessar ráðstafanir. Ég sé ekki betur en að eina fél., sem hefir yfir að ráða því fiskmagni, sem tiltekið er í frv. og uppfyllir að öðru leyti skilyrði þess sé einmitt fisksölusamlagið. Hér er því gengið eins langt og hægt er til móts við hv. þm. G.-K. og flokk hans. Með því að veita slíku fél. þá möguleika, sem frv. gerir ráð fyrir, ættu fisksölusamlaginu að vera tryggðir betri starfsmöguleikar en það hefir nú. Fisksölusamlagið fengi að vita fyrirfram, hversu mikinn fisk það fengi til umráða. Ef það er ekki trygging, þá veit ég ekki, hvað kallazt gæti því nafni.

Erfiðleikar samlagsins nú eru aðallega fólgnir í því, að jafnan er allt í óvissu um hve mikið af fiskinum fer fram hjá samlaginu. Í skýrslu fisksölunefndarinnar er margbent á einn meginörðugleika, sem fisksölusamlagið hefir átt við að stríða, sem er í því fólginn, hve seint og illa gengur að fá umboð frá fiskeigendunum sjálfum.

Síðastl. haust var haldinn hér fulltrúafundur af mönnum, sem töldu sig fulltrúa fiskeigenda, og voru þar gerð frumdrög að samþykktum fyrir félagið. Þrátt fyrir það er mér ekki kunnugt um, að sölusamlagið viti, hve mikinn fisk það fær næsta ár. Fulla vitneskju um það fær það ekki fyrr en einhverntíma næsta ár. Að láta reka á reiðann um þetta þangað til tel ég hreinasta glapræði. Ef ótti þessa hv. þm. um það, að sölusamlagið springi vegna þess að frv. þetta kemur fram, hefir við rök að styðjast, þá er augljóst, að það er jafnmikil hætta á því nú, að það verði ekki starfhæft. Mín skoðun er sú, að það sé meiri hætta á að það springi, verði frv. ekki samþ. Ég vil því spyrja hv. þm., hvað eigi að gera, ef svo fer, á að láta reka á reiðann og bíða til næsta þings, sem sennilega kemur ekki saman fyrr en í marz næsta ár, og eftir þeim vinnubrögðum, sem venjulega eru hér á Alþ., má búast við að það standi fram á vor. Gæti því svo farið, að staðfesting l., sem þingið samþ., drægist langt fram í maí eða júní, en þá væri útflutningur hinnar nýju framleiðslu byrjaður. Ég held því, að hv. þm. G.-K. hljóti að sjá það, að það væri glapræði að fresta þessu þangað til. Ef fisksölusamlagið breytir l. sínum, til samræmis við ákvæði 4. gr. frv. og heldur sínum viðskiptamönnum, þá getur það búizt við að fá löggildingu sem aðalútflytjandi, en breyti það ekki l. fær það eðlilega ekki útflutningsleyfi nema eins og hver annar útflytjandi samanborið við það fiskmagn, sem það hefir yfir að ráða, en þá hefir það enga tryggingu fyrir því að vita fyrirfram, hve mikinn fisk það má flytja út.

Ég vona nú, að hv. þm. sjái, að þessi ótti hans við það, að sölusamlagið springi vegna þess að frv. þetta hefir komið fram, sé hugarburður einn. Ég tel, að samlagið sé betur tryggt vegna framkomu frv. Það hljóta því að liggja aðrar ástæður fyrir því en komið hafa fram, ef frv. á að geta orðið til þess að flýta fyrir sprengingu samlagsins.

Að því er snertir síðara atriðið í ræðu hv. þm., að ekki sé nægilega tryggt með frv., að ekki verði verkað of mikið af fiski til sölu í Miðjarðarhafslöndunum, þarf ég ekki miklu að svara. Án þess að ég vilji fara að vekja sérstakar umr. um þessi mál nú, þá vil ég þó benda á, að í frv. hv. þm. um fiskiráð var ekki gefið hið minnsta vald í þessum efnum. Samkv. ákvæðum þess var ekki hægt að segja við fiskframleiðendur: Þú mátt ekki verka nema þetta og þetta fyrir Miðjarðarhafslöndin. Það er ekki heldur hægt eftir því að segja við nokkurn mann: Þú skalt taka svona og svona mikið af afla þínum og herða hann. Það er aðeins hægt að ráðleggja mönnum að gera þetta og hitt, en fyrirskipa er ekki hægt. Það er svo í þessum efnum sem mörgum öðrum, að menn eru seinir til að taka upp nýbreytni, vilja heldur halda sér við það gamla. Hér þarf því að vera til vald og myndugleiki, sem getur skipað fyrir, hvað gera skuli, og það er einmitt gert ráð fyrir því í frv. mínu, en ekki í frv. hv. þm. Ég þykist nú vita, hverju hv. þm. muni svara til um þetta. Hann mun svara því einu, að hann trúi ekki öðru en að menn muni fara eftir leiðbeiningum sér hyggnari manna í þessum efnum. Þetta er trúaratriði, sem ég mun ekki fara að deila um við hann. En ég vil aðeins benda honum á, að það geti ekki skaðað, þó að heimild væri til í 1. um valdboð í þessum efnum, ef á þyrfti að halda. Komi aldrei til þess, að slíkt þyrfti að nota, þá væri það gott.