20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2356 í B-deild Alþingistíðinda. (3436)

150. mál, fiskimálanefnd

Ólafur Thors:

Ég skal vera fáorður og ekki misbjóða þolinmæði hæstv. forseta. Annars finnst mér, að ég eigi að hafa ráðherrarétt til ræðuhalda í þessu máli. (Forseti: Hv. þm. hefir fengið að tala jafn oft í þessu máli og hæstv. ráðh.). Ég þakka fyrir.

Hæstv. atvmrh. vill ekki skilja, hvað á milli ber í þessu máli. Það er vitaskuld rétt hjá honum, að einstakir fiskútflytjendur geta tekið sig út úr sölusambandi fiskframleiðenda, eins og því hefir verið skipað, og má vera, að suma hafi langað til þess. Hinsvegar hafa þeir að undanförnu ekki viljað gera það, af því að þeir báru kvíðboga fyrir því, að samtökin mundu þá dreifast og fisksalan fara í óreiðu, vegna skefjalausrar samkeppni og óreglulegs framboðs á fiskinum í markaðslöndunum. Með þessari löggjöf eru þessum mönnum boðin sérréttindi, sem þeir e. t. v. telja sér feng í og trúa meir á en ég geri. Þetta ýtir undir, að þeir taki sig út úr og sprengi fisksölusambandið. Sýnist mér óþarft af ráðh. að látast ekki skilja þetta. Hæstv. ráðh. má ekki miklast af því, að hann hafi fært mér heim sanninn um, að óheppilegt sé að láta hina frjálsu samkeppni einráða um fiskverzlunina. Hvorki þetta né annað í þessum málum þarf hann að kenna mér. Reynsla síðustu árin og breytt aðstaða í markaðslöndunum talar sínu máli. Og áður hefi ég á Alþingi 1927 lýst þeirri skoðun minni, að heppilegast væri, að útflutningur og sala á saltfiski væri á fárra manna höndum. (FJ: Kveldúlfshöndum?). Já, það er ekki víst, að þær reyndust lakari en aðrar hendur í því efni. Og ég býst við, að þessum málum yrði þá betur skipað heldur en ef hv. þm. Ísaf. og hans nótar hefðu þau til meðferðar.