18.12.1934
Sameinað þing: 24. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

1. mál, fjárlög 1935

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Það er auðsætt af því, á hvaða tíma þessi fundur er settur, að það er ekki ætlazt til, að hér verði miklar alvöruumr. um fjárlfrv., og hv. þm. sjást hér ekki nema örfáir. En ég býst við, að það standi í sambandi við, að það sé þegar búið að gera út um örlög þeirra brtt., sem hér liggja fyrir, svo að umr. hafi ekki áhrif á úrslitin.

Ég skal þá fyrst taka það fram, að það hefir ekkert samstarf verið milli meiri og minni hl. fjvn. fyrir 3. umr. Ég skal fyrir mitt leyti segja, að ég bjóst við, að minni hl. yrði boðaður á fund, því að fyrir 2. umr. voru það mörg atriði, sem engin ákvörðun var tekin um, og það hefði a. m. k. ekki verið ólíklegt, að meiri hl. hefði fundið ástæðu til að boða minni hl. á fund um þau atriði, en það hefir hann ekki gert. Ég hygg, að þetta sé nýlunda, því að það hefir komið fyrir áður, að fjvn. hefir klofnað, og ég veit ekki betur en að minni hl. hafi þá verið boðaður á fundi milli 2. og 3. umr.

Ég skal þá byrja mitt mál með því að ganga í gegnum brtt., sem minni hl. flytur á þskj. 813. Þær nema samtals 19500 kr., og ég held, að ekki verði sagt, að það séu nein ósköp, þegar það er athugað, að meiri hl. hefir borið fram brtt., sem nema allar, að mig minnir, mikið á annað hundr. þús. kr. Svo flytjum við hér eina brtt., 9. brtt. á þessu þskj., þar sem við förum fram á miklu meiri sparnað heldur en þau gjöld nema, sem við stingum upp á, en annars skal ég ekki tala um hana strax, ekki fyrr en ég kem að henni.

1. brtt. á þskj. 813 er um það, að veita Sigurði Sigurðssyni sýslumanni 3000 kr. veikindastyrk. Hann er veikur nú sem stendur. Ég veit, að hann hugsar til að fara utan eftir læknisráði, sér til heilsubótar. Þessi starfsmaður hins opinbera hefir leyst sín störf mjög vel af hendi, en er fátækur, hefir fyrir þungu heimili að sjá og getur alls ekki efnahagsins vegna farið utan, nema hann fái þennan styrk. Það eru fordæmi fyrir þessu, það hefir verið gert í tveimur tilfellum, sem ég man eftir, og vona ég því, að þessi till. verði samþ.

2. till. er viðvíkjandi Eimskipafélaginu. Í fjárlagafrv., eins og það er nú, stendur, að Eimskipafélagið skuli halda uppi siglingum í sama horfi og áður, og eigi með minni skipastól en árið 1934. Við þessa aths. viljum við bæta, „ef efnahagur þess leyfir“. Lýtur það að því, að ef lítið verður að flytja, eins og stjórnin gefur í skyn að muni verða vegna innflutningshaftanna, þá sé of hart að heimta, að samgöngurnar séu nákvæmlega á sama hátt og þær voru á þessu ári.

Þá er 3. brtt. um 5000 kr. styrk til Stúdentagarðsins. Stúdentagarðsn. sendi fjvn. erindi og bað um styrk til að standast kostnað við byggingu og rekstur Stúdentagarðsins. Ég skal viðurkenna, að sú upphæð, sem hér er farið fram á. er of lág. Ég vona, að hv. þm. sjái það, að því fé er ekki illa varið, sem varið er í þessum tilgangi, því að hver, sem hefir komið á Stúdentagarðinn, hlýtur að sjá, hve geysimikið er í það varið fyrir unga menn að hafa jafngóðan bústað. En það er ekki nóg að sjá fyrir því. Það verður líka að sjá fyrir því, að þessi bústaður verði ekki of dýr fyrir fátæka námsmenn, og ég vil segja, að það er ekki meiri gustuk að styrkja neina en fátæka námsmenn.

Það er svo með þennan stúdentagarð, að hann hefir verið reistur án nokkurs kostnaðar fyrir það opinbera. Mér finnst því ekki til of mikils mælzt, að ríkissjóður leggi fram í eitt skipti fyrir öll nokkur þús. kr. til þessa stúdentagarðs, því að náttúrlega er erfitt að koma honum af stað og mikil útgjöld því samfara.

4. brtt. er um 2500 kr. styrk til gagnfræðaskóla Reykvíkinga. Ég skil ekki, að neinn geti álitið þetta ósanngjarna kröfu, því að þessi skóli er vel skipaður að kennurum og hefir haft fjölda nemenda, og þetta framlag er svo lítið, að segja má, að það muni ríkissjóð engu.

Þá er 3. brtt. um 3000 kr. framlag til að gefa út Íslendingaæfir. Ég hygg, að það muni í flestum löndum hafa verið gefnar út bækur líkar þessari, og ég veit ekki betur en að það sé búið að undirbúa hér mikið af slíku efni, án þess að nokkurs styrks hafi verið krafizt frá því opinbera.

Þá er 6. brtt. um 2000 kr. styrk til Guðmundar Finnbogasonar. Þetta er jafnhátt þeim styrk, sem hann hefir haft að undanförnu, en hann hefir nú verið felldur burt, sennilega af því að hann hefir nú lokið við mikið verk, sem var gefið út á yfirstandandi ári. Þetta rit þótti mjög gott, en hann langar til að halda áfram ritstörfum í svipaða átt, en er eins og margir embættismenn fátækur og getur ekki lagt í þetta vinnu nema með opinberum styrk, heldur yrði þá að reyna að fá aukavinnu til þess að fá tekjur í staðinn. Þessi maður er svo kunnur rithöfundur, að ég tel ekki þörf að ræða þetta frekar.

7. brtt. er um að framlagið til Fiskifélagsins hækki um 5000 kr. Fiskifél. hefir jafnan verið mjög hógvært í kröfum sínum gagnvart þinginu. Það fór fram á það við fjvn., að fá þessa 5000 kr. hækkun og lagði fyrir n. fjárhagsáætlun sína fyrir árið 1933, og ég verð að segja, eftir að hafa athugað þá áætlun, að ég veit ekki, hvað þar ætti að fella burt. Minni hl. hefir því þótt sanngjarnt að leggja til, að þessi styrkur hækkaði, og er hann þó ekki nema brot af því, sem t. d. Búnaðarfél. er ætlað, en þau félög eru, skilst mér, einna sambærilegust af þeim félögum, sem styrks njóta í fjárl.

Þá er 8. brtt., sem er um 2000 kr. framlag til íslenzku vikunnar. Undanfarin ár hefir verið haldin hér svonefnd íslenzk vika, þar sem sérstaklega hafa verið hafðir á boðstólum íslenzkir munir og menn verið hvattir til að kaupa íslenzkar iðnaðarvörur. Flestir munu telja, að slík vakning sé mjög nauðsynleg, og það er uppi meðal þjóðanna sú stefna, að búa sem mest að sínu, og ég held, að menn séu sammála um það, að þessi íslenzka vika hafi fært mörgum heim sanninn um það, að iðnaður okkar sé kominn á þann rekspöl, að við getum mikið sparað okkur kaup erlendra vara. Þeim peningum, sem er varið til slíkrar starfsemi, er mjög vel varið.

Þá er 9. og síðasta brtt. á þskj. 813, og skal ég um hana aðeins segja það, að við, sem vorum í fjvn., undruðumst það mjög, þegar við sáum, að stj. kom með till. um að lækka laun þeirra embættismanna, sem taka laun samkv. launal., og beinlínis sjáanlegt af frv., að stj. ætlaðist ekki til, að neitt væru lækkuð laun þeirra, sem taka laun utan launal., og þó kom öllum saman um það í n., að þeir, sem ekki eru í launal., hafa yfirleitt miklu hærri laun en þeir embættismenn, sem eru undir launal. Það var upplýst hér við 2. umr., að stj. hefði ekkert gert til þess að koma fram lækkun á launum þeirra manna, sem eru utan launal. Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir, að hann hefði viljað bíða eftir því að sjá, hvernig þingið tæki undir kröfur um lækkun hjá embættismönnum, en þetta þýðir það, að lækkun á launum þeirra, sem ekki eru undir launal., getur ekki komizt í framkvæmd fyrr en einhverntíma á árinu 1935, sennilega ekki fyrr en á miðju ári 1935, og það er af því, að þessum mönnum verður að tilkynna með lögmæltum fyrirvara, að þeirra laun verði sett niður, og sá fyrirvari skilst mér, að muni í flestum tilfellum vera 6 mánuðir, en í einstöku tilfellum 3 mánuðir. Það er ómögulegt að neita því, að það var vanræksla hjá hæstv. ráðh. að gefa þessum starfsmönnum ekki aðvörun um, að þeir mættu vænta niðurfærslu á launum sínum eins og aðrir embættismenn. Ég man, að hæstv. fjmrh. var að snúa út úr því, sem ég sagði við 2. umr. Ég hafði sagt, að hann hefði átt að segja upp eða aðvara þá starfsmenn, sem ekki taka laun eftir launal. Það þýðir að láta þá vita, að þeir verði að vera við því búnir, að laun þeirra verði lækkuð á sama hátt og laun þeirra, sem eru undir launal., og jafnframt, að ef þeir vilja ekki sætta sig við það, þá verði þeir að skoða það sem uppsögn. Þetta hefði hann átt að gera, ef hann hefði ætlað að sýna sanngirni eða sama réttlæti gagnvart öllum opinberum starfsmönnum. En það er engin von, að þeir, sem taka laun eftir launal., séu ánægðir með það, að þeirra laun séu sett svo og svo mikið niður, en svo sé fjöldi manna á hærri launum, sem ekkert á að lækka við fyrr en einhverntíma og einhverntíma. En það er ekki hægt að sjá á fjárlfrv., að stj. ætlist til, að þetta verði gert, því að alstaðar eru áætluð full laun þeirra, sem eru utan launal.

Ég sagði við 2. umr., að minni hl. flytti brtt. í IV liðum við 22. gr., af því að við værum ekki ánægðir með þennan lið eins og hann er orðaður hjá meiri hl. n. Tveir hv. þm. úr meiri hl. hafa orðið svo skotnir í þessari till., að þeir hafa brotið af sér handjárnin og komið með till. að taka upp ýmis atriði úr þessari till., sem þeim hefir þótt vanta í till. meiri hl., en að öðru leyti sett inn í hana atriði, sem verður að teljast tálmun á því, að þetta komist fram. Ég vil segja þessum hv. flm. það, að minni hl. er ekkert þakklátur fyrir, að þeir hafa barnað þessa till. fyrir honum. Þeir verða sjálfir að sjá um sinn hórkrakka; við ætlum ekki að halda honum undir skírn eða gera neitt fyrir hann. Það er svo, að inn í þessa till. þeirra er blandað ýmsum öðrum atriðum, sem eru þess valdandi, að till. kemur að litlu haldi. Það eru tekin með laun þeirra manna, sem starfa hjá stofnunum, sem fá styrk frá því opinbera, og það er gert að skilyrði, að þeir menn megi ekki hafa hærri laun en 8000 kr. Það er vitaskuld, hvað þeir eiga þar við. Það er forstjóri Eimskipafélagsins, maður sem tekinn var frá Samb. ísl. samvinnufél. og látinn hafa nákvæmlega sömu laun og hann hafði þar. Það ræður þess vegna af líkum, að það er ekki mögulegt fyrir Eimskipafél. að setja laun þessa manns niður í 8000 kr., og mig undrar, að hv. flm. skyldu þá ekki nefna t. d. bankastjóra og setja þá líka laun þeirra niður í 8000 kr.

Við minnihl.menn höfum haldið okkur við það atriði, sem viðkemur ríkissjóði, en það eru starfsmenn þess opinbera, en starfsmönnum einkafyrirtækja viljum við halda fyrir utan þetta.

Annars er þessi till. okkar þannig, að laun frá 4—5000 kr. lækki eftir sömu reglum og dýrtíðaruppbót þeirra, sem taka laun samkv. launalögum, laun frá 5—8000 lækki um 15%, þó þannig, að þau verði ekki undir 5000 kr., og laun yfir 8000 kr. lækki niður í 8000 kr. Það eru náttúrlega ekki margir, sem verða fyrir barðinu á þessum síðasta lið, en þeir eru þó nokkrir, og þar sem má heita, að hámark launa hjá okkur nú sé 8000 kr. — þar eru engar undantekningar nema með ráðherra og forseta hæstaréttar —, þá finnst okkur ekki nema rétt, að þetta hámark sé sett hér.

Ég hygg, að lækkanir á gjöldum ríkissjóðs eftir þessari till. okkar nemi miklu meiru en hæstv. fjmrh. nefndi við 2. umr. Ég man ekki, hvað hann nefndi marga starfsmenn, sem þetta myndi koma niður á, en ég hefi hér í höndunum skrá, sem sýnir yfir 100 menn, sem þetta hefði tekið til. Ef skrá þessi er athuguð, þá sést, hversu geysimikill munur er á launum eftir launalögum og launum utan launalaga. Þar sér maður t. d., að ritarinn hjá tollstjóranum hér hefir hærri laun en sýslumaður, og sömuleiðis, að sölumaður einn hjá tóbakseinkasölunni hefir líka meira en sýslumaður. Þá mætti og ennfremur nefna bókarana og gjaldkerana hjá landssmiðjunni og síldarverksmiðju ríkisins, sem allir hafa mjög rífleg laun og mun hærri en meðalembættismannalaun. Einnig mætti nefna skrifstofustjóra útvarpsins, sem hefir 7200 kr., stöðvarstjóra útvarpsstöðvarinnar á Vatnsendahæð með 6 þús., forstöðumann viðgerðarstofu útvarpsins, sem hefir 7 þús. kr., og forstöðumann viðtækjaverzlunarinnar með 9000 kr. Á þessu sést, að það er furðuleg fjarstæða og ranglæti að ætla að fella niður dýrtíðaruppbót af launum þeirra manna, sem taka laun sín eftir launalögum, en koma ekki með till. um að lækka laun hinna, sem taka þau utan launalaga. Ég hélt, að engum ráðh. gæti dottið slíkt ranglæti í hug, hvað þá að hann ætlaði að framkvæma það. Till. hv. þm. V.-Ísf. er því sanngjörn, a. m. k. bætir það nokkuð um að láta lækkun dýrtíðaruppbótarinnar ekki koma til framkvæmda fyrr en á miðju árinu 1935. Vilji Alþingi sýna sanngirni og réttlæti, þá samþ. það eitthvað í þessa átt, en vilji það enga sanngirni sýna, þá fylgir það vitanlega till. hæstv. stj. og hv. meiri hl. fjvn.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um ræðu hv. frsm. meiri hl. fjvn. Hv. frsm. fyrri hlutans reiknaði út, hver tekjuhallinn myndi verða á frv. þessu, og var auðheyrt eftir þeim útreikningi, að hann gerði ekki ráð fyrir, að ein einasta till. yrði samþ. frá stjórnarandstæðingum. Reynslan kemur vitanlega til með að sýna, hvernig þetta, fer, en ég býst við, að hann hafi þarna mælt fyrir hönd stjórnarflokkanna í heild. Hann lýsti því beinlínis yfir, að hann byggist við, að meiri hl. fjvn. myndi neyddur til að koma með till. um niðurfellingu einhverra útgjalda, þ. e. að færa niður sínar eigin till., til þess að reyna að koma fjárl. út úr þinginu tekjuhallalausum. Hann óskaði, hv. þm., að afgreiðsla þessa máls yrði þinginu til sóma. Hvort svo verður, skal ég engu um spá, en það vil ég taka fram, að afgreiðsla fjárl. getur ekki orðið þinginu til sóma, nema gætt sé fullrar sanngirni um úthlutun ríkisfjárins. Við 2. umr. benti ég á, að mikið skorti á, að svo væri, og það verð ég að segja, að ekki virðist hafa breytzt til batnaðar nú.

Þá vil ég næst víkja að frhn. hv. meiri hl. viðvíkjandi símunum. Þar hefir hv. meiri hl. heldur en ekki tekið til leiðréttingar skrá þá, sem landssímastjóri hafði búið til um byggingu símalína á næstu árum. Þessi skrá landssímastjóra náði yfir 20 línur, og voru þær settar á skrána í þeirri röð, sem hann taldi, að þær ættu að byggjast. Nú hefir hv. meiri hl. leiðrétt skrá þessa þannig, að hann hefir t. d. sett þær línur, sem landssímastjóri setti efstar, með þeim allra síðustu. Það er jafnvel svo langt gengið, að nýjum línum er bætt við, sem landssímastjóri tekur ekki upp í skrána. Til sönnunar því, hversu mjög hv. meiri hl. fjvn. hefir umturnað till. landssímastjóra, má t. d. geta þess, að línan, sem landssímastjóri leggur til að sé nr. 1, er nr. 19 hjá hv. meiri hl., og sú, sem er nr. 4 hjá landssímastjóra, er sú 20. hjá meiri hl. Það er línan: Sandeyri-Grunnavík-Hesteyri. Þegar landssímastjóri mætti á fundi n., taldi hann nauðsynlegt að byggja þessa línu þegar á næsta ári, beinlínis vegna landssímans sjálfs, þó að ekkert tillit væri tekið til íbúanna, sem línuna koma til með að nota. Að hv. meiri hl. skuli umturna svona till. landssímastjóra, er í fyllsta máta furðulegt, því að sennilega er landssímastjóri kunnugri þessum málum en nefnd, sem situr hér á Alþingi.

Í nál. hv. meiri hl. segir, að símasamband í Skagafirði sé gott, að undantekinni einni sveit. En þetta er ekki rétt. Þar eru stórar sveitir, sem vantar síma, svo sem Reykjaströnd og Sæmundarhlíð. Einnig vantar síma í frampart Akrahrepps og nokkurn hluta Lýtingsstaðahrepps.

Þá kem ég að brtt. hv. meiri hl. við fjárl. og skal aðeins ræða um fáar af þeim. Fyrst vil ég þá minnast á 8. brtt., viðvíkjandi styrk til sjúkrahúss á Reyðarfirði. Það er auðséð, að hv. meiri hl. hefir tekið tillit til þess, sem ég sagði við 2. umr. fjárlfrv., að þetta hús mundi ekki verða reist næsta ár, því að nú kemur hann með brtt. þess efnis, að verði fjárveiting þessi ekki notuð til byggingar þessa sjúkrahús, þá skuli féð notað til byggingar annars sjúkraskýlis á Austfjörðum.

Viðvíkjandi 9. brtt. er það að segja, að hv. meiri hl. virðist ganga út frá því, að hælinu á Sólheimum verði greiddur 5 þús. kr. styrkur. Í sambandi við þessa till. vil ég taka það fram, að það stóð ekki á okkur í minni hl. að taka upp þessa till., en það stóð þá á hv. meiri hl., en nú hefir hann séð að sér og iðrazt. Sama máli gegnir um Suðurdalaveginn: þar hefir meiri hl. tekið upp dálitla fjárveitingu. Þá hefir hv. meiri hl. bætt úr gagnvart VesturÍsafjarðarsýslu og kemur með álitlega fúlgu til Breiðadalsheiðarvegar. Aftur á móti hefir hann ekki séð ástæðu til að bæta úr misréttinu gagnvart Norður-Ísafjarðarsýslu og Austur-Húnavatnssýslu, sem alveg hafa orðið útundan með vegafé.

Þá vil ég nefna styrkinn til flóabátanna, og beini ég því, sem ég segi um það mál, til hv. samgmn. Ég er óánægður með það, hve lítill styrkur er ætlaður til bátsins, sem gengur á milli Siglufjarðar og Haganesvíkur. Milli þessara staða er fjallvegur, sem er ófær 7—8 mán. ársins, nema gangandi mönnum á skíðum. Er því ekki hægt fyrir bændur úr Fljótunum að draga að sér eða flytja frá sér afurðir sínar, nema á bátum.

Þá hefir meiri hl. tekið rögg á sig og lækkað styrkinn til rannsóknarstofu háskólans. Ég bjóst alltaf við, að það myndi koma þruma úr því skýi, sem grúfði þar yfir, en ég hélt aldrei, að hv. meiri hl. myndi koma með till. í þessu formi, en nú er hún komin, og það með þeim forsendum, að undrum sætir. Afleiðing hennar verður tæplega önnur en sú, að rannsóknarstofan verður neydd til þess að hækka verðið á sauðfjárpestarbóluefninu, og það skil ég varla, að verði vinsælt meðal bændanna. Annars finnst mér þetta sífellda nart í forstöðumann rannsóknarstofunnar fullkomlega ástæðulaust. Hann er að mínu viti velgerðamaður landbúnaðarins, og á því sízt skilið árásir og nart frá þeim mönnum, sem telja sig forsvarsmenn bænda. Hitt er vitað, að hann er ekki vinur form. fjvn., en það er hann, sem knúð hefir þessa till. fram, eins og lækkunartill. viðvíkjandi Kleppi.

Þá hefir hv. meiri hl. hækkað „stofnkostnað héraðsskólana“ úr 5000 kr. í 6500 kr., og eiga þessar 1500 kr. að ganga til raflýsingar á Laugum. Við þetta breikkar bilið á milli Blönduósskólans og Laugaskóla, sem þó var nægilega mikið áður. Ein allra fáránlegasta till. af öllum till. hv. meiri hl. held ég þó, að sé till. um að veita 5 þús. kr. til þess að gera við hús, sem er eign pólitísks flokks hér í bænum. Þetta mun eiga að vera dálítill „skenkur“ til jafnaðarmanna. Sjálfsagt þykir þeim gott að fá gefins 5000 kr. úr ríkissjóði til þess að gera við sitt eigið hús, en flestir aðrir myndu tæplega geta farið fram á slíkan styrk. Ég veit ekki, hvað hv. meiri hl. fjvn. segði, ef t. d. við sjálfstæðismenn vildum fá styrk til þess að gera við Varðarhúsið hérna, og er það þó hliðstætt því, sem jafnaðarmenn hafa fengið. (Raddir af þingbekkjum: Hv. þm. ætti að bera slíka till. fram). Nei, það mun ég ekki gera, því að ég vil ekki bera fram neina þá till., sem ég ekki tel sanngjarna og vil ekki fá samþykkta.

Þá sagði hv. frsm. síðari hlutans ekki eitt orð um það, til hvers í raun og veru þær ættu að vera þessar 10 þús. kr., sem meiri hl. tekur upp til áhaldakaupa vegna síldarrannsókna. Hann sagði aðeins, að hér væri um að ræða svo þekkt mál, að óþarfi væri að tala nokkuð um það. Ég fyrir mitt leyti get sagt það, að ég hefi ekki heyrt það nefnt fyrr, og vil því beina þeirri ósk minni til hv. frsm., að hann upplýsi eitthvað um þetta. En vitanlega er hann ekki viðstaddur frekar en venja hans er.

Þá eru 4 brtt., sem nema alls á 6. þús. kr., sem eru styrkir til ýmissa verkalýðsfélaga, sem ég veit einu sinni ekki, hvort eru til eða ekki. En ég þykist skilja, að það sé lítilsháttar herkostnaður, sem verður að greiða hv. meiri hl.

Þá vil ég nefna 56. brtt., sem er við 22. gr. frv. Þar er svo tiltekið, að verja megi 6 þús. kr. af tekjuafgangi landssmiðjunnar til þess að láta gera það, sem þar segir. Ég get ekki að því gert, að mér finnst þetta harla undarleg till., því að það er alkunna, að þetta fyrirtæki hefir aldrei haft neinn tekjuafgang og skuldar mikið. Um þetta býst ég við, að hv. 10. landsk. geti gefið upplýsingar, ef vildi. Það er því hreint og beint hlægilegt að vera að ráðstafa þeim arði, sem aldrei hefir verið til. En það er ekki allt búið með þetta, aðalrúsínan er í endanum, þar sem segir svo, að ríkisstofnunum og fyrirtækjum, sem njóta rekstrarstyrks af almanna fé, sé skylt að skipta við landssmiðjuna, eftir því sem hún geti afkastað. Það er ekki nefnt með einu orði, að henni sé skylt að setja verðlagið á vinnu fyrir ríkisstofnanirnar neitt svipað því, sem önnur hliðstæð fyrirtæki myndu taka fyrir slíka vinnu. Hún getur því sett verðið eins hátt og henni sýnist, og með því móti kannske fengið 6 þús. kr. tekjuafgang. Að það skuli koma frá þingnefnd till. um það, að gefa einni stofnun einkarétt á að verzla við það opinbera, alveg án þess að nefna nokkurt verð, er alveg einstakt.

Þá er brtt. um að borga Jóhanni Kristjánssyni í Skógarkoti skaðabætur, ef þær framkvæmdir verða stöðvaðar af Þingvallanefnd, sem hann hefir gert við Vellankötlu. Nú vill svo til, að bóndi þessi hefir engar framkvæmdir gert við Vellankötlu, því að hann hefir byggt annarsstaðar. Mannvirki þau, sem hann hefir reist, eru langt þaðan; það er því ekki hægt að greiða honum neitt, þó að till. verði samþ. Till. þessi mun annars vera afturganga tillögu til þingsál., sem hv. þm. S.-Þ. flutti hér á öndverðu þingi. Þetta og annað eins er að leika sér með fé almennings, en slíkt virðist miður viðeigandi.

Þá er till. um að kaupa af Landsbankanum jarðir á Eyrarbakka og Stokkseyri. Till. þessari svipar mjög til till. um landssmiðjugróðann. Þar er ekkert minnzt á verð, aðeins að vextir verði ekki háir og afborgunarskilmálar sæmilegir. Jarðirnar mega kosta hvað sem vill; um það er ekkert skilyrði sett. Þessar tvær till., um landssmiðjuna og jarðakaupin, þyrði ég að órannsökuðu máli að sverja upp á hv. þm. S.-Þ., svo mjög sverja þær sig í ættina til hans.

Að síðustu vil ég nefna till. um að greiða einhverjum Jóni Bergsteinssyni, fyrrv. bústjóra á Kleppi, 300 kr. auk dýrtíðaruppbótar, og að upphæðin sé færð á reikning Kleppsbúsins. Hér á að taka upp aðferð, sem ég verð að telja mjög varhugaverða. Mér finnst það ekki geta komið til mála að fara að taka upp þann sið, að skylda stofnanir, sem eru hreinar ríkisstofnanir, til þess að greiða eftirlaun.

Ég ætla svo ekki að fara fleiri orðum um till. n., en mun bæta fáeinum orðum við það, sem ég sagði áður um frhnál. meiri hl. fjvn., sérstaklega viðvíkjandi vitunum. Meiri hl. leggur til, að því fé, sem veitt er til nýrra vita, 67 þús. kr., verði varið til að reisa miðunarstöð í Vestmannaeyjum og til radíóvita eða miðunarstöðvar á Reykjanesi, eftir því sem stj., að undangenginni framhaldsrannsókn, kann að ákveða. Þó sé 2500 kr. af þessu fé varið til innsiglingarvita við Akraneshöfn, samkv. fyrirmælum hafnarlaga. Þetta um innsiglingarvita á Akranesi skýtur nokkuð skökku við, því að í hafnarlögum Akraneskauptúns eru engin fyrirmæli um hann, svo að kunnugt sé. Ég veit ekki, hvað meiri hl. meinar með þessu.

Ég er mjög óánægður yfir þessum till. hv. meiri hl. um skiptingu á vitafénu. Því að samkv. lögum er það ákveðið, að vitamálastjóri, forstöðumaður Stýrimannaskólans í Reykjavík og forstjóri Fiskifélags Íslands eigi að gera tillögur og fyrirmæli um það til stj., hvar eigi að nota það fé, sem áætlað er til nýrra vitabygginga árlega. Þessi ákvörðun er í vitamálalögunum. nr. 43 19. júní 1933, 7. gr. Um fjárveitingar til vitabygginga fyrir næsta ár segir svo í bréfi vitamálastjóra frá 4. júlí s. l., sem einnig er undirritað af forstjóra Fiskifélagsins og forstöðumanni Stýrimannaskólans, með leyfi hæstv. forseta:

„Vitamálanefndin 1930 var sammála um það, að einna mest sé þörf á að lýsa upp Skagafjörð og Húnaflóa, enda er Skagafjörðurinn í algerðu myrkri, en Húnaflóinn mjög lítið lýstur; aftur á móti er sigling þar orðin mjög mikil allt árið, en sérstaklega fram eftir haustinu, og féllumst við algerlega á það, að sjálfsagt væri að byrja á Skagafirðinum. Nefndarálitið gerir ráð fyrir 3 innfjarðavitum, með mislitum hornum til að sýna siglingaleiðir, á Reykjadisk, í Hegranesi og á Straumnesi. Við kjósum heldur að bæta einum vita í Málmey, til þess bæði að fá betri leiðir milli skerja og boða, og jafnframt að þurfa ekki að gera hina vitana — sérstaklega Hegranesvita — eins ljóssterka og annars hefði þurft“.

Þetta segja þeir menn, sem lögum samkv. eru kvaddir til að láta uppi álit sitt um þetta. Um framlög til nýrra vega tók meiri hl. fjvn. tiltölulega lítið tillit til áætlana vegamálastjóra, og stj. tók raunar líka lítið tillit til þeirra, en þó er það ekki svo, að enginn vegur verði gerður af þeim, sem hann gerði till. um; þeir eru flestir teknir í fjárl., en fjárframlögum til þeirra er stórum raskað. Eins er með símana. Meiri hl. fjvn. vildi ákveða að leggja alls ekki á næsta ári þær símalínur, sem landssímastjóri lagði til að lagðar yrðu. En þegar kemur að vitunum, þá vill meiri hl. alveg strika út till. vitamálastj. og láta gera allt annað. Þar er ekkert gert með það, sem þessi lögskipaða vitamálanefnd stingur upp á.

Þetta er nú meðferð þessara yfirvitringa í meiri hl. fjvn. á till. hinna opinberu embættismanna, sem jafnframt eru sérfróðir ráðunautar stj. í þessum efnum. Sem þm. Skagfirðinga mótmæli ég algerlega þessari meðferð og skora á hæstv. stj. að taka ekkert tillit til tillagna hv. meiri hl. n. — Þær eru ekkert annað en helber rangindi, sérstaklega að því er vitamálin snertir. Og þegar litið er á þá meðferð á till. aðalforstjóra ríkisstofnananna, sem hv. meiri hl. hefir leyft sér, þá lætur undarlega í eyrum, þegar frsm. meiri hl. er að mæla fyrir því, að þessir sömu forstjórar eigi að fá fjárupphæðir úr ríkissjóði til útbýtingar á milli gamalla og lasburða fyrrv. starfsmanna þess opinbera; en þetta hlutverk vill hann fela t. d. landlækni, fræðslumálastjóra og vegamálastjóra. Þegar eitthvað þarf að nota þessa menn, þá er sjálfsagt að treysta þeim til þess. En þegar flokkshagsmunir eru annarsvegar og kjördæmakröfur stjórnarliða, þá þykir sjálfsagt að vísa till. þessara forstjóra á bug, þá er þeim ekki treystandi til neins. Og þetta út af fyrir sig, að strika gersamlega út till. vitamálanefndar um ráðstöfun á vitafénu, er alveg óhæfilegt.

En hitt er svo annað mál, ef gengið er út frá, að þetta fé verði ekki notað til þess að reisa vita við Skagafjörð, hvort rétt sé að verja því til miðunarstöðvar, og þá sérstaklega til að reisa miðunarstöð í Vestmannaeyjum. Ég vil út af því leyfa mér að lesa hér upp kafla úr bréfi frá vitamálastjóra; það er ekki prentað og ég ætla því, að mér sé óhætt að lesa það án forsetaleyfis. Það hljóðar svo: „Ég vil leyfa mér að vekja athygli hinnar háttvirtu fjárveitinganefndar á þessari tillögu, og mótmæla því eindregið, að hún verði samþykkt, bæði vegna þess, að samkvæmt rökstuddu áliti sérfræðinga landssímans mun slík stöð verða afardýr og koma að litlum notum, og jafnframt vegna þess, að slík miðunarstöð mun samkvæmt eðli sínu alls ekki verða talin viðkomandi vitamálunum. Við höfum enga menn, sem þekkja neitt inn á slíkar stöðvar, og yrðum við því að vísa bæði stofnun og rekstri hennar til landssímans, þar sem hún eðlilega á heima, enda er ekki hægt að reka hana nema í sambandi við eða sem hluta úr talskeytastöð, sem aðeins landssíminn má og getur sett upp og rekið“.

Með öðrum orðum, það er ekki nóg með það, eftir þessu að dæma, að það fé, sem átti að verja til þess að lýsa upp Skagafjörð, sé tekið til annara vita, heldur á í raun og veru að verja því til símamála. Því það er vitanlega alveg rétt, sem vitamálastjóri segir í þessu bréfi, að miðunarstöðvar geta ekki heyrt undir vitamálin. Svo er það eitt enn viðvíkjandi þessu, sem er athugavert: hvort þessar miðunarstöðvar séu yfirleitt heppilegar. Um þær eru miklar deilur. Og ég held fyrir mitt leyti, að það sé ekki hægt fyrir Alþingi að slá neinu föstu um það, hvort miðunarstöðvar eigi að koma hér á landi, nema að undangenginni rannsókn, og þá m. a. á reynslu annara þjóða. Ég vil í þessu sambandi benda á það, að landssímastjóri var spurður um álit sitt á þessu máli, og ýmsar upplýsingar því viðvíkjandi. Og hann hefir í bréfi, frá 26. okt. s. l., gefið ýtarlega skýrslu um miðunarstöðvar og radióvita og þróun þeirra í flestum löndum Evrópu og Norður-Ameríku síðastl. 3 ár, frá nóv. 1931 og fram til sept. 1934. Er þetta tekið eftir skýrslum Alþjóðaskrifstofunnar í Bern. Í þessum löndum eru samtals 88 miðunarstöðvar síðastl. haust, og hefir þeim fækkað um 3 á síðustu þremur árum; en radíóvitar voru samtals í þessum löndum 225, og hafði þeim fjölgað um 54 vita á sama árabili. Þetta sýnir okkur, hvernig á málið er litið í öðrum löndum. Það sýnir, að það á ekki að reisa hér miðunarstöðvar, heldur radíóvita, því að engum getur, skilst mér, dottið í hug, að ef aðrar þjóðir álitu miðunarstöðvar nauðsynlegri en radíóvita, þá hefði miðunarstöðvum fækkað í heiminum á síðastl. þremur árum samtímis og radióvitum hefir fjölgað mjög. Það væri freistandi að lesa ýmislegt fleira úr þessari skýrslu landssímastjóra, því að ég hygg, að Gunnlaugur Briem, aðstoðarmaður hans, sem einnig hefir undirritað þetta bréf, sé sá, sem hefir bezt vit á þessum málum hér á landi. Ég vil einnig geta þess, að forseti Fiskifélags Íslands er sammála honum um það, að við eigum ekki að reisa miðunarstöðvar, heldur radíóvita. Stofnkostnaður miðunarstöðva er miklu meiri, og rekstrarkostnaðurinn líka. Ég fæ því ekki betur séð en að það sé alveg rangt, eftir þessum upplýsingum að dæma, að leggja út í það að byggja miðunarstöðvar. Landssímastjóri segir ennfremur í þessu bréfi: „Mér virðist sem ein miðunarstöð á Reykjanesi myndi koma að tiltölulega litlu gagni, vegna þess, hve lítið væri hægt að treysta á miðanirnar. Hinsvegar liti málið allt öðruvísi út, ef reistar yrðu 3 miðunarstöðvar nálægt hver annari, því þá má gera krossmiðanir og samanburð á miðunum og finna stað skipsins nokkuð nákvæmlega. Þannig hafa Þjóðverjar 3 miðunarstöðvar nálægt hver annari við Norðursjóinn, en enga í Eystrasalti, og eru þar þó tíðar þokur.

Þrjár miðunarstöðvar með sambandi sín í milli myndu sennilega kosta um 250—300 þús. kr., og reksturinn líklega um eða yfir 30 þús. kr. á ári. Að sjálfsögðu yrði mikið gagn að þeim í nánd við Reykjanes.

Ástæða virðist til að athuga, hvort ekki væri heppilegra að verja svipaðri upphæð til að reisa fleiri radíóvita kringum landið og veita íslenzkum skipum allríflegan styrk til að koma upp miðunarstöðvum í skipunum, enda sennilegt, að að því yrðu mun meiri not“.

Yfirleitt segir landssímastjóri, að þessar miðanir séu ekki ábyggilegar, og að það geti jafnvel munað allt að 90° horni á sumum stöðum, ég ætla að hann segi helzt þar, sem hraun eru. Ég held því, að jafnvel þó að ekki verði reistir vitar við Skagafjörð, sem ég auðvitað álít, að eigi að gera, þá á ekki að byggja miðunarstöðvar, a. m. k. ekki án þess að það mál sé betur rannsakað.

Ég læt mér ekki detta í hug að fara út í brtt. einstakra þm. við fjárlfrv., og býst ekki við að gera það heldur síðar við þessa umr. En mig langar þó til að lengja enn mál mitt með fáeinum almennum athugasemdum. — Ég hefi tekið það fram hér áður, að mér þykja gjöldin samkv. þessu frv. allhá og allt of há. Við sjálfstæðismennirnir í fjvn. fluttum hér víðtækar till. til lækkunar við 2. umr. þessa máls, en þær voru allar strádrepnar. Nú er þó svo komið, þrátt fyrir að fyrirsjáanlegt er, ef áætlanir hæstv. stj. standast, að hinir nýju tekjuaukar nema um 2 millj. kr., að hv. frsm. fyrri kaflans, 6. landsk., er farinn að hafa það á orði, að meiri hl. n. muni verða að skera eitthvað niður af því, sem tilætlunin hefir verið að samþ., og kæmi mér þá ekki á óvart, þótt kjördæmi okkar stjórnarandstæðinga yrðu nokkuð freklega fyrir barðinu á þeim niðurskurði, ef dæma má eftir reynslu undanfarið á þessu þingi. Ég segi þetta ekki til þess að mæla gegn niðurfærslu, því að við sjálfstæðismenn höfum sýnt í verkinu, að sá er okkar vilji; en ég get ekki annað en bent á þetta, til þess að öllum verði ljóst, að sú skoðun, sem sjálfstæðismenn létu í ljós um þetta við 2. umr., var rétt, þó að stjórnarliðar hristu þá höfuð sín yfir þeim fjarstæðum að hugsa sér að draga úr gjöldunum.

Hv. stjórnarflokkar hafa á þessu þingi tekið upp þá aðferð, sem aldrei hefir þekkzt hér á landi fyrr, að útiloka andstæðinga sína algerlega frá öllum áhrifum á meðferð fjármála ríkisins, andstæðinga, sem eru umboðsmenn meiri hluta þjóðarinnar. Þetta er nú þeirra lýðræði. Þessa útilokun áhrifa okkar stjórnarandstæðinga framkvæma þeir þannig, að þeir gera út um hverja einustu fjárveitingu á sameiginlegum flokksfundum, eins og áður hefir verið upplýst. Það má kannske segja eitthvað gott um þetta fyrirkomulag, þó að ég komi ekki auga á það, og þó að það fari alveg í bága við okkar stjórnarskipun og stefni beina leið til einræðis. A. m. k. fæ ég ekki séð, að þetta leiði til neins góðs.

Þegar ég lít á þetta fjárlfrv. og till. hv. meiri hl. n., sem ég veit, að eru þegar samþ., þá fæ ég ekki betur séð en að gjöld samkv. því séu um 13 millj. kr., ef allt er talið með, þar á meðal allir pinklarnir, sem stungið er milli bagga á hinum drápsklyfjaða ríkissjóði; en með pinklum á ég við heimildirnar í 22. gr., sem sumir hverjir síga í meira en lítið, svo sem 5—600 þús. kr. til útvarpsins. Það er því ekki ástæða til að hæla stjórnarflokkunum fyrir sparsemi. Það er sýnilegt, að þar er togað í skæklana frá báðum hliðum, og fæ ég ekki betur séð en að sósíalistunum veiti betur í því reiptogi. Sparnaður er nú bannfært hugtak. Nú hljóðar slagorðið þannig, að tekið skuli sem mest af landsmönnum í sköttum, til að jafna kaupgetuna — en hvað verður um kaupgetuna, þegar allir eru orðnir armingjar?

Ég hefi gaman af að minna á það hér við þetta tækifæri, að ég las alveg nýlega í dönsku blaði ummæli fjármálaborgarstjórans í Kaupmannahöfn um tekna- og gjaldaáætlun þess bæjar fyrir árið 1935. Þessi maður er sósíalisti og hann kveður dálítið við annan tón en fjármálaráðherra okkar hér úti á Íslandi. Borgarstjóri þessi lýsti því yfir, að þótt hann hefði dregið úr gjöldum eins og hann teldi fært, þar á meðal úr byggingu verkamannabústaða, þá gæti hann samt ekki fengið jöfnuð á tekjum og gjöldum. En að jafna það með tekjuaukum teldi hann fjarstæðu í því árferði, sem nú er, því að eitt væri nauðsynlegast af öllu og það væri að vernda kapítalið, eignirnar, til þess að hafa þær sem framtíðarskattstofn. Svona talar danskur sósíalisti, sem hefir ábyrgðartilfinningu og veit, að hann, að öllum líkindum, á að fara með þessi mál um langt skeið. Hann er ekki hræddur við að segja flokksmönnum sínum til syndanna og láta uppi sína skoðun, þó að hún mælist kannske ekki vel fyrir. En hér á Íslandi segir fjmrh., að ekkert sé annað en jafna kaupgetuna, leggja á skatta og eyða af innstæðu, og þessi skoðun kemur rækilega fram í þessu fjárlfrv. og tekjuaukafrv. stjórnarinnar.

Ég er sannfærður um, að þótt hv. stjórnarliðar vilji ekki viðurkenna það, þá eru þeir þó, a. m. k. sumir þeirra, ekki ánægðir með afgreiðslu þessa máls. Ég er sannfærður um, að margir þeirra sjá, að mörg ár í röð getur þessi aðferð ekki blessazt, nema alveg skipti um á sviði verzlunar við útlönd. — Ég segi ekki, að það setji landið á hausinn, þó að þetta sé gert í 1 eða 2 ár, en að gera það að reglu til lengdar, getur alls ekki blessazt.

Það er satt, að stjórnarandstæðingar hafa við þessa umr. borið fram miklar till. til hækkunar á gjaldalið fjárlfrv., en stjórnarliðar aðeins gegnum meiri hl. n. — Ég tel það ekki, þó að hv. þm. Mýr. (BÁ) hafi skotizt út og gert brtt. um 100 kr. hækkun á einum gjaldalið; það ber aðeins vott um, að hann hefir getað undið til handjárnunum sem svaraði 100 kr. Ég get búizt við, að reynt verði að gera úlfalda úr þessum brtt. stjórnarandstæðinga; en ég dreg engar dulur á, að ég veit, að stjórnarflokkarnir hafa samtök um að fella þessar till. flestar — ef ekki allar. En þrátt fyrir það eiga stjórnarandstæðingar yfirleitt ekki skilið ámæli fyrir þetta; því þeir vita, að í frv. og till. hv. meiri hl. n. eru mýmargar fjárveitingar, sem eiga miklu minni rétt á sér en þessar brtt., sem nú á að leggja niður við trogið. Og ennþá er einræðið ekki komið svo langt, að stjórnarandstæðingum sé bannað að koma með tillögur. Þeim er ekki enn bannað að sýna kjósendum sínum það svart á hvítu, að þeir hafi ekki gleymt áhugamálum þeirra. Hitt er svo annað mál, að stjórnarsinnum kemur þetta kannske ekki sem bezt, að fá þessar till. fram í dagsljósið, því að það er náttúrlega ekki útilokað, að kjósendum detti í hug að bera saman það, sem fellt er og samþ., og það kæmi stjórnarsinnum vitaskuld ekki vel, hvorki um þær brtt., sem fyrir lágu við 2. umr., né þessa.

Ég ætla ekki í þetta skipti að víkja að nema einni brtt. flokksmanna minna, en það er sú till. hv. 3. þm. Reykv. að hækka atvinnubótaféð um ½ millj. kr. og fella burt aths. um framlag bæjar- og sveitarfélaga. Ég skil þessa brtt. þannig, að hv. flm. hennar vilji með þessu undirstrika það, sem ég sagði hér við 1. og 2. umr. þessa máls, að það er fullkomin staðleysa að ganga út frá, að það sé mögulegt fyrir bæjar- og sveitarfélög að leggja fram 1 millj. kr. til atvinnubóta á næsta ári. Það fé er þeim vitaskuld gersamlega ómögulegt að útvega. ½ millj. kr. fjárveiting úr ríkissj. gegn tvöföldu framlagi á móti frá bæjar- og sveitarfélögum, er því ekkert annað en ryk í augu atvinnuleysingja, en á ekkert skylt við hið raunverulega líf. Sogsvirkjunin ein útvegar á næstu árum svo mikla atvinnu, að mjög stórum dregur, og nú er það víst, að byrjað verður á henni snemma á næsta ári. Ég sé af því, sem fram hefir komið síðan mál þetta var hér til 2. umr., að ég hefi tekið of grunnt í árinni, er ég þá gerði ráð fyrir, að á næsta ári mundi hún borga í vinnulaun um 600 þús. kr., því að allur líkur virðast benda til þess, að þessi fjárhæð verði allt að 1 millj. kr., og má sjá minna grand í mat sínum. Sú ríkisstj., sem ekkert tillit vill taka til þessa, er blind eða hugsunarlaus fyrir framtíðinni; því að öllum ætti þó að vera það ljóst, að ekki er hægt að taka stórlán til stórframkvæmda annað eða þriðja hvert ár, og á milli verður að bæta úr atvinnuleysinu. Með þessu háttalagi er það auðsætt, að bændur geta engan vinnukraft fengið um sláttinn með kleifum kjörum.

Um tekjuáætlun þessa frv. vil ég aðeins segja það, að hún er svo há, að ég tel með öllu óvíst, að hún standist. Þó er ég ekki blindur fyrir því, að ríkissjóður fær talsvert drjúgar tekjur af innflutningi allskonar varnings frá Miðjarðarhafslöndunum, en af því leiðir þá líka, að innflutningshöftin verða gagnslítil, og hæstv. fjmrh. getur ekki staðið við loforð sitt um, að hin aukna kaupgeta valdi ekki erlendum vörukaupum. Auk þess má benda á, að þetta frv. er þannig úr garði gert, að það eykur einnig á annan hátt stórkostlega erlend kaup.

Ég skal svo að lokum geta þess, að það hefir komið fram beiðni frá sjúkrahúsinu í Vík um greiðslu 1/3 kostnaðar af röntgentækjum, sem sjúkrahúsið hefir keypt á yfirstandandi ári. Það er nú ekki tekin upp fjárveiting í þessu skyni í þessu frv., en fyrir önnur sjúkrahús hefir verið tekin upp fjárveiting í sama skyni. Ég nefni þetta ekki af því, að fyrir liggi nein till. um þetta, heldur af því, að minni hl. ætlast til, að í fjárl. fyrir árið 1936 verði tekin upp fjárveiting í þessu skyni.

Annað atriði skal ég líka nefna, sem svipað stendur á um, og það er styrkur til franskíslenzkrar orðabókar. Í þessu frv. hér er gert ráð fyrir fjárveitingu til sænsk-íslenzkrar orðabókar. Það þótti of mikið að taka upp fjárveitingu til beggja þessara bóka í einu, og þó ég fyrir mitt leyti áliti það réttara að taka upp fjárveitingu til þeirrar frönsku heldur en þeirrar sænsku, þá varð það ofan á í n. að láta þá sænsku ganga fyrir. En minni hl. vill þá, að fjárveiting til franskrar orðabókar verði tekin upp í fjárl. fyrir 1936, og ég hygg, að meiri hl. sé því líka meðmæltur, eftir þeim undirtektum að dæma, sem þetta mál fékk í n.

Ég vil svo biðja afsökunar á því, ef ég hefi orðið heldur langorður, en það er ekki heldur víst, að ég taki neitt aftur til máls við þessa umræðu.