28.11.1934
Neðri deild: 47. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2358 í B-deild Alþingistíðinda. (3445)

150. mál, fiskimálanefnd

Sigurður Kristjánsson:

Það er alveg rétt, að sjútvn. fékk frv. til athugunar. En það er alveg jafnrétt, að það var ekki rætt í n. og form. bar aðeins upp, hvort n. ætti að flytja frv. eða ekki, og umr. fengust ekki. Ég óska þess, að frv. verði rætt í n., því að mín meining er sú, að hér sé ekki um svo lítilfjörlegt mál að ræða, að ekki eigi að bera það undir fleiri en þá, sem í nefndinni sitja, ég álít, að þetta sé svo stórt mál, að það eigi að leita ráða þeirra, sem mest hafa með þessi mál að gera, svo sem bankanna og fisksölusamlagsstjórnarinnar, en það hefir alls ekki verið gert. Ég vil því eindregið mælast til þess, að frv. komi til meðferðar í n. og geri að till. minni, að umr. verði frestað.