28.11.1934
Neðri deild: 47. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2359 í B-deild Alþingistíðinda. (3449)

150. mál, fiskimálanefnd

Sigurður Kristjánsson:

Ég skil ekki í því, að flm. geti nokkuð haft á móti því, að umr. verði frestað. Ég geri ekki ráð fyrir, að fresturinn hafi áhrif á, hvort málið nái fram að ganga eða ekki. Ég vil benda á, að venjan á að vera sú, að málin séu sem bezt undirbúin fyrir 2. umr. og við 2. umr. Mér sýnist þetta of stórt mál til þess, að það fái ekki meiri undirbúning en smámál eða jafnvel minni. Það er hlutverk nefnda ekki aðeins að athuga málin sjálf, heldur og að afla upplýsinga þeirra, er vit hafa á málunum og geta lagt eitthvað til, er að gagni má verða. Ég held fast við það, að málið eigi að koma til n. áður en gengið er til atkv. um einstakar gr. eða frv. í heild. Hitt er ekkert atriði, hvort því er formlega vísað til n. eða samkomulag er um það, en atkvgr. um það á ekki að fara fram á þessu stigi málsins.