28.11.1934
Neðri deild: 47. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2359 í B-deild Alþingistíðinda. (3451)

150. mál, fiskimálanefnd

Jakob Möller [óyfirl]:

Ég leyfi mér að styðja eindregið þá till., að málinu verði vísað til n. Hv. 6. þm. Reykv. upplýsti það, að málið hefir ekki verið rætt í n., og hv. frsm. meiri hl. hefir ekki afsannað það. Hv. 6. þm. Reykv. upplýsti það, að frv. hefði verið lagt fyrir n. aðeins til að taka ákvörðun um, hvort n. flytti málið eða ekki, en því var neitað að ræða frv. eða rannsaka eða yfirleitt að láta það fá þá meðferð, sem talið er, að málin eigi að fá í n. Sannleikurinn er því sá í þessu máli, að frv. hefir aldrei fengið neina meðferð í n., og það er fleira athugavert í þessu sambandi, er ég síðar skal koma að.

Forseti og ýmsir aðrir telja það nægja, ef n. lofar að taka mál til athugunar. Um daginn var hér mál í deildinni, sem af sömu ástæðu var ekki vísað til n., heldur lofaði hún að athuga málið, og varð samkomulag um það, en það var bara aldrei gert. N. kom aldrei saman til að athuga málið. Til þess lágu vitanlega aðrar ástæður en sviksemi, því að það voru haldnir deildarfundir þá daga á venjulegum fundartíma nefndarinnar. Minni hl. hefir eigi haft tækifæri til þess að athuga þetta frv. áður en það var afgr. frá n. En ef frv. er vísað til n. þá er það ekki tekið á dagskrá fyrr en öll n. hefir athugað það gaumgæfilega. Er því meiri nauðsyn á að frv. fari til n., þar sem það er bersýnilegt, hvað frv. er óathugað.

Það er gert ráð fyrir því í frv. sem neyðarúrræði, að sett verði á stofn einkasala á saltfiski. En því er ekki að neita, að margir menn óttast, að hér sé um beina einkasölu að ræða, enda er frv., eins og það er, hreint einkasölufrv.

Að vísu eru löggiltir útflytjendur samkv. frv., en þeir mega engan samning gera um sölu á fiski, nema fá heimild til þess. Hver er þá munurinn á þessu og því, að þessi aðili, sem heimildirnar veitir, taki fisksöluna alveg í sínar hendur. Frv. er því eigi aðeins leið til einkasölunnar, heldur er það einkasölufrv. frá upphafi. Flm. virðast eigi hafa gert sér þetta ljóst, og að því er virðist hefir hæstv. atvmrh. ekki heldur gert sér það ljóst.

Þá hefir þetta frv. ekki verið borið undir þá aðila, sem eiga siðferðilegan rétt á því, að láta í ljós álit sitt um það og mesta þekkinguna hafa á þessum málum. En það eru bankarnir og fisksölunefndin. Ég verð að segja, að það er ekki vansalaust fyrir Alþ., ef á að knýja þetta frv. í gegn án þess að það fari til n. og athugasemdalaust.