18.12.1934
Sameinað þing: 24. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

1. mál, fjárlög 1935

Frsm. samgmn. (Gísli Guðmundsson) [óyfirl.]:

Samgmn. beggja d. þingsins hafa að þessu sinni haldið sameiginlegan fund til þess að taka til athugunar flóabátastyrki. N. hafa skilað sameiginlegu nál., sem liggur fyrir á þskj. 807, og brtt. við fjárl., sem hér liggja sömuleiðis fyrir á þskj. 815.

Ég skal geta þess, að innan n. hefir verið hið bezta samkomulag um þetta verkefni, sem fyrir hendi lá, að öðru leyti en því, að hv. þm. N.-Ísf. hefir undirritað nál. með fyrirvara. En sá fyrirvari snertir aðeins eitt atriði, og það er að ég hygg, styrkurinn til Djúpbátsins. Hv. þm. N.-Ísf. hefir þegar gert nokkra grein fyrir afstöðu sinni í þessu máli áður við umr. um málið.

Í fjárlagafrv., eins og það var afgr. frá ríkisstj. og eins og það er afgr. við 2. umr., er veittur 78 þús. kr. styrkur til flóabátaferða, og er það sú sama upphæð, sem veitt hefir verið til þessa undanfarin 2 ár a. m. k. N. hafa þó gert nokkrar athuganir á því, hvernig réttlátast væri, að þessum styrkjum yrði skipt milli einstakra flóabáta, og hafa þær í því sambandi athugað þau plögg, sem fyrir hafa legið.

Ég vil þá taka það fram f. h. n., að þessi gögn viðvíkjandi flóabátunum eru að okkar dómi næsta ófullnægjandi. Það lá ekki fyrir, að ég hygg, t. d. rekstrarkostnaður, nema frá aðeins einum af þeim 15 flóabátum, sem nutu styrks á síðastl. ári.

Í öðru lagi lágu fyrir n. umsóknir um styrki frá nokkrum af bátunum, en þó ekki frá þeim nærri öllum, en frá sumum þeirra lágu fyrir beiðnir um það, að styrkurinn yrði nokkuð hækkaður frá því, sem verið hefir, þó að n. í fæstum tilfellum sæi sér fært að mæla með því, af fjárhagsástæðum. Vegna þess, að nm. fannst það mjög áberandi við þessa athugun, hvað upplýsingarnar um þessa báta og starfsemi þeirra voru ófullnægjandi, þá hafa n. borið fram, í sambandi við brtt. um breyt. á styrkupphæðinni, till. um það, að eftirleiðis hafi Skipaútgerð ríkisins yfirumsjón með flóabátaferðunum, og að það verði sett að skilyrði fyrir greiðslu til hvers einstaks báts á næsta ári, að fyrir liggi rekstrarreikningur viðkomandi báts fyrir árið, sem nú er að líða, og þá jafnframt nauðsynleg gögn um það, hvaða gagn hefir orðið að styrknum. Og þá vilja n. ennfremur leggja það til, með þessari aths., að það verði sömuleiðis skilyrði fyrir styrknum, að áætlanir bátanna verði lagðar fyrir Skipaútgerð ríkisins og verði samþ. af henni.

Það er nú svo, að í raun og veru er ákaflega erfitt að gera sér grein fyrir því, hvernig þessu fé verði bezt varið og að meta þær umsóknir, sem berast um þessa styrki, án þess að slíkra gagna sé aflað og það sé skylda viðkomandi bátaútgerða að afhenda slík gögn. Ég vænti þess, að hv. þm. geti fallizt á, að samþ. þessa aths.

Ég skal þá næst geta þess, að þegar n. fóru að gera sínar till. um skiptingu á styrknum og að athuga þær umsóknir, sem borizt höfðu, þá varð niðurstaðan sú, að þær töldu óhjákvæmilegt að bera fram till. um lítilsháttar hækkun á þeirri upphæð, sem upphaflega var gert ráð fyrir að verja til þessa. Sú hækkun nemur 4 þús. kr., og hækkar styrkurinn því úr 78 þús. kr. upp í 82 þús. kr. samkv. till. n. Meiri hl. fjvn. hafði nú gert till. um samskonar hækkun, en sá till. var tekin aftur af frsm. meiri hl. n., vegna þess, að till. frá samgmn. fjallaði um meira en aðeins þessa hækkun.

Ég skal þá næst með fáum orðum gera grein fyrir þeim breyt., sem n. leggja til, að verði gerðar á skiptingu styrksins. Vegna þess hvað litlar upplýsingar lágu fyrir viðvíkjandi bátunum, sáu n. sér ekki annað fært í mörgum tilfellum en að leggja til, að styrkirnir yrðu þeir sömu og verið hefir 2 undanfarin ár. N. athuguðu það, hvernig þetta hefði verið í till. samgmn. 2 næstu ár á undan, og hafa n. lagt það til, að flestar þessar upphæðir yrðu að þessu sinni veittar óbreyttar frá því, sem verið hefir, án þess þó að hafi verið aðstaða til þess að gera sér fyllilega grein fyrir því, hvort það sé réttlátt með tilliti til annara. Ég skal þá aðeins nefna breytingarnar, og kem þá fyrst að því, að ætlaður hefir verið 7 þús. kr. styrkur til Hornafjarðarbátsins. N. leggja til. að á þessu verði gerð nokkur breyt., þannig, að svo verður til ætlazt, að það verði sérstakur bátur, sem haldi uppi ferðum á svæðinu frá Hornafirði og norður að Skálum á Langanesi. Og leggja n. til, að styrkurinn, sem hefir verið áætlaður 7 þús. kr. til Hornafjarðarbátsins. verði 8 þús. kr. og renni til þessa báts, sem á að halda uppi ferðum á þessu svæði.

Þá hafa n. lagt það til, að styrkurinn til bátsferða í Austur-Skaftafellssýslu verði hækkaður úr 12 þús. kr. upp í 15 þús. kr. Þessu hefir verið varið til þess að styrkja afskekktustu sveitir í Austur-Skaftafellssýslu til greiðari samgangna, sem þær annars hafa mjög litlar. Það er tekið fram í nál., að það er sérstaklega til þess ætlazt, að 800 kr. af þessari upphæð gangi til þeirrar sveitar, sem er afskekktust af þeim öllum, en það eru Öræfin.

Þá leggur n. það til, að styrkur til Mýrabátsins verði hækkaður úr 4 þús. kr. og upp í 5 þús. kr. Þessi bátur hefir gengið frá Borgarnesi og vestur um Mýrar. Það er ekki um neinar reglubundnar ferðir þar að ræða, en nokkra hjálp til flutninga á þeim tímum, þegar hennar er mest þörf. N. barst erindi frá útgerð þessa báts, þar sem skýrt er frá því, að þeim, sem þar eiga hlut að máli, hafi verið sagt upp samningi, sem þeir hafi haft við eiganda bátsins undanfarin ár, og að þeir geti ekki fengið bát nema með nokkurri hækkun. N. féllust á, að sjálfsagt væri að bæta ofurlitlu við þá upphæð, sem veitt hefir verið í þessu skyni. Sama er að segja um Langeyjarnesbátinn, sem hefir farið nokkrar ferðir frá Stykkishólmi og vestur á Skarðströnd, að við höfum lagt til, að styrkur til hans yrði hækkaður um 100 kr.

Þá hafa n. lagt það til, að greiddur verði styrkur til Flateyjarbátsins, 2500 kr., upp í kostnað við að kaupa mótorvél. Þessi bátur annast flutninga frá Flatey til vesturhluta Barðastrandarsýslu. Þetta er ákaflega samgöngulaust svæði, og þær samgöngur, sem haldið er uppi með þessum bát, eru ákaflega erfiðar og dýrar, og þau óhöpp hafa orðið þar, að vél bátsins hefir orðið ónýt, og við teljum alveg óhjákvæmilegt að velta hlutaðeigendum þar nokkurn styrk til vélarkaupa. Þessi bátur er eign bænda í ýmsum hreppum í Barðastrandarsýslu og einskonar almenningsfyrirtæki.

Þá höfum við lagt til, að tekinn yrði upp einn nýr styrkur, og það er styrkur til Fljótabáts. N. barst umsókn um þetta, að styrkur yrði veittur til þess báts, sem á að fara einhverjar ferðir milli Fljóta og Siglufjarðar, og virtist n. full ástæða vera til þess að líta á þessa þörf.

Þá vil ég loks geta þess, að n. hafa lagt það til, að hækkaður verði styrkurinn til Djúpbátsins úr 19 upp í 20 þús. kr. Það var talsvert rætt um þennan bát í n., og þetta hefir verið til umr. í Ed. í sambandi við annað frv. Það er náttúrlega enginn vafi á því, að það er full þörf á því að styrkja samgöngur um þessar slóðir, því að það háttar svo til, að það eru mjög erfiðar samgöngur á landi í Ísafjarðarsýslum, með því erfiðasta á öllu landinu. N. hafa nú viljað fallast á þær till., sem fram hafa komið um það, að fyrir þessari þörf verði séð nokkuð á sérstakan hátt á næsta ári, sem sé þannig, að Norður-Ísfirðingum verði gefinn kostur á að fá eitt af skipum ríkisins leigt með góðum kjörum, eða m. ö. o. leigulaust, þannig að það gæti orðið þeim nokkuð viðráðanlegt. En jafnframt höfum við viljað leggja það til, að styrkurinn yrði hækkaður úr 19 og upp í 20 þús., sem að vísu er ekki mikið. Ég skal að öðru leyti, hvað Djúpbátinn snertir, af því að um hann hefir verið mikið talað á þinginu, leyfa mér að vísa til fskj. nál. samgmn., frá Skipaútgerð ríkisins, þar sem hún gerir sínar till. viðvíkjandi samgöngum við Ísafjarðardjúp, og gerir nokkurn samanburð á því fyrirkomulagi, sem við höfum viljað mæla með, og svo aftur því fyrirkomulagi, sem þeir þar vestra hafa hugsað sér, nefnilega byggingu nýs báts til þess að annast þessar ferðir. Niðurstaðan af áliti Skipaútgerðarinnar um þetta atriði er sú, að það ætti að geta orðið heldur ódýrara fyrir viðkomandi hérað að fá Hermóð leigulaust frá ríkinu heldur en að leggja í að koma upp þessum bát.

Ég held, að það sé nú ekki fleira, sem ég hefi ástæðu til þess að taka fram af hálfu n. viðvíkjandi þessum till. um hækkun á þessum styrk og skiptingu á honum. Við höfum viljað hafa þetta sem allra sanngjarnast, og væntum, að hv. þm. muni við athugun sannfærast um, að svo hafi verið.

Ég veit ekki, hvort ég á að nota þetta tækifæri, fyrst ég er staðinn upp, til þess að minnast lítilsháttar á eina brtt., sem ég á hér ásamt hv. 2. þm. Árn., á þskj. 832, og sem hv. frsm. minni hl. fjvn. drap á áðan. Þessi brtt. er ekki brtt. við fjárlagafrv., heldur brtt. við brtt. minni hl. fjvn. Þessi brtt. frá minni hl. fjvn. fjallar um það, að heimila ríkisstj. að ákveða hámark á launum þeirra starfsmanna hins opinbera, sem taka laun fyrir utan ákvæði launal. Ég get nú sagt það, að ég treysti mér ekki til þess að segja um það, hvaða þýðingu það hefir í framkvæmd að gefa ríkisstj. slíka heimild sem þar er um að ræða, til þess að ákveða hámarkslaun þessara starfsmanna. Ég hefi út af fyrir sig ekki sérlega mikla von um það, að mikill árangur geti orðið af að hafa slíka heimild. Það er náttúrlega alveg klárt mál, að ef hv. flm. þessarar till. á annað borð vilja stuðla að því, að ríkið hlutist til um hámarksupphæð launa, að það verði t. d. 8 þús. kr., þá eiga þeir náttúrlega að fylgja því, að ríkið reyni að hafa öll þau áhrif, sem það getur haft í því skyni. Því að vitanlega getur það naumast verið skoðun minni hl., að það eigi aðeins að setja hámarkslaun hjá hóp af starfsmönnum ríkisins, þegar þau eru hvergi sett annarsstaðar. Þess vegna er ég dálítið undrandi yfir því, úr því að flm. nú vilja koma fram með slíka till., og virðast vænta sér af henni árangurs, að þeir skuli þá ekki taka með opnum örmum þessari breyt., sem við leggjum til að gerð verði á þeirra brtt., því að það liggur í augum uppi, að á þann hátt er náð meiri fullkomnun á hinum góða tilgangi, sem virðist liggja á bak við þeirra till. Um leið og ég minnist á þetta, vil ég mótmæla því, sem fram kom hjá hv. frsm. minni hl., þegar hann hélt því fram áðan, að við mundum hafa borið fram okkar brtt. sérstaklega til þess að lækka laun eins manns, forstjóra Eimskipafél. Slíkt kemur okkur vitanlega ekki til hugar, að vilja lækka hans laun fremur en annara manna. Það verður vitanlega að ganga sama regla yfir alla menn viðvíkjandi þvílíkum hlutum. Enda er breyt., sem við höfum hér gert við þessa brtt., nokkuð víðtækari, ef hún yrði framkvæmd eftir þeirri heimild, sem hér um ræðir.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð mín fleiri. Ég á enga brtt. við frv. sjálft og sé ekki ástæðu til þess að fara inn á brtt. annara þm.