19.12.1934
Efri deild: 66. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2582 í B-deild Alþingistíðinda. (3482)

80. mál, eftirlit með opinberum rekstri

Magnús Guðmundsson:

Ég varð hissa, er ég sá þetta frv. Ég skil ekki, að það verði nein bót að setja einhverja þrjá pólitíska menn yfir einhvern flokk ríkisstofnana, menn, sem eiga að koma á fund við og við og fá 12 kr. fyrir hvern fundardag. Það er ákveðið í frv., að þeir eigi a. m. k. að koma á. fund tvisvar í mánuði, en þeim er hinsvegar hvergi bannað að hafa fundi á hverjum degi, en ef þeir færu að koma oft saman á fundi, þá er ég hræddur um, að kostnaðurinn yrði meiri en hv. frsm. meiri hl. vildi vera láta.

Hann hélt því fram, að kostnaðurinn yrði ekki meiri en fyrir stjórn einnar ríkisstofnunar. Hann mun hafa átt við landssmiðjuna, og það er vitaskuld vitleysa að hafa alla þessa menn í stjórn hennar, og nægði að hafa þrjá, en það er líka kunnugt, að mönnum var bætt í stjórnina bara af pólitískum ástæðum.

Það merkilega við þetta frv. er sú braut, er farið er inn á með því, sem sé að blanda saman löggjafarvaldinu og framkvæmdarvaldinu. Í stjórnarskránni er löggjafarvaldið, framkvæmdarvaldið og dómsvaldið aðskilið hvert frá öðru, en með þessu frv. er löggjafarvaldið að seilast inn á svið framkvæmdarvaldsins. Það, sem þingn. eiga að gera, er að fylgjast með framkvæmdum opinberra stofnana, en framkvæmdir stofnana eru ekki löggjafarmál.

Þetta er ekki eina frv., sem fram hefir komið í þessa átt; þau eru mörg fleiri, og þetta er gert í öðrum löndum, en þetta er einn af sjúkdómum þingræðisins og getur orðið því hættulegt. Ef þessi n. verður skipuð skv. því, sem hv. frsm. meiri hl. hugsaði sér, þá verður kostnaðurinn lítill, en þá verður líka eftirlitið lítilfjörlegt. Þessi n. á að fylgjast með og gera sér grein fyrir innkaupum, kaupgjaldi, starfsmannahaldi, álagningu á vörur, — í stuttu máli, þeir eiga að fylgjast með öllu hjá öllum opinberum stofnunum. Ef n. á að gera þetta, þá er það svo mikið verk, að ég er viss um, að þó lítið sé núna látið yfir kostnaðinum, þá mun það leiða til stofnunar nýrra starfa með smátt og smátt hækkandi launum, því ef þetta á að ganga svo vel sé, þá þarf að leggja mikla vinnu í það. Það er ekki svo lítið að fylgjast með póstinum, símunum, ríkisútgerðinni og útvarpinu, sem allt er sett í einn flokk, eða vegamálum, vitamálum, störfum húsameistara, ríkisprentsmiðjunni og landssmiðjunni. Þetta allt eiga mennirnir að fá inn í hausinn á tveimur fundum í mánuði. Ef þetta hinsvegar eiga að verða pólitísk bein —. (JJ: Sjálfstfl. fengi þrjú bein). Já, en hann er ekkert gráðugur í þau. (Fjmrh.: Sjálfstæðismenn í allshn. Nd. voru með málinu). Það skiptir í rauninni ekki máli hvað mína afstöðu snertir, því að það er skoðanafrelsi í Sjálfstfl., en annars hefi ég hér á þskj. 419 nál. þeirra, og þar stendur, að frv. sé vanhugsað.

(Fjmrh.: Það varð samkomulag um málið eftir að frv. kom fram). Ég hefi engin bréf fyrir því, en nál. liggur hér fyrir, og er þetta mál var rætt í Nd., heyrði ég frsm. minni hl. tala snarplega móti því. Ég verð að segja það, að annaðhvort verður kostnaður við eftirlitið meiri en hér er gert ráð fyrir eða það verður humbug. Hvort sem er, er ég á móti þessu máli. Ég get ekki skilið, hvaða bót yrði á framkvæmdastjórninni, þótt þar kæmu þrír menn, sinn úr hvorum flokki og togi sinn í hvern skekilinn. Framkvæmdarstjórarnir vita ekki, hvað þeir eiga að gera til þess að þóknast öllum, og loks verður svo ráðh. að skera úr, alveg eins og nú.

Ég mun ekki orðlengja þetta frekar. Ég ætla, að þetta sé eitt af afkvæmum hinnar svokölluðu „Rauðku“ og býst við, að hv. þm. S.-Þ. renni blóðið til skyldunnar og hann segi nokkur orð.