19.12.1934
Efri deild: 66. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2586 í B-deild Alþingistíðinda. (3484)

80. mál, eftirlit með opinberum rekstri

Magnús Guðmundsson:

Ég held ég verði að hryggja hv. þm. S.-Þ. með því að láta hann vita, að ég hefi ekki breytt skoðun minni á þessu máli við ræðu hans. Það er svo erfitt að koma mér í skilning um það, að þeir menn, sem sitja í þessum ráðum og eiga að koma í þessar ríkisstofnanir einu sinni eða tvisvar í mánuði, muni geta sett sig inn í öll smáatriði viðkomandi rekstri þeirra. Og það mun jafnvel reynast erfitt fyrir þá að athuga öll hin stærri atriði og fylgjast með stjórn og störfum fyrirtækjanna. Hv. þm. var eitthvað að tala um samkomulag milli flokka í Nd. um þetta mál, einskonar samkomulag, eins og hann orðaði það. Ég veit ekkert um, hverskonar samkomulag það hefir verið. En hitt kann að vera, að það hafi ekki verið þar neitt hitamál og ekki um það deilt. Það ætla ég ekki heldur að gera hér í d. En ég vil bara benda á, að hér er um 9 óþarfa bitlinga að ræða, sem ekki leiða til nokkurs gagns. Þessir menn geta ekki leyst þessi eftirlitsstörf af hendi svo að nokkur mynd sé á, nema að leggja í það miklu meiri vinnu en hin tiltekna borgun svarar til. Og ef unnið yrði að þessu með alúð og kostgæfni, hlýtur kostnaðurinn að verða mikill, eins og við hvert annað starf, sem krefst mikillar vinnu. Hver fundardagur þessara ráða kostar ríkið 108 kr.

Út af þrískiptingu valdsins fór hv. þm. S.-Þ. að minna mig á það, að ég hefði einu sinni verið sýslumaður í Skagafirði og farið þar bæði með dómsvald og framkvæmdavald sameinað í einu starfi. Ég viðurkenni, að það er slæmt fyrirkomulag. Og í öðrum löndum þykir það svo illt, að þar er það alstaðar fullkomlega aðgreint. Þetta eru því engin rök, þó að það verði að láta þetta viðgangast hér á landi, að sýslumannsstarfið sé tvíþætt vegna sérstakra staðhátta. En í þessum efnum þarf ekki að fara þannig að.

Það væri annars nógu gaman, ef einhver er svo minnugur, að hann geti talið á fingrum sér, hvað búið er að stofna mörg ráð og nefndir á þessu þingi. (JJ: Það hafa líka verið lögð niður ýms störf). Ég kem að því síðar. En þetta væri ákaflega fróðlegt. Það hefir einhver sagt, að þessi bitlingastörf væru orðin á annað hundrað að tölu. Ég veit það ekki með vissu og þori ekki að fullyrða þetta, en þau eru mörg.

Hv. þm. sagði, að varðskipin hefðu verið eftirlitslaus og óreiða á stjórn þeirra. Nú er búið að setja þau undir skipaútgerð ríkisins, og það hélt ég, að hann áliti nægilegt, enda álít ég líka, að svo sé. En svo á líka að setja varðskipin undir eitt af þessum nýju ráðum, en það heyrir náttúrlega undir hlutaðeigandi ráðh. í stjórnarráðinu, og ráðh. undir þingið. Svo að varðskipin eru nú ekki orðin alveg stjórnlaus!

Þá var hv. þm. eitthvað að miklast af því, hversu mikil óhlutdrægni væri sýnd með þessu frv. við val manna í ráðin. En það er bara dálítið leiðinlegt, að hann og stj. skyldi ekki muna eftir 4. flokki þingsins. Ekki er nú sanngirnin meiri en það, að sá flokkur á ekki að koma að mönnum í ráðin; og þó eiga þau ekki að kosta mikið. (JJ: Máske kommúnistar eigi líka að komast þar inn?). Það á að sýna öllum þingflokkum fulla sanngirni í þessu efni.

Þá gerði hv. þm. mikið úr því, að það væri gott fyrir andstöðuflokka stj. að láta endurskoðendur frá sér vera með netið niðri í hverjum dalli hjá stj., svo að hann geti tilkynnt sínum flokki, hvað þar er að gerast. Ég er nú þannig gerður, að ég gef ekkert fyrir þetta og vil ekkert með það hafa. Ég vil, að hver stj. beri fulla ábyrgð á sínum framkvæmdum gagnvart þinginu, og vil ekki hafa neina spíóna á hennar vegum, sem svo er ætlað að bera út um borg og bý, meira eða minna afbakað og orðum aukið, það sem þeir kunna að komast á snoðir um.

Ég álít, að það sé ekki gott t. d. fyrir stofnun eins og landssmiðjuna að vera undirgefin þriggja manna ráði, sem e. t. v. telur það sína pólitísku skyldu að snuðra um verkefni hennar og rekstur og flytja öðrum fregnir af því, en ganga máske framhjá stærri atriðum, sem meira er um vert, og nenna ekki að leggja vinnu í að setja sig inn í það, sem er flóknara og vandasamara og veldur máske mestu um rekstrarafkomu stofnunarinnar. Það er þetta, sem ég óttast að verði afleiðingin, að þessir eftirlitsmenn snuðri aðeins eftir hinum snöggu pólitísku blettum á opinberum stofnunum.

Hv. þm. sagði, að það ætti að afnema núv. stjórnir landssmiðjunnar, ríkisprentsmiðjunnar og viðtækjaverzlunarinnar. Ég man ekki, hverjir eru í þessum nefndum, en ég tel þetta gott og blessað og álít, að það hefði átt að afnema þær án þess að nokkuð kæmi í staðinn. Ég er viss um, að landssmiðjan hefir ekkert gagn af slíkri yfirumsjón, og forstjórinn í Gutenberg getur áreiðanlega verið einn um stjórn þar og þarf ekki á þessum meðráðamönnum að halda. Annars er mér mikil ánægja að benda á það, að hann leysir sitt starf prýðilega af hendi, og þó að einhver pólitískur eftirlitsmaður væri sendur þangað upp eftir, þá á hann ekkert erindi þangað nema sem spíón. — En kostnaðurinn við þessi ráð hlýtur að verða töluverður, og hver nefnd getur ráðið miklu um það, hve mikið hún leggur í kostnað.

Þá minntist hv. þm. á yfirstjórn spítalanna, sem skipuð var samkv. lögum frá síðasta þingi. Ég átti engan þátt í þeirri nefndarskipun; það mun vera eftir till. landlæknis. Ég hefi alltaf litið svo á, að þessar nefndir eða ráð væru flest óþörf. En ég get náttúrlega skilið, að því er öðruvísi varið um hv. þm. S.-Þ. sem er þessi dæmalausi ráðamaður og vill hafa sæg af ráðum og nefndum yfir öllum stofnunum, sem ég hefi nú sýnt fram á, að hafa annaðhvort enga þýðingu eða leiða ekki til góðs fyrir stofnanirnar.

Það er náttúrlega rétt, að þessum ríkisfyrirtækjum fjölgar árlega, og til mikilla muna nú á þessu þingi. Mætti máske réttlæta þessar nefndarskipanir með því að sýna fram á, að hlutaðeigandi ráðh. komist ekki yfir að hafa eftirlit með starfsemi þessara stofnana. En ég álít, að þá sé miklu heppilegra að bæta við ráðh. til þeirra starfa, því að hann ber þó ábyrgð á þeim, en nefndirnar eru algerlega ábyrgðarlausar. Hver nm. gerir ekkert annað en að mæta þar í umboði síns stjórnmálaflokks, og ég held, að það leiði ekki til annars en ills eins.