22.11.1934
Efri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2602 í B-deild Alþingistíðinda. (3501)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég get sagt eins og hæstv. forsrh., að það er ekki margt nýtt, sem hefir komið fram í þessu máli. Það stendur orð á móti orði, og má segja, að komið sé út í nokkurskonar karp.

Ég skildi ekki, hvað hæstv. ráðh. átti við, þegar hann var að tala um, að menn kæmust yfir lögaldur sakamanna og að þeir væru í meðvitund fólksins orðnir börn aftur. En ég verð að segja það, að ég þekki alls ekki þetta almenningsálit. Ég veit til þess, að mönnum þykir það öllu raunalegra og leiðinlegra, ef aldraður maður lendir í einhverri óreiðu með sitt starf heldur en þó að slíkt hendi yngri menn. En hér er ekki um það að ræða, hvort menn geti rækt starf sitt eins vel, þegar þeir eru orðnir háaldraðir, eins og áður. Okkur kemur öllum saman um, að menn hafi ekki eins góð skilyrði til þess þá eins og þegar þeir eru á bezta aldri. Ég tel bara, að allfreklega sé í sakirnar farið með því að hafa þetta 65 ára takmark. Það eru alveg eins margir, sem eru 65 ára, svo heilsugóðir, að þeir geta vel gegnt starfi sínu nokkuð lengi eftir það.

Mér finnst heimskulegt að halda því fram, að það sé sama, hvort í 1. er mælt svo fyrir, að menn skuli vera leystir frá embættum þegar þeir eru 65 ára, og að ef þeir eigi að fá að sitja lengur í þeim, þá þurfi sérstaka heimild til þess, eða hvort aðeins er til heimild fyrir því að láta embættismenn fara frá embætti, þegar þeir hafi náð þeim aldri, en að ekki séu samþ. l. um, að þeir að öðrum kosti skuli láta af embætti. þessu er geysimikill munur. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að svo að lesa fyrstu mgr. frv., og hún hljóðar svo:

„Hver sá opinber embættis- eða starfsmaður í þjónustu ríkis, bæjar- eða sveitarfélaga eða stofnana, sem þau ráða yfir eða eiga, hvort sem hann er skipaður af konungi eða ráðherra eða öðrum löglegum aðila, eða þó hann sé fastráðinn, skal leystur frá embætti sínu eða starfi sínu af sama aðila, er veitti honum það eða réði hann til þess, þegar hann er orðinn fullra 65 ára,“

Ákvæði frv. um þetta eru svo skýr og skýlaus sem mest má vera til þess að allir hljóti að sjá, að ráðh. er algerlega vítalaus, þó að hann láti alla starfsmenn ríkisins og allra bæjarfélaga landsins fara frá starfi sínu fyrir fullt og allt, þegar þeir hafi náð þessum aldri. Hitt kemur svo á eftir, að ráðh. getur látið þessa embættismenn halda áfram starfi til 70 ára aldurs, þó þannig, að á því árabili getu ráðh. hvenær sem er látið þá fara. Ráðh., sem ekki er allt of viðkvæmur fyrir orðalagi l., getur látið þá alla fara. En ef orðalag frv. hefði verið þannig, að ráðh. mætti láta þá fara, þ. e. að hann hefði heimild til þess að láta þá fara á þessum aldri, þá þyrfti hann að hafa einhverja ástæðu til þess, einhverja sérstaka ástæðu, sem embættismaðurinn sjálfur gæfi tilefni til. (Forsrh.: Vill hv. þm. ganga inn á, að þetta verði ákveðið þannig?). Ég vil árétta það, að ráðh. hefir, samkv. frv., vald til að láta embættismenn fara frá starfi sínu hvenær sem er á þessu árabili. (Forsrh.: Ráðh. hefir vald til þess hvort sem er). Samkv. frv. er það á valdi ráðh. að gera það að reglu, sem á að vera undantekning.

Hæstv. ráðh. sagði, að embættismenn eigi ekkert frekar undir högg að sækja eftir þessu frv., ef að l. verður, heldur en nú. En munurinn er þó sá, að nú er það svo, að ef ráðh. ætlar ekki að beita ofbeldi, þá verður hann að hafa einhverjar sakir á hendur embættismönnum til þess að geta staðizt við að láta þá fara frá embætti, en ef frv. verður að 1., þá verður ráðh. að færa fram ástæður fyrir því, að hann láti þá vera kyrra í embættum eftir 65 ára aldur.

Þó að þetta frv. verði samþ., skal ég ekki deila um, hvort núv. stj. misbeitir þeim l. Manni verður bara á að halda, að það geti kannske komið fyrir, ef litið er á hina pólitísku sögu undanfarinna ára, því að þannig skipti um, þegar framsóknarstj. tók við, að við embættaveitingu var af þeirri stj. ekkert spurt um verðleika manna eða starfhæfni, heldur aðeins farið eftir því, hve fylgispakir menn voru við stj.; ég held, að ég sé eina undantekningin frá þeirri meginreglu. En mín embættisveiting var svo torsótt, að ég varð að bíða langan tíma eftir því, að það mál væri afgert, sem ekki þurfti þó nema eitt pennastrik til. Þá stóð fast með veitingu á röð af embættum, vegna þess að það embætti var ekki veitt svo lengi, sem mér var loks veitt. Var það embætti þess manns, sem tók mitt embætti, og þess, sem tók hans embætti. Þegar sá ráðh., sem átti að veita þetta embætti, sem ég fékk, var í siglingu, greip annar inn í, leysti þennan hnút og veitti mér embættið. Ætlar svo hv. núv. dómsmrh. að fara að halda því fram, að þarna hafi ekki kennt hlutdrægni hjá hv. fyrrv. fyrrv. fyrrv. dómsmrh.?

Fleira og fleira mætti telja svipað þessu, hvað hlutdrægni fyrrv. framsóknarstj. snertir um embættaveitingar, og væri nógu fróðlegt að athuga tölu þeirra manna, sem fyrir þeirri hlutdrægni hafa orðið.

Hæstv. núv. stj. hefir ekki enn sýnt mikla hlutdrægni í þessu efni, og vona ég og óska þess, að hún hagi sér betur í þessu efni heldur en fyrrv. framsóknarstj. En ef þessi hv. stj., sem nú situr, færi að dæmi hv. fyrrv. dómsmrh., hv. þm. S.-Þ., þá er ég ekki í vafa um, að hún sópaði burt úr embættum mörgum opinberum starfsmönnum, til þess svo að veita embættin aftur sínum flokksmönnum. Það má bera hv. þm. S.-Þ. þetta frá mér. Í hans stjórnartíð var beinlínis sett löggjöf til þess að losa embætti í þessu skyni.

Ég er kannske nokkuð kominn út í aukaatriði. En eitt af aðalatriðum þessa máls er, hve kostnaðarsamt það mundi verða fyrir ríkið að samþ. þetta frv. Ég tel betra að setja það aldurshámark, sem nú er í frv. miðað við 65 ára aldur, upp í 70 ára aldur, eða þá 69 eða 68 ára aldur, með því að svo megi framlengja embættisþjónustuna um eitt eða tvö ár. En ákvæði frv. um þetta efni tel ég óhafandi.