22.11.1934
Efri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2605 í B-deild Alþingistíðinda. (3503)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég sé ekki ástæðu til að fara að lengja mjög umr. um þetta mál, en vil þó benda á það, að ég hefði gaman af því, þó að það sé ekki hægt nú, að taldir yrðu upp þeir embættismenn, sem ekki eru sjálfstæðismenn og hefir verið veitt embætti á meðan Sjálfstfl. var við völd. Annars skal ég ekki deila um það. En ég minntist aðeins á þetta vegna þess, að því var beint til stj., að hún mundi misbeita ákvæðum frv. þessa, ef að l. verður.

Það hefir verið deilt um það, hvaða rétt samkv. núgildandi löggjöf embættismenn hafa gagnvart ríkisvaldinu, og sagt hefir verið, að óþarft sé að samþ. ákvæði þessa frv. um aldurshámark embættismanna, ef það sé rétt, sem ég hefi bent á, að ráðh. hafi heimild til þess að víkja þessum mönnum frá starfi. Í grg. frv. er bent á það, að sú stj., sem nú situr, muni fara eftir þeim reglum, sem frv. ákveður, og það þó að ekki væru til h um það. Stj. getur fyrirskipað reglur um slíkt með auglýsingu. En þó að þessi stj. sé fastráðin í að fara eftir þeim reglum, að miða við 65 ára aldurshámark, þá álít ég rétt að binda þetta í l., svo að það verði ekki komið undir geðþótta stj. fyrr og síðar, hvernig reglur um slíkt verði hafðar. Hver stj. getur með auglýsingu ákveðið það, sem í frv. er gerð till. um, að lögfest verði, ef ekki eru til l. um slíkt. Þetta er meira að segja hægt að gera á morgun. Séu ekki til l. um þetta og fari stj. að auglýsa reglur um þetta, þá er það undir hælinn lagt, hvort næsta stj. ákveður ekki þetta aldurshámark jafnvel ekki hærra en 60 ár.

En það er ein vörn, sem embættismenn alltaf hafa gagnvart því, að ríkisvaldið fremji það ranglæti að víkja mönnum frá embættum, sem starfað hafa vel, og hún er sú, að við það tapar ráðh. Þetta er sú vernd, sem embættismenn hafa í þessu efni.

Um það hefir verið talað, sérstaklega af hv. 1. þm. Reykv., að eðlilegra væri að setja það í l., að ráðh. hafi aðeins heimild til að leysa menn frá embættum sínum eftir að þeir eru orðnir 65 ára, og að 70 ára sé þeim skylt að láta af embætti, í stað þess, sem í frv. er gert ráð fyrir, að embættismenn skuli fara frá embættum sínum, er þeir hafa náð 65 ára aldri, en að ráðh. sé heimilt að láta þá halda embætti, með því að ákveða það sérstaklega, allt til 70 ára aldurs.

Mér er það nú ekki meira áhugamál, að þetta orðalag sé haft á frv., sem hv. 1. þm. Reykv. leggur svo illa út og gefur í skyn að sé haft svona í þeim tilgangi að losa sem flest embætti handa fylgismönnum stj., að ég get fallizt á, að orðalag þess sé haft þannig, að sérstaka ákvörðun ráðh. þurfi til þess að embættismaður verði leystur frá embætti á aldrinum 65—70 ára. Ég get ekki fært fram betri sannanir en þessa fyrir því, að ekkert býr undir því, að það orðalag er haft á frv., sem nú er.

Fleira var það ekki, sem ég þurfti að færa fram um þetta efni, nema viðvíkjandi því, að deilt hefir verið um það, hvort embættismenn eigi lífeyrissjóðina. Ef þeir fara frá embættum án þess að það sé vegna heilsubrests eða þessháttar, þá fá þeir ekkert úr sjóðunum aftur. Þess vegna er það álitamál, hvort embættismenn eigi lífeyrissjóðina.

Ég óska þess, að sú n., sem fær málið til meðferðar, athugi það rækilega og að málið verði afgr. sem allra fyrst.