08.12.1934
Efri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2610 í B-deild Alþingistíðinda. (3516)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég gat því miður ekki verið viðstaddur til þess að hlusta á nema lítinn hluta af ræðu hv. 1. þm. Reykv., en þeim ummælum, sem féllu hjá 1. þm. Skagf. um það, að frv. væri ósanngjarnt, illa undirbúið og því um líkt, án þess að það væri rökstutt hið allra minnsta, sér maður ekki ástæðu til þess að svara. Þannig ummælum, sem sprottin eru af einskonar geðvonzku, leggur maður ekki mikið upp úr, og sérstaklega legg ég ekki mikið upp úr ummælum um sanngirni og réttlæti úr þeim munni, því að ég býst við, að ég leggi annan mælikvarða á slíkt heldur en hann.

En um það, að það sé leiðinlegt orðalag að kalla suma af embættismönnum ríkisins „minni háttar embættismenn“, þá er það nú gert í hegningarl., eins og hv. dm. mun kunnugt. En þau l. eru yfirleitt mjög vel samin, og þess vegna ekki óeðlilegt, að það sé samræmt við þau, þegar skilgreint er, hvað átt er við með því orði.

Annars er á leiðinni brtt. frá hv. 1. þm. Eyf., sem ég get alveg fellt mig við. Það, sem svo hv. 1. þm. Skagf. sagði um málið að öðru leyti, eru atriði, sem ekki eru svaraverð.

En viðvíkjandi þeim orðum, sem féllu hjá 1. þm. Reykv., vil ég taka það fram, að það er alveg rétt, að ég minntist á það, þegar þetta frv. kom fram í d., að hún athugaði það. Ég veit ekki betur en að þetta frv. hafi verið athugað sérstaklega af allshn. þessarar d., og að meiri hl. hennar hafi leitað eftir samvinnu við minni hl. n. um frv. og reynt að koma á samkomulagi um þetta mál, sem báðir aðilar teldu viðunanlegt. Ég lýsti yfir því við l. umr. málsins, að ég væri fús til þess að ræða skynsamlegar brtt., sem kæmu fram undir meðferð málsins. Málið hefir nú verið lengi á döfinni hér í þessari d., en það hefir ekki verið óskað eftir þeirri samvinnu, sem ég bauð upp á, og nú er bezt, að málið gangi sinn gang. Að mínu áliti er frv. þannig úr garði gert að öllu leyti, að bezt sé að samþ. það óbreytt eins og það er. Ég tel, að embættismönnunum sé sýnd alveg nægileg sanngirni í frv. Þeir eru komnir á þann aldur, að þeir eiga að vera búnir að vinna sér inn eftirlaun og hafa þau nokkur. Ég álít, að embættismannastéttinni — þó að ég sé embættismaður, og ætti ef til vill út frá því sjónarmiði að taka málstað þeirrar stéttar — sé gert eins hátt undir höfði í þessum efnum eins og öðrum stéttum þjóðfélagsins, og ég álít, að betur sé gert við þá stétt en aðrar. Samt sem áður var ég fús til þess að reyna að koma þessu máli fram með því að sýna till. allra flokka sanngirni og slá af ýmsu, þó að frv. yrði þá að mínu áliti ekki eins gott og upphaflega. Það er alltaf svo um hvert mál, þegar menn mætast til samkomulags, að þá verður annar að gefa eitt eftir fyrir annað, sem hann telur aðalatriðið að komist fram. Aðalatriðið í þessu frv. er það, að ekki séu menn í embættum hjá ríkinu til stórtjóns fyrir þjóðfélagið, menn, sem á efri árum lenda í misfellum með störf sín og kosta þjóðfélagið og ættingja sína fleiri tugi þús. Það er oft og einatt til stórkostlegs tjón að hafa þessa menn, sem hér um ræðir, í embættum. Það erum við búnir að margreyna, sem þurfum að leita til ýmissa embættismanna, sem eru orðnir hrumir.

Hitt er líka stórt atriði í þessu máli, að geta tekið starfskrafta ungu kynslóðarinnar inn í störf þjóðfélagsins, og ala ekki upp „próletara“ af embættismannaefnum, sem ekki koma til starfa fyrr en þeir eru orðnir miðaldra menn. Þetta eru aðalatriði frv. Smærri atriði þess mátti alltaf koma sér saman um, því að þau hafa ekki eins mikið að segja eins og sú meginregla, sem liggur hér til grundvallar. En það hefðu menn sérstaklega átt að gera fyrr, því að ég hefi ætlazt til þess, að þetta frv. gengi fram á þessu þingi, og nú er orðinn nokkuð stuttur tími til þess að koma því gegnum Nd.