19.12.1934
Sameinað þing: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

1. mál, fjárlög 1935

Thor Thors:

Ég á hér nokkrar brtt. á þskj. 815 og vil fara um þær nokkrum orðum, svo að þingheimi verði ljóst, hver nauðsyn er á því, að þær nái fram að ganga. Ég er þess fullviss, að hv. stjórnarliðar, sem hafa líf þeirra f hendi sér, fallast á rök mín, er þeir hafa heyrt mál mitt, og sjá, að full ástæða er til að veita fé úr ríkissjóði samkv. brtt. mínum.

Fyrsta brtt. er við 13. gr. fjárlfrv., um vegamál. Það hefir nú áður verið sýnt fram á, að Snæfellsnessýsla hafi orðið útundan um framlög úr ríkissjóði til vegamála. Þannig minnist ég þess, að fyrir nokkru, er hv. núv. þm. S.-Þ. sótti alla framboðsfundi í sýslunni, hélt hann því fast fram, að kjördæmið hefði verið svo mjög vanrækt í þessum efnum, að vegir þar hefðu aðeins lengzt um 13 km. á 13 árum. Þetta eru nú að vísu rangfærslur, eins og flest úr þeirri átt, en hitt er þó ómótmælanleg staðreynd, að Snæfellsnessýsla hefir orðið hart úti í þessum efnum í samanburði við flest önnur héruð, einkum ef miðað er við íbúatölu og það, sem hún hefir látið af mörkum í ríkissjóð.

Frá 1873 til 1930 hefir Snæfellsnessýsla fengið 420 þús. kr. til vegamála. Íbúar þar eru nú 3536. En á sama tíma hefir Mýrasýsla með 1764 íbúa fengið 1380 þús. í sama skyni. Mýrasýsla hefir því fengið allt að einni millj. kr. meira en hin sýslan. Og sé tekin Norður-Múlasýsla, hefir hún á sama tíma fengið 570 þús., þótt íbúar séu þar ekki nema 2766. Suður-Múlasýsla hefir á sama tíma fengið 575 þús. Ég get þessa, af því að talað hefir verið um, að Austfirðir hafi til þessa farið varhluta af vegafénu.

Ef nú hefði átt að jafna hlut kjördæmanna, hefðu stjórnarflokkarnir átt að sjá um, að Snæfellsnessýslan fengi ríflegan skerf af vegafénu. En reyndin hefir nú orðið önnur. Vegamálastjóri ætlaði 19 þús. kr. til vegagerða í Snæfellsnessýslu, en hæstv. fjmrh. færði þessa upphæð niður í 5 þús. kr. á fjárlfrv. Nú hefir framlagið verið hækkað upp í 10 þús. kr. En Suður-Múlasýsla, kjördæmi hæstv. fjmrh., sem átti samkv. till. vegamálastjóra að fá 5 þús. kr., á nú eftir frv. að fá 35 þús. kr. Ef Snæfellsnessýsla hefði borið úr býtum réttan skerf af vegafénu síðan fjárveitingavaldið komst í hendur Alþingis, hefði hún átt að fá 775 þús. kr., en ekki 420 þús.

Það má nú vel vera, að svo skýrar tölur sem þessar hafi lítil áhrif á hv. stjórnarliða. En ég vil þá til viðbótar benda þeim á það, að menn, sem eru í miklum metum hjá þeim, og þá einkum sjálfur hæstv. forseti Sþ., hafa borið fram till., sem ganga mjög í sömu átt og mínar og sýna, að honum hefir verið ljóst ranglæti það, sem þetta kjördæmi hefir verið beitt í úthlutun vegafjárins og ákvörðun þjóðvega undanfarið. Hæstv. forseti hefir þannig verið flm.till. um að taka fjóra langa vegakafla í Snæfellsnessýslu í þjóðvegatölu. Þetta sýnir glögglega, hve vegagerð er skammt komin áleiðis þarna og hve mikil nauðsyn er á umbótum þar.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta almennt, heldur skal ég snúa mér að þeim einstökum brtt., er ég flyt til þess að rétta hlut íbúanna í þessari sýslu. Fyrsta brtt. mín er við 13. gr. A. II.a.4, um að veita til Stykkishólmsvegar í stað 5000 kr. 15000 kr. Vegamálastjóri hafði í till. sínum lagt til, að þessari upphæð, 15000 kr., yrði varið til þess vegar á næsta ári, en hæstv. ríkisstj. fann ástæðu til að skera þessa fjárveitingu niður í 5000 kr. En fáist ekki leiðrétting á þessu, og verði þessi lága fjárveiting látin duga, þá hefir það nánast þá þýðingu, að ekki tekur því að byrja á þessu verki. Þetta smámunalega framlag er svo langt frá allri sanngirni, að ekki nær nokkurri átt. Út af þessu máli hefir hreppsnefnd Stykkishólmshrepps sent Alþingi erindi, sem ég vil leyfa mér að lesa, þar sem þetta mál er skýrt til hlítar af kunnugustu mönnum. Erindið er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundi hreppsnefndar Stykkishólmshrepps, sem haldinn var hinn 17. október s. l., var samþ. eftirfarandi fundarályktun:

„Þar sem hreppsnefndinni er kunnugt um, að í fjárlfrv. því, er lagt hefir verið fyrir Alþingi það, er nú situr, er aðeins gert ráð fyrir 5000 kr. framlagi úr ríkissjóði árið 1935 til framhalds þjóðveginum yfir Kerlingarskarð (Stykkishólmsbraut), skorar hún á þingið að samþykkja a. m. k. 25000 kr. fjárveitingu til framhalds vegar þessa á árinu 1935. Vill nefndin í því sambandi benda á, að á næsta sumri verður byrjað á að leggja veginn yfir Gæshólamýri á Kerlingarskarði, og kemur sú vegalagning eigi að notum sem samgöngubót, nema veginum sé komið í gegnum mýrina inn á Sanda, en til þess mun þurfa þá fjárupphæð, er vér áður nefndum. Loks vill nefndin benda á, að bygging Stykkishólmsbrautar frá Borgarnesi til Stykkishólms, sem eigi er nema 100 kílóm. að lengd, hefir staðið yfir frá síðustu aldamótum, og hefir því legalagningu þessari miðað mjög hægt áfram, borið saman við lagningu annara þjóðvega á landinu, þar sem enn eru ólagðir 15—20 km. af brautinni“.

Hreppsnefndin væntir þess fastlega, að hið háa Alþ. taki þessa kröfu til greina og veiti hina umbeðnu upphæð, kr. 25000, til vegarins.

Stykkishólmi, 18. október 1934.

F. h. hreppsnefndar Stykkishólmshrepps. Kristján Bjartmars, oddviti.“

Á bak við þessa áskorun stendur öll hreppsnefnd Stykkishólmshrepps, og í henni eiga sæti sjálfstæðismenn, framsóknarmenn og jafnaðarmenn, og þeir eru allir sammála um það, að rík nauðsyn sé til þess að auka tillag til þessa að verulegum mun frá því, sem stendur í fjárlfrv. Ég hefi ekki séð mér fært að taka þessa upphæð, 25000 kr., upp í till. minni, heldur gæti þess hófs, til þess að frekar megi vænta árangurs, að fara ekki hærra en 15000 kr., eins og upphaflega var lagt til af vegamálastjóra. Þegar þess er gætt, hve lengi þessi vegalagning hefir staðið yfir og hversu fjölmenn héruð hér eiga hlut að máli, virðast allar ástæður mæla með því, að einmitt þessi vegagerð verði tekin rækilega fyrir á næsta ári.

Í Stykkishólmi eru yfir 600 íbúar, en auk þeirra njóta allir íbúar Helgafellssveitar stórkostlegs hagræðis af þessum vegi, og ennfremur í sambandi við bátaferðir frá Skógarströnd einnig íbúar þess hrepps. Þessi leið hefir einnig verið fjölfarin ferðamannaleið undanfarið, og er alveg víst, að ef hún yrði bætt, mundu fólksflutningar aukast þar stórmikið. Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þennan lið, mér finnst hann svo sjálfsagður, að ég leyfi mér að vænta þess, að hv. þm. líti svo sanngjarnlega á þetta mál, að þeir samþ. þessa litlu fjárveitingu.

2. brtt. mín er um það, að nýr liður komi eftir þessum lið, til Staðarsveitarvegar, 4000 kr. Þessi till. er einnig í samræmi við álit vegamálastjóra. Hafði hann lagt til, að veittar yrðu 4000 kr. til þessa vegar, og þar með yrði Ólafsvíkurkauptún betur tengt við vegakerfi landsins. Það eru nokkrir kaflar á þessari leið um Staðarsveitina, sem verða gersamlega ófærir yfir veturinn eins og nú er ástatt. Vegna þessara kafla slitnar allt bílasamband milli Ólafsvíkur og Staðarsveitar og annara héraða, a. m. k. að vetrarlagi. Til þess að bæta úr þessum ófærum þarf ekki meira en 4000 kr., og þegar þess er gætt, hve mörgum þessi litla fjárhæð kemur að liði, að því er snertir samgöngubætur fyrir hlutaðeigendur, þá verð ég að vænta, að hv. þm. fallist á að veita þetta framlag.

Þá er þriðja brtt. mín um vegamál einnig við 13. gr., til Hellusandsvegar, 15000 kr. Sá vegur var tekinn í þjóðvegatölu 1931. Mun hafa verið fallizt á það á því þingi, að það væri óverjandi, að jafnstórt kauptún og Hellusandur, sem hefir yfir 600 íbúa, væri gersamlega sambandslaust við vegakerfi landsins. Það hefir verið gerð áætlun um þennan veg. Hann er 10,6 km. að lengd, og er ráðgert, að hann muni kosta 37000 kr. Það tillag, sem ég fer fram á til þessa vegar að þessu sinni, er 15000 kr., því ég tel það fyllilega upplýst, að þessi fjárhæð nægi til þess að leggja veg yfir verstu torfærurnar, þannig að koma mætti á nokkru bílasambandi við þennan stað fyrir þessa upphæð. En þar sem mér er ljóst, að fjárhagur ríkissjóðs er erfiður eins og nú er ástatt, þá hefi ég, ef samkomulag gæti orðið um að einhverjar aðgerðir skuli þarna byrja, til vara farið fram á 7500 kr. fjárveitingu. Ég tel, að með því sé gengið svo langt til samkomulags, ef það á annað borð á að vera stefna stjórnarflokkanna, svo sem hv. frsm. fyrri kafla fjárl., 6. landsk., sagði og aðrir hv. þm. þessara flokka hafa talið sjálfsagt, að vegafénu ætti sérstaklega að verja þangað, sem flestir hefðu not af því, þá hljóti þessir flokkar að fallast á þetta litla fjárframlag. Ég þekki ekkert dæmi þess, að svo fjölmennt kauptún sé svo gersamlega slitið úr öllu sambandi við vegakerfi landsins sem Hellusandur, sem einnig sakir staðhátta skortir samband við nærsveitirnar. Ég hefi ástæðu til að vænta þess, að till. um að koma þessu kauptúni í vegasamband fái góðar undirtektir frá ýmsum stjórnarliðum, því menn úr þeirra hópi hafa flutt till. um tvo nýja vegi á þessum hluta Snæfellsness, sem gætu komið á enn betra vegasambandi þar heldur en sá vegarspotti, sem hér um ræðir, getur gert. Ég dreg það því ekki í efa, að flm. þessa frv., hæstv. forseti Sþ. og hv. form. fjvn., muni greiða atkv. með þessari fjárveitingu, því ég skal ekki að óreyndu staðhæfa það, að frv. um þessa vegi hafi þeir ekki flutt í fyllstu alvöru. Þess vegna dreg ég það ekki í efa, að þeir samþ. þetta bráðabirgðaframlag, sem till. mín gerir ráð fyrir.

Þá hefi ég ekki fleiri brtt. í sambandi við vegamál, en á þskj. 815,XV á ég eina brtt. um hafnarmannvirki í þessu kjördæmi. Hin fyrsta brtt. er við 13. gr. C.VIII. í fjárlfrv., þess efnis að bæta inn nýjum lið til hafnargerðar í Ólafsvík, 20000 kr. Það er svo, að hafnargerð í Ólafsvík er ákveðin með l. nr. 60 frá 28. nóv. 1919. Þar er ákveðið fjárframlag úr ríkissjóði til þessarar hafnargerðar og ríkisstj. heimilað að taka ábyrgð á láni, sem hreppsnefnd Ólafsvíkurhrepps kann að taka til hafnargerðarinnar á hverjum tíma. Að sjálfsögðu ætlast ég til þess, ef brtt. mín verður samþ., að skilyrði l. um hafnargerð í Ólafsvík verði uppfyllt að öðru leyti, þ. e. a. s., að hreppsnefnd Ólafsvíkurhrepps leggi fram tvöfalt fé, eða í þessu tilfelli 40000 kr.

Það er búið í mörg ár að vinna að þessari hafnargerð, en þetta gengur svo seint, að enn er þessu verki ekki það langt á veg komið, að það verði hreppsbúum að verulegum notum. Meðan svo er, má nánast segja, að þessar umbætur séu enn sem komið er byrði á hreppsfélaginu, en verði ríflegt fé veitt til þessa mannvirkis á næsta ári, er það tryggt, að það verður bæði útgerðarmönnum og sjómönnum í kauptúninu til mikils hagræðis. Hinsvegar er mikil hætta á því, ef ríkissjóður lætur hjá líða að styrkja þetta nauðsynjamál á næstu árum, að það leiði til þess, að margir útgerðarmenn í kauptúninu neyðist til að gefast upp við sína útgerð, sakir hinnar erfiðu aðstöðu vegna hafnleysisins, sem þar er enn. Slíkt er auðvitað hið mesta tjón, ekki aðeins fyrir íbúa kauptúnsins, heldur einnig fyrir þjóðina, því það verður erfitt að finna skilyrði fyrir þetta fólk, sem þarna býr, til viðunandi lífsafkomu á öðrum stöðum á landinu, ef þeir hrekjast þaðan burt atvinnu- og eignalausir fyrir vanrækslu ríkisvaldsins. Væri slík niðurstaða hið mesta óvit, þegar á það er litið, hve miklu fé búið er að verja í hafnargerð þarna, en það mun vera, með því fjármagni, sem notað var þar á þessu ári — en það var 21000 kr. — samtals l07414,28 kr. Það, sem ógert er af þessu verki, mun samkv. áætlun vitamálastjóra nema samtals 90 til 100 þús. kr., en þá er miðað við það, að eigi sé aðeins lokið ytri skjólgarðinum, sem aðallega hefir verið unnið að undanfarið, heldur einnig innri garðinum, þannig, að höfnin yrði fullkomin fyrir þá báta, sem gerðir eru út í þessu kauptúni. Það er því minna, sem til þess þarf að fullgera höfnina, heldur en það, sem búið er að verja til hennar, og sjá allir hv. þm., sem nokkra ábyrgðartilfinningu hafa og vilja líta óhlutdrægt á þetta mál, að það er gersamlega óverjandi að láta jafnmikil verðmæti, yfir 107 þús. kr., verða að engum notum meðan höfnin er ekki lengra komin. Þrátt fyrir þetta ástand hefir verið nokkur útgerð þarna undanfarin ár, sem ráða má af því, að árið 1932 voru gerðir þarna út 9 bátar undir 12 smál. að stærð og nokkrir stærri bátar. Og aflinn á þessum bátum var samtals yfir 400 smál. Það er öldungis víst, að ef höfnin í Ólafsvík kæmist í gott horf, þá mundi útgerð aukast þar talsvert, því aðstaðan er sú, að mjög skammt er þaðan á einhver fiskisælustu mið hér við land, og má ennfremur benda á, að á þessum miðum aflast sérstaklega mikið af verðmætustu tegundum fiskjar. Ég þykist nú hafa sýnt fram á það, hversu mikið nauðsynjamál þessar hafnarbætur eru fyrir alla sjómenn- og útgerðarmenn innan kauptúnsins. Og ég þykist ennfremur hafa sannað, hversu eðlilegt og nauðsynlegt sé að halda þessu verki áfram, sem þegar er búið að verja til yfir 100 þús. kr. Það má ennfremur benda á, að þessi löggjöf um hafnargerð í Ólafsvík er frá árinu 1919, en önnur hafnarmannvirki hér á landi, sem talsvert eru yngri, eiga nú að fá úr ríkissjóði, eftir fjárlfrv. stj., rífleg tillög, eins og sjá má á þessum lið fjárl., sem er c-liður við 13. gr. VII. Þar á að leggja til hafnargerðar á Húsavík 25 þús. kr. og til hafnargerðar á Skagaströnd 18 þús. kr., og nú er í till. hv. meiri hl. fjvn. 10 þús. kr. framlag til hafnargerðar á Hornafirði, en lög um hafnargerð á Hornafirði hafa ekki verið sett fyrr en á þessu þingi. Af öllum þessum ástæðum verð ég að leyfa mér að vænta þess, að till. þessi verði samþ., en hana flyt ég hér eftir tilmælum frá sameiginlegum fundi hreppsnefndar og hafnarnefndar Ólafsvíkurhrepps, en í þessum n. eru menn úr öllum stjórnmálaflokkum, og er það sameiginlegt álit þeirra allra, að þetta sé hið mesta nauðsynjamál, hrein lífsnauðsyn fyrir kauptúnið, og ég hika ekki við að fullyrða það, að verði till. drepin, mun það valda mjög sárum vonbrigðum hjá flokksbræðrum hæstv. stj. í þessu kauptúni.

Þá á ég brtt. á þskj. 815, XVIII, sem sömuleiðis er við 13. gr. C.VIII, um bryggjugerðir og lendingarbætur. Hún er þess efnis, að framlag til þessa skuli hækka um 6500 kr., og sé þessu fé varið á þann hátt, að til bryggjugerðar í Krossavík á Hellissandi sé varið 5000 kr. og til bryggjugerðar á Arnarstapa 1500 kr. Ég skal svo leyfa mér að fara nokkrum orðum um þessar till. hvora fyrir sig.

Það er þá fyrst að geta um brtt. um bryggjugerð á Hellissandi. Sú bryggjugerð er mannvirki, sem lengi er búið að vera á döfinni, og mun hafa verið byrjað á því árið 1922, og er þegar, með því fjárframlagi, sem lagt var fram í ár — en það var 18400 kr. — búið að verja til þessa mannvirkis 76300 kr. Það hefir nú verið komið upp bryggju innan þessa hafnarvirkis, sem áður var komið þar upp, en sú bryggja er of stutt til þess að hún komi að fyllstu notum, þar sem aðeins er hægt fyrir báta að fljóta upp að henni um háflóð. En til þess að koma bryggjunni það langt út, að bátar geti einnig lent við hana þegar lágsjóað er, mun þurfa alls um 15 þús. kr., og hér er farið fram á, að ríkið leggi fram þann 1/3 hluta, sem það jafnan leggur fram til hafnar- og lendingarbóta. Enda þótt þetta sé fátækt hreppsfélag, sem hér á hlut að máli, er svo mikill og almennur áhugi fyrir framgangi þessa máls hjá sjómönnum á Hellissandi, að hreppsnefndin er reiðubúin til þess að taka 10 þús. kr. lán, sem þarf til þess að verkið geti orðið framkvæmt.

Það er mikil útgerð frá þessum stað. Árið 1932 voru gerðir út þaðan 19 bátar undir 12 smál. stærð, auk nokkurra annara báta. Og aflinn innan þessarar verstöðvar var það ár samtals um 600 smálestir. Þetta kauptún hefir einhverja þá allra æskilegustu aðstöðu til útgerðar, vegna þess hversu nærri það liggur einhverjum hinum ágætustu fiskimiðum hér við land. Það er í raun og veru ekkert, sem hefir takmarkað feng þessara báta, sem þaðan hafa verið gerðir út á undanförnum árum, eins mikið og hin erfiða aðstaða um löndun aflans. En nú er að nokkru ráðin bót á þessu með þeirri aðgerð, sem þar var framkvæmd síðastl. ár, en til þess að það komi að fullum notum vantar ennþá einn áfanga, og er farið fram á það með þessari brtt., að ríkisvaldið rétti þessu kauptúni þá hjálparhönd, sem nauðsynlegt er til þess að verkið verði framkvæmt til fullnustu. Það hafa borizt til þingsins mjög ákveðnar áskoranir frá hreppsnefnd þessa kauptúns, þ. e. a. s. Neshrepps utan Ennis, um þetta fjárframlag. Og ennfremur var haldinn fjölmennur borgarafundur, sem samþ. einróma áskorun til þingsins um að verða við þessum tilmælum.

Þá er hin brtt. mín við þennan lið þess efnis, að til lendingarbóta á Arnarstapa sé varið 1500 kr. Þar hefir nokkuð verið framkvæmt til lendingarbóta, eða samtals fyrir nær því 13 þús. kr. En kostnaðaráætlun yfir verkið í heild er samtals 17500 kr. Það er því eftir að leggja fram 4500 kr. til þess að þetta mannvirki komist í fullkomið horf. Hreppsnefnd sú, er hér á hlut að máli, þ. e. a. s. hreppsnefnd Breiðavíkurhrepps, er reiðubúin að leggja fram þær 3 þús. kr., sem koma í hlut hreppsins, til þess að verkið verði unnið fyrir þessar 4500 kr.

Það má segja það sama um þá aðstöðu, sem þarna er, eins og ég er búinn að segja bæði um Ólafsvík og Sand. Aðstaðan til útgerðar er þarna mjög góð. Þetta er fámennur hreppur, sem hefir verið mjög afskiptur um öll fjárframlög af hendi ríkisins, einkum og sér í lagi til vegamála. En þrátt fyrir það hefir talsverð útgerð verið frá Arnarstapa á undanförnum árum, miðað við fólksfjölda, enda er svo ástatt um marga bændur í þessum hreppi, að þeir leggja næstum því að jöfnu stund á sjávarútveg og landbúnað. Það er hreppsbúum mjög mikið ábugamál, að lendingarbótum á Arnarstapa verði lokið þegar á næsta ári, og þeir vænta þess, að Alþingi rétti þeim þá hjálparhönd í lífsbaráttu þeirra, sem felst í þessu litla fjárframlagi, sem hér er farið fram á.

Þá á ég loks eftir að minnast á eina brtt., sem ég hefi flutt, hún er einnig á þskj. 815, undir rómv. lið LXXII, og er við 22. gr. fjárlagafrv., XII-lið, um að þar komi nýr liður um að ábyrgjast fyrir hreppsnefnd Stykkishólmshrepps allt að 180 þús. króna lán til rafvirkjunar, gegn þeim tryggingum, sem stj. metur gildar. Ég flutti þessa till. einnig við 2. umr. og gerði þá í tveimur ræðum sérstaka grein fyrir henni. Sé ég því ekki ástæðu til þess við þessa umr. að fara mörgum orðum um þetta. Vil ég aðeins fara um hana örfáum orðum, ef hér skyldi vera einhver hv. þm. viðstaddur, sem ekki hlýddi á mál mitt þá, sem ekki er ósennilegt, þó að fáir séu nú, því að þeir voru ennþá færri þá.

Þetta er ekki aðeins nauðsyn vegna þess, að rafstöðin í Stykkishólmi er ekki aðeins ófullnægjandi fyrir hreppsbúa sjálfa, heldur einnig fyrst og fremst vegna þess, að nú er komið þar upp mjög stórt og fullkomið sjúkrahús, sem þarf mikið rafmagn til starfrækslu sinnar, og verði ekki ráðizt í þessa virkjun, er ekki annað fyrirsjáanlegt en að sjúkrahúsið geti ekki tekið til starfa.

Ég ætla að gera ofurlítið hlé á ræðu minni og beina til hæstv. forseta, af því að ég vil, að það komi fram í þingtíðindunum, hvort það sé sæmilegt að ræða fjárlög þegar frsm. stjórnarfl. að fyrri og síðari kafla fjárl. eru hvorugur viðstaddur, og þegar að því er ég hygg, enginn úr meiri hl. fjvn. er viðstaddur nema einn, og þegar hæstv. fjmrh. skýzt inn í þingsalinn á klukkustundarfresti. Ég vil spyrja hæstv. forseta, hvað hann áliti um þetta. (Forseti: Ég get ekki haldið mönnum inni). Ég hygg, að slíkt sem þetta sé alveg einsdæmi, en ég læt það engin áhrif á mig hafa.

Ég hefi við 2. umr. málsins bent á, hver nauðsyn er á þessu, af þeim tveimur ástæðum, er ég hefi drepið á, og ég vil benda á það, að hv. frsm. síðari kafla fjárl. fyrir hönd. hæstv. ríkisstj., form. fjvn., sem var viðstaddur á því augnabliki, er ég flutti ræðu mína þá, viðhafði þau orð, að hann gæti ekki mótmælt þeim rökum, er ég færði máli mínu til stuðnings. Og þegar svo er, að andstæðingar mínir geta ekki á neinn hátt mótmælt þeim rökum, er ég hefi teflt fram í þessu máli, verð ég að leyfa mér að ætlast til, að þeir samþ. þessa till.