08.12.1934
Efri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2620 í B-deild Alþingistíðinda. (3533)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Þetta er yfirgripsmikið mál, í senn stórt fjárhagsmál fyrir ríkissjóð og hagsmunamál margra einstaklinga, og því álít ég ekki rétt að hraða því um of. Það má segja, að gott sé, að það kom fram á þessu þingi, ef þessar breytingar á að gera á annað borð, svo að embættismennirnir viti, á hverju þeir eiga von, en ég tel óverjandi að afgr. það nú á þessu þingi.

Það er alveg augljóst, að frv. hlýtur að snerta mjög hag ríkissjóðs, því að ekki verður komizt hjá því, að ríkissjóður taki á sig mikla eftirlaunabyrði vegna þeirra embættismanna, sem láta eiga af starfi sínu samkv. frv., ef þeir eiga ekki hreint og beint að leita á náðir bæjar- og sveitarfélaga.

Það er auðsætt af hinum skrifl. brtt., að málið er svo yfirgripsmikið, að hv. þdm. eiga ekki gott með að átta sig á því, hvar takmörkin liggja. Þannig er dyravarðarstaða ekki talin til meiri háttar staða, þótt hún sé oftast aðalstarf. Brtt. hv. 1. þm. Eyf. nær ekki til þeirra, sem hafa stöðu sína að aðalstarfi. Þeir verða að fara frá 65 ára. Þá má og benda á þær veilur í flutningi frv., að ekki hefir verið leitað nægilegra upplýsinga um aldurshámark í öðrum löndum. En ég hefi ástæðu til að ætla, að það sé, a. m. k. sumstaðar, mun hærra en hér er gert ráð fyrir. Þannig var fyrir skömmu getið í fréttum um frægan og vinsælan enskan dómara, sem nýlega væri látinn af embætti 80 ára gamall.

Ég held, að fæst íslenzk embætti séu svo slítandi, að þau ættu að gera menn óhæfa til embættis síns á yngra aldri en annarsstaðar. Svo mikið er víst, að störf erlendra embættismanna eru mun víðtækari en hérlendra, og því ætti sízt að vera ástæða til að hafa aldurshámarkið lægra hér en annarsstaðar. Sjálfur þekki ég mikinn fjölda embættismanna á aldrinum frá 65—70 ára. Mér er alveg óhætt að fullyrða, að meiri hl. þessara manna er hæfari til að gegna embætti sínu en yngri menn og síður brestir í embættisfærslu þeirra. Þeir eru reglusamari en hinir yngri menn, bæði við störf sín og utan þeirra. Ég ber því fram brtt. þess efnis, að í stað 65 ára komi 68 ár.

Annars vil ég taka undir það með hv. 2. þm. Rang., að vel færi á að afgr. þetta mál í sambandi við launalögin. Þetta mál er lítt undirbúið, sem von er, svo mörg mál og stór sem stj. hefir flutt á skömmum tíma, enda ber frágangur margra frv. þess merki. Það er t. d. alveg ótækt, að ekki skuli liggja neitt fyrir um það, hvað lögfesting þessa frv., sem hér liggur fyrir, muni kosta ríkissjóð, né hve marga starfsmenn hins opinbera frv. snertir. Ég er þess fullviss, að ef slík skrá lægi fyrir, væri hægt að sýna fram á það, að fjöldinn allur af þessum mönnum er fullfær um að gegna embætti sinu og eru hinir ágætustu starfsmenn hins opinbera.

Ég álít því, að hæstv. dómsmrh. geti og eigi að láta þetta mál bíða til næsta þings og láta þangað til fara fram frekari undirbúning málsins með hliðsjón af till. launamálanefndar. Ég vil því bera fram rökst. dagskrá um þetta efni, og afhendi hæstv. forseta hana hér með.