08.12.1934
Efri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2622 í B-deild Alþingistíðinda. (3537)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Magnús Guðmundsson:

Ég heyri á hæstv. forsrh., að hann ætlar sér ekki að fara eftir 3. gr. frv., þar sem svo er ákveðið, að þeir menn, sem hafa náð hámarki embættisaldurs, skuli víkja úr stöðum sinum 1. næsta mánaðar á eftir. Hann gerir t. d. ráð fyrir að láta kennara sitja í embættum skólaárið út. Ég er þessu alveg samþykkur, en þetta er alveg þvert á móti því, sem í frv. stendur, svo að þetta væri alveg augljóst lagabrot, að láta menn sitja í embættum 5—6 mánuði eftir að þeir samkv. skýlausum lagafyrirmælum eiga að vera farnir úr þeim. En þetta sýnir að vísu ekkert annað en það, að hæstv. ráðh. er farinn að sjá sjálfur, hve lítil sanngirni er í þessum ákvæðum frv. Það er rétt hjá frsm., að þegar lífeyrissjóður er orðinn 38 ára gefur hann embættismönnum góða tryggingu, en nú er hann aðeins 14 ára, svo að þeir embættismenn, sem yrðu að láta af embættum samkv. þessu frv., hafa ekki greitt í hann nema skamman tíma og fá því lítið úr honum, eða a. m. k. svo lítið, að langt er frá því, að það nægi þeim til lífsviðurværis. Tilgangurinn með lífeyrissjóðslögunum var sá, að hægt væri að leysa menn frá opinberum störfum með viðunanlegum kjörum, þegar samanlagður aldur og embættisaldur þeirra væri 95 ár.

Hv. frsm. sagði, að ég vildi ekkert aldurstakmark. Ég tók það einmitt fram, að ég vildi hafa aldurshámarkið 70 ár. Hann talaði um, að gera mætti breyt. til bóta á frv. í Nd. Þetta þykir mér benda á fremur vonda samvizku út af afgreiðslu málsins hér. Ég álít það fyllstu skyldu deildarinnar að ganga svo frá hverju máli, að ekki sé vitað, að það þurfi að breyta því. Hv. 2. þm. Rang. sagði, að ég væri á móti því, að þingmenn og ráðherrar gegndu störfum eftir að þeir væru komnir yfir vissan aldur. Ég sagði aðeins það, að það væri skrítið, ef t. d. sáttasemjarar yrðu að láta af störfum á þeim aldri, sem þeir menn mættu hafa, er sætu í ráðherrastól og á þingi. Ég get ekki heldur séð, að það væri nein fjarstæða að setja þingmönnum eitthvert aldurshámark, eins og þeim er sett aldurslágmark. Reynslan hefir annars sýnt, að aldurinn hefir ekki á nokkurn hátt verið farinn að draga úr starfskröftum þeirra þingmanna 65 ára, sem hér hafa átt sæti, en sjötugir menn og eldri hafa sjaldan eða ekki átt sæti á þingi, og ég ætla, að fáir embættismenn séu langt yfir 70 ára.