08.12.1934
Efri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2622 í B-deild Alþingistíðinda. (3538)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég bjóst við ýtarlegu áliti frá allshn. og kom því ekki með neinar brtt. Mér skildist á hæstv. forsrh., að frv. stæði til breyt. og hann gæti fellt sig við brtt. Ég óska þessu máli nú frestað til mánudags, þar sem fram eru komnar svo margar skrifl. brtt. Á morgun er hvíld frá þingfundum og þá gætu allir nm. allshn. haldið fund saman og borið sig saman um málið. Þetta er nauðsynlegt, þar sem mér skilst á þeim, sem talað hafa, að þeir sjái á málinu mörg missmíði. En það er auðvitað sjálfsögð skylda að athuga málið sem gaumgæfilegast og ganga sem bezt frá því.

Ég leyfi mér að draga það mjög í vafa, að misfellur í embættisrekstri séu tíðari hjá þeim, sem orðnir eru 65 ára, en hjá yngri mönnum.

Ég veit, að í mínu umdæmi eru af þrem hreppstjórum, sem komnir eru yfir þennan aldur, a. m. k. tveir, sem bera af öðrum í reglusemi og röggsemi í embættisfærslu, og er þó annar þeirra kominn yfir sjötugt.

Hæstv. forsrh. sagði, að við teldum skýrslu Morgunblaðsins um starfsmannafjöldann, sem á að fara frá samkv. frv. þessu, fullgilda. En það hefir einmitt komið skýrt fram, að við teljum ekki, að svo sé, því að þá hefðum við ekki krafizt frekari skýrslna af stj. Skýrsla Mgbl. er að vísu talsverður stofn, en enganveginn tæmandi.

Ég álít ennfremur, að fram þyrfti að taka í frv., að þegar skrifarar eiga að láta af störfum samkv. því, á aldrinum frá 65—70 ára, skuli leita umsagna yfirmanna þeirra, skrifstofustjóranna, áður.

Ég vil að lokum endurtaka þá ósk mína, að málinu verði frestað og allshn. sjóði hagfelldar brtt. upp úr þeim brtt. og aths., sem fram hafa komið við frv.