19.12.1934
Sameinað þing: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

1. mál, fjárlög 1935

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt á því að lýsa yfir óánægju minni út af því, að hæstv. stj. skuli öll vera utan dyra, og einnig sá hæstv. ráðh., sem hefir þó verið þaulsætnastur undir þessum umr., en allir þeir þm., sem hér flytja brtt., þurfa helzt að hafa áheyrn hæstv. stj. Einn maður úr meiri hl. fjvn. hefir verið hér öðruhvoru, en nú mun hann einnig farinn. Þeir, sem hér taka til máls, verða því að tala yfir daufum eyrum, en ég mun þó verða að sýna nokkur skil þeim brtt., sem mér við koma.

Þá skal ég fyrst geta þess, að við 2. umr. bar ég fram brtt. við fjárl. um að veita til sandgræðslu og landvarna í Meðallandi 12000 kr. Ég gerði þá nokkra grein fyrir, hvernig á þessu stæði, sem sé að Búnaðarfélagið hefði rannsakað staðhætti þarna hvað sandgræðslu snertir og vatnságang. Þessi áætlun Búnaðarfél. er í fleiri liðum og má fara fleiri leiðir. Ein leið hefir verið tekin út úr í samkomulagi milli mín og hæstv. landbrh., svo nefnd Arnargljúfursleið.

Þarna er um að ræða bæði sandgræðslu og varnir gegn vatnságangi, því að nú eru byggðir og ból þar mjög í hættu vegna vatna sem hafa flóð þar yfir í stórum stíl. Í staðinn fyrir 12000 kr. fjárveitingu hefir nú meiri hl. fjvn. eftir samkomulagi við hæstv. landbrh. tekið upp till. um fyrri greiðslu, sem er 5000 kr., en síðari greiðsla verður 7000 kr., af því að það er gert ráð fyrir, að það þurfi 12000 kr. til þess að fullgera þetta verk. Þetta verk er svo nauðsynlegt, að hæstv. landbrh. sagði, að þó að engin fjárveiting hefði legið fyrir, þá hefði hann viljað leggja eitthvað fram í þessu skyni. Þessi till. er því sjálfsögð, þegar þess er líka kostur að sýna fram á, að það er meining stj. að vernda bæi, ból og býli í Meðallandi. Nú felli ég mig við þetta að svo vöxnu máli, og má vænta, að nú megi gera alvöru úr að byrja á þessu verki, og má vænta, að ef til vill megi takast að ljúka þessu á næstu árum og verði síðan beðið með kaupgreiðslu, þangað til síðari fjárveiting fer fram.

Þá á ég ennfremur, eins og ég að nokkru leyti kom með og að nokkru leyti boðaði við 2. umr., fleiri brtt. Eru mínar brtt. þó með þeim fæstu frá einstökum þm., og eru þær flestar nauðsynlegar og fara fram á óhjákvæmileg útgjöld til að halda við eignum og mannvirkjum. Þessi brtt., sem ég var að tala um og fjvn. hefir fallizt á, er á þskj. 784, 35. Hefi ég þegar talað fyrir fyrri hluta þessarar brtt., en í síðari hluta till. leggur meiri hl. fjvn. til að ljúka við frárennsli á sandgræðslusvæðinu á Steinsmýrarbæjunum. Þetta er eins og himnabréf frá n., og er ég ekkert við það riðinn. En það má einu gilda, hvaðan gott kemur, og því tek ég líka við þessu fyrir hönd þeirra, sem þarna búa.

Þá eru brtt. á þskj. 813, sem er einskonar syrpa af brtt. frá einstökum þm., sem eiga sér ekki allar viðreisnar von, þó að vonast megi eftir góðum undirtektum undir sumar þeirra, en ekki mun á þessu stigi málsins vera auðvelt að sannfæra stj. eða meiri hl. fjvn. Reynslan verður að skera úr, en ekki munu hv. þm. láta sitt eftir liggja að gera þá tilraun, sem þeir geta gert til að koma fram málum sínum.

Á þskj. 815, LXX á ég brtt. við 22. gr. A-liðinn flutti ég við 2. umr. og tók hann þá aftur, en flyt hann aftur nú. Till. er um að heimila stj. að kaupa 3 jarðir í Mýrdal, sem liggja undir skemmdum af ágangi Hafursár. Hið opinbera hefir leyft sér að taka ána úr sínum eðlilega farvegi til þeirra nota, sem vegamálastjórnin hefir talið hæfa til brúargerðar, og veitt henni á þessar jarðir. Eftir almennum skaðabótareglum eiga þessir menn heimtingu til fullra skaðabóta til þeirra, er þetta gerðu, en það er það opinbera. Auk þess munu menn kannast við þá gömlu reglu, þó að það sé ekki lög, að „vötn skulu falla þar, sem runnið hafa“. Ég geri ráð fyrir, að fasteignamat þessara jarða verði lagt til grundvallar, sem er 10000 kr., svo að hér er ekki um mikið að ræða, en í till. er þó gert ráð fyrir, að 3 dómkvaddir menn skuli meta þessar jarðir. Ég bygg, að ef hæstv. landbrh. kynnir sér þetta mál, muni hann taka till. vel og ef til vill ganga inn á hana, og ef hann vildi ræða við mig um till. og taka henni með fullri velvild, gæti svo farið, að ég tæki hana aftur, því að þá mætti fara svo, að hún kæmi fram á næsta þingi, og má þá fara svo, að hæstv. fjmrh. beri hana sjálfur fram, og þá er málinu vel borgið.

Þá er b-liður þessarar brtt., að greiða Vigfúsi Gunnarssyni í Flögu eftirstöðvar af brunatjóni. Hv. þm. kannast við það, þó að hér sé nú allmargt nýrra manna, að við samþ. fjárl. 1932 var það samþ. eftir talsverða rekistefnu, að greiða allt að helmingi af því brunatjóni, sem bóndinn í Flögu varð fyrir. Á þessum bæ var landssímastöð, og það var upplýst, að það var eingöngu af símans völdum að bærinn brann. því að eldingu laust í símann, og sú var ástæða hrunans. Tjónið var metið á 18 þús. kr. Þetta var gróið bú og miklir munir innanstokks, sem brunnu. Að lokum gekk þingið inn á, þó að ég álíti, að landssíminn hefði átt að bæta þetta tjón, þá var gengið inn á að heimila stj. að greiða allt að helmingi af þessum metnu skaðabótum. Nú fór svo, að sá ráðh., sem hafði með fjármálin að gera, borgaði að vísu nokkra upphæð, 6000 kr., en það var helmingur tjónsins, sem heimild var til að greiða, eða 9000 kr., svo að hér er um 3000 kr. að ræða, sem hér er farið fram á. Hér er því um nokkurskonar endurveitingu að ræða, því að í fjárl. fyrir 1932 var heimilað að greiða þetta.

Ég sé, að hæstv. fjmrh. situr og hlýðir með athygli á mál mitt, og ég skil, að hann muni vera að taka saman meðmæli með till. minni, og af því að ég er svo rólegur og nægjusamur, þá mun ég taka með þökkum, ef ég fæ góð orð, þó að minna verði um betalning. Annars vil ég í lengstu lög treysta mönnunum vel, og þá eins hæstv. ráðh.

Þá er XXIII. brtt. á þessu þskj., sem við 3 þm. berum fram við 14. gr., A.b.9, að nýr liður verði þar látinn koma, sem sé að veittar verði 2000 kr. (og til vara 1500 kr.) til að létta ferðakostnað leikmanna, sem lengst eiga að sækja kirkjufund, er halda á í Rvík eða á Þingvöllum sumarið 1935. Prestafélagið sendi Alþingi erindi, sem var látið ganga til fjvn., að veita þessa upphæð til þess, að þeir, sem áhuga hafa á að sækja þennan kirkjufund og erfiðast eiga með það, gætu fengið nokkurn styrk. Mönnum kann nú að finnast, að þetta séu nokkrir peningar, en það eru til fordæmi fyrir, að styrkir hafa verið veittir í svipuðum tilgangi. Og þó að þessi fjárhæð verði veitt, þá er það aðeins 50 kr. handa 40 mönnum, og er það þó nokkur styrkur til að standast þann kostnað, sem leiðir af því að ferðast til Rvíkur og dvelja þar nokkra daga. Ég þykist vita, að sá hæstv. ráðh., sem ég hrósaði áðan fyrir þolinmæði og á skylt mál þeim geistlegu, hann muni tilbærilega taka slíku sem þessu, og ég hefi ekki enn orðið var við, að hann játi sig sem heiðinn mann. Þess vegna ber honum að líta góðum augum á slíkt. Ég þekki menn úr hans héraði, sem hann hefir lagt mikla rækt við á allan hátt, sem vilja styðja þetta. Fundur slíkur sem þessi var haldinn í sumar á Þingvöllum og hér, og þá var það eindregin ósk fundarins, að leikmönnum yrði veittur slíkur styrkur. Ég tel það ekki aðeins frá veraldlegu sjónarmiði, heldur einnig frá andlegu sjónarmiði rétt að veita slíkan styrk, og tel það ekki aðeins trúarlega heldur einnig mannlega skyldu að taka slíkri beiðni vel. Þetta erindi Prestafélagsins var svo sent til fjvn., en þar var það ekki einu sinni lesið. Í þessari n. er þó einn maður, sem hefir fengið vígslu, en reykelsisilmurinn mun nú vera farinn að rjúka utan af. Það hefði þó mátt vona, að hann hefði a. m. k. lesið þetta erindi, þó að ekki hefði verið til annars en að hnýta í það, því að það hefði þó verið nokkurs vert, því að það hefði þó kannske orðið til þess, að aðrir hefðu fremur fengizt til að fylgja þessari till. fram, en hann hefir nú ekki hitt á þessa till. né heldur hans fylgifiskar. Nú skorum við flm. þessarar till. á hv. þm. að ljá þessu lið, og láta svo lítið, að samþ. nú þetta þráttnefnda erindi, sem hér liggur fyrir. En það lítur út fyrir, að meiri hl. vilji nota sína aðstöðu nú til þess að fara sínu fram, en sinna lítið annara manna ráðum eða till. Það er í fyrsta skipti þann tíma, sem Alþingi hefir staðið, sem slíkri aðferð er beitt, sem nú er viðhöfð hér á þingi. Það er byggður kínverskur múr í kringum hæstv. stj., sem enginn á að geta komizt yfir. Það er svo, að það þarf varla nokkur pólitískur andstæðingur að hugsa til að fá sínar till. samþ., því að þó að þeir beri fram góðar og sanngjarnar till., þá þora stjórnarliðar ekki að greiða þeim atkv. Vitanlega er þetta hneyksli, en það er mín von, að þeir sjái nú að sér og taki til greina till. frá öðrum. (Fjmrh.: Hv. þm. er búinn að gleyma hrósinu, sem hann var með í upphafi ræðu sinnar). Það eru till. fleiri manna en mínar, sem hér er um að ræða, þó að mínar skari fram úr að réttlæti og sanngirni. Og þegar ég hefi getað sparkað spor í þennan kínverska múr, þá vil ég ekki láta við það sitja, heldur að fleiri komi á eftir mér og ráðist til uppgöngu í vígið, og þá vil ég ekki, að ráðh. liggi eins og Fáfnir á gulli landsins. Ég vil því, að fleiri taki sér í hönd sverð og skjöld til að herjast þar með mér fyrir hagsmunum almennings. Þessar till., sem ég ber fram, eru ekki fyrir sjálfan mig, heldur almenning í mínu héraði. Þær eru svo sanngjarnar, að jafnvel hæstv. landbrh. verður að taka tillit til þeirra, og jafnvel sjálfur meiri hl. fjvn. stendur að nokkrum þeirra.

Ég skal þá láta útrætt um þessar till. mínar, en ég vil aðeins mæla með till. XXVI. á sama þskj., frá hv. þm. Rang., þar sem þeir ætlast til, að af því fé, sem ætlað er til sundlauga, fari 800 kr. til sundlaugar á Seljavöllum undir Eyjafjöllum. Það er undarlegt, að ekki skuli hafa verið af þingsins hálfu lögð meiri rækt við þessa sundlaug. Þó að einkennilegt sé, þá er á öllu þessu mikla eldgosasvæði frá Árnessýslu og austur um allt land ekki volgt vatn nema á þessum eina stað, og þar hafa Eyfellingar byggt sér vandaða sundlaug, en hún hefir orðið dýr, og þeir þurfa því styrk til þess að gera hana fullkomna. Þessi laug er ekki einungis notuð af Eyfellingum, heldur af mörgum öðrum, jafnvel austan úr Mýrdal. Við sóttum þangað austan úr Vík síðasta vor og lágum þar við í viku til hressingar og heilsubótar, og þar var meiri árangur af sundnámi í þá einu viku en þó að menn hefðu verið 4 vikur að busla í köldu vatni. Við lögðum mikinn kostnað á okkur fyrir þetta, en við komumst að raun um, að sundlaug eins og þessi er mikilsverð. Það er ungmennafélag Eyfellinga, sem átti forgönguna að því að koma lauginni upp. Skýlið vantar 800 kr. Vil ég skjóta því til hæstv. fjmrh., að hann ljái þessu eyra. Þó að ég beri ekki fram þessa till., tek ég afstöðu til hennar eins og ég hefði gert það sjálfur.

Þá mæli ég eindregið með till. á þskj. 815, XLII frá hv. 8. landsk. o. fl., að veita Árna Pálssyni prófessor 1200 kr. til að ljúka við samningu sagnarits um kirkjusögu Íslands á lýðveldistímanum.

Ég þarf ekki margt um Árna að segja. Allir vita, að á þessu sviði er enginn honum fremri. Þetta verður mikið rit, sem varpa mun fróðlegu og þjóðlegu ljósi yfir kirkjusögu okkar og eins almenna sögu. Mun því verða vel tekið, ekki aðeins hér heima, heldur líka erlendis, því að það verður brunnur af nýjum sjónarmiðum að því er þetta efni snertir. 1200 kr. er ekki nema lítill hluti þess, sem verið er að velta inn á ýmsa einstaklinga, sem spáð er, að verða muni frægir og aftur frægir, vegna þess, að þeir hafa hrúgað upp bókum, enda þótt það sé spurning, hversu mikið almenningur á þeim upp að unna. Ég vil ekki deila á þingmeirihlutann fyrir þetta, því að ég er því yfirleitt hlynntur, að hlúð sé að rithöfundum. En hér ætti þá ekki síður að láta eitthvað af mörkum. Hér er áreiðanlega búið að vinna fyrir þessari upphæð. — Lýk ég svo þessum orðum mínum, sem ég vildi hafa mælt til þeirra, sem heyrandi vilja heyra og sjá, þótt þá syfji.