15.12.1934
Neðri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2628 í B-deild Alþingistíðinda. (3559)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Thor Thors:

Þetta frv., sem hér liggur fyrir til 2. umr., felur það í sér samkv. 1. gr. þess, að víkja skuli úr embættum öllum opinberum embættis- og starfsmönnum, þegar þeir eru orðnir fullra 65 ára, hvort sem þeir eru í þjónustu ríkisins, bæjar- eða sveitarfélaga eða stofnana, sem ríkið eða bæjar- og sveitarfélög ráða yfir. Þó er samkv. 2. mgr. 1. gr. heimilt, að þeir opinberir embættis- og starfsmenn, sem þykja til þess nógu ernir til líkama og sálar, séu látnir halda störfum sínum þar til þeir eru fullra 70 ára, en enginn má vera í opinberu embætti eða stöðu, sem eldri er.

Hér er um algert nýmæli að ræða í íslenzkri löggjöf. Það hefir verið svo hingað til, að embættismenn hafa fengið að sitja í stöðum sínum meðan þeir sjálfir hafa óskað og talið sig færa um að gegna störfum sinum. Það hefir verið litið svo á embættismannsstarfið, sem það væri æfilangt starf, og hugtakið embættismaður er beinlínis skilgreint þannig í stjórnlagafræðinni íslenzku, að þar sé átt við æfilangt starf.

Þetta frv. er nú flutt eftir tilmælum hæstv. dómsmrh. Það var lagt fyrir Ed., og hefir nú gengið sinn gang þar, en því fylgdi nokkur grg., og skal ég leyfa mér að víkja nokkuð að einstökum atriðum þeirrar grg. Þar segir m. a., að það hafi þótt með flestum þjóðum hentugt að ákveða aldurshámark opinberra starfsmanna, og að það sé nokkuð sitt á hvað, hve hátt það hafi verið sett í hinum ýmsu löndum, en víðast hvar sé hámarkið ýmist 65 eða 70 ár, en hvergi hærra en 70 ár, og t. d. sé aldurshámarkið í Danmörku 70 ár. Ég hygg, að þetta sé alls ekki rétt, að það sé aldurshámark opinberra starfsmanna hjá flestum þjóðum. Ég hygg einmitt að það sé undantekning, ef slík ákvæði eiga sér stað. Ég viðurkenni það, að það sé rétt, að í Danmörku gildi þetta hámark, 70 ár, og sömuleiðis mun þetta sama gilda í Noregi, en ég veit ekki önnur dæmi þess. Ég hygg, að það sé ekkert slíkt ákvæði t. d. hjá Svíum, og eru þeir þó í mörgum efnum taldir öndvegisþjóð meðal Norðurlandaþjóðanna. Ennfremur er mér fullkunnugt um það, að hjá Englendingum er t. d. ekkert aldurshámark, og Englendingar hafa einmitt að því er virðist, haft þá reglu, að skipa menn, sem komnir eru á efri ár, í hin æðstu embætti og valdamestu með þjóðinni. Það má t. d. minna á, að núv. forsrh. Breta, Mac Donald, er maður, sem er mjög við efri aldur, og ennfremur má minna á það, að einhver vandasamasta staðan, sem Englendingar ráða yfir, sem er sendikonungsstaða þeirra yfir Indlandi, — en svo minnir mig að Englendingar nefni hana, — er skipuð manni, Lord Willingdon, sem a. m. k. er kominn yfir 70 ára aldur. Og það má rekja þess fjöldamörg dæmi úr sögu Englendinga, að þeir menn, sem mestu hafa ráðið með þeirri öndvegisþjóð, hafa einmitt verið menn, sem hafa verið komnir mjög á efri aldur. Þannig má minna á það, að tvö síðustu valdatímabil Gladstone voru á þeim tíma, þegar hann var kominn upp undir og yfir áttræðisaldur. Ég þori að fullyrða það, að hjá Frökkum sé heldur ekkert aldurshámark, og það hefir verið mjög áberandi á ýmsum tímum í sögu frakknesku þjóðarinnar, hversu aldurhnignir menn það hafa verið, sem með æðstu völd hafa farið með þeirri þjóð. Þess er t. d. skammt að minnast, að Clemenceau, sem var um tíma langvoldugasti maður í Frakklandi, var kominn nær áttræðu, þegar völd hans voru mest með þjóðinni. Mér er heldur ekki kunnugt um það, að á Spáni sé neitt aldurshámark, og núv. forseti spánska lýðveldisins er mjög aldurhniginn maður. Ég veit ekki heldur til þess, að á Ítalíu sé neitt aldurshámark. Hefði þó kannske frekar mátt vænta þess þar en annarsstaðar, þar sem þjóðmál þeirra eru ekki háð almennri gagnrýni, eins og í lýðfrjálsum löndum, heldur farið eftir geðþótta eins flokks þar í landi, sem öllu ræður, sem sé Fasistaflokksins. Ég minnist þess ekki heldur, að hafa séð það, að þýzka nasistastjórnin hafi tekið upp neitt aldurshámark, og má þó um það land gilda hið sama og ég sagði um Ítalíu, að einn flokkur getur algerlega ráðið því, hver ákvæði og hvaða reglur gilda þar í landi.

Ég verð þess vegna að halda því fram, að það sé ekki rétt, sem segir í grg. þessa frv., sem hæstv. forsrh. mun bera ábyrgð á, að hjá flestum þjóðum sé eitthvert aldurshámark. Ég hygg einmitt, að það sé undantekning, ef svo er, og ég viðurkenni þær 2 undantekningar, sem gilda í Danmörku og Noregi. En þar er þetta bundið við 70 ár, en eigi við 65 ár, eins og ráðgert er í þessu frv.

Eigi nú að taka upp aldurshámark hér á landi, sem ég skal viðurkenna, að geti verið a. m. k. rannsóknarefni, þá fæ ég eigi séð, að ástæða sé til þess að hafa það lægra en hjá nágrannaþjóðum vorum, Norðmönnum og Dönum. Ég held, að Íslendingum sé ekki svo hnignað, að þeir endist verr en almennt gerist um menn meðal Norðmanna og Dana. En ég sé hinsvegar, að það er ástæða til þess að fara varlegar hér á landi en í þessum löndum, með tilliti til embættismannanna sjálfra. Og það tillit byggist á því, að hér á landi eru embættismenn yfirleitt lægra launaðir en hjá þessum nágrannaþjóðum okkar. Íslenzku embættismennirnir hafa þess vegna ekki sama tækifæri til þess að safna í fjársjóð til efri ára eins og stéttarbræður þeirra meðal nágrannaþjóða okkar ættu að hafa. Ég tel, að ef á að lögleiða hér eitthvert aldurshámark, þá verði að taka nokkurt tillit til þeirra manna, sem þetta mundi bitna á. Það er öllum vitanlegt, að efnahagur íslenzkra embættismanna er yfirleitt þannig, að þeir yrðu þess ekki megnugir að sjá sér sjálfir farborða í ellinni, ef svipta ætti þá stöðum sínum, og sérstaklega ef það yrði gert eins gersamlega fyrirvaralaust eins og ráðgert er í þessu frv., sem samkv. 4. gr. þess á að öðlast gildi þegar í stað, þ. e. a. s. innan fárra daga, og mennirnir eiga því að víkja úr stöðum sínum nú þegar 1. jan. 1935. Þetta ákvæði út af fyrir sig tel ég algerlega óviðunandi og til fyllstu smánar fyrir ríkisstj. að bera slíkt fram. Það vita allir hv. þm., að jafnvel þjónustustúlkur, sem ráðnar eru í vistir, hafa nokkurn uppsagnarfrest. Það er ekki hægt að reka þær úr vistinni að ósekju fyrr en lögákveðinn hjúaskildagi kemur. Hv. þm. vita það ennfremur, að með öllum atvinnustéttum í landinu ríkir nokkur uppsagnarfrestur. Það mun vera almenn venja, að verzlunarmenn hafi 3 mánaða uppsagnarfrest, og það mun vera nokkurn veginn ákveðin venja, að bifreiðastjórar hafi a. m. k. 1 mánaðar uppsagnarfrest. En þá menn, sem hafa fórnað lífi sínu í þágu íslenzka ríkisins, sem hafa unnið í þágu þess fram á elliár, á nú að flæma úr embættum sinum gersamlega fyrirvaralaust, og að því er bezt verður séð, reka þá miskunnarlaust út á gaddinn. Þetta tel ég til smánar fyrir ríkisstj. að bera fram. Embættismenn í þjónustu ríkisins eiga heimtingu á uppsagnarfresti eins og aðrir starfsmenn. Þeir eiga því meiri kröfu til þessa, sem alltaf hefir verið litið á embættismannsstarfann sem æfilangan starfa. Hvað myndi bíða þessara manna, ef fara á að vísa þeim úr stöðum sínum, eins og frv. gerir ráð fyrir? Þeir hafa að vísu lagt fé í lífeyrissjóð embættismanna. Sá sjóður er nú ekki nema 13 eða 14 ára gamall. Hann er svo til kominn, að ríkið hefir einu sinni lagt honum til 50 þús. kr.. en annars hefir hann fengið fé sitt með því, að árlega hefir verið tekinn til hans ákveðinn hluti af launum embættismanna. Er hann nú um 1 millj. kr. að upphæð. Hlutur þessara manna yrði sá, ef ekkert annað væri gert þeim til styrktar, að þeir fengju um 80 til 100 kr. í eftirlaun á mánuði. Margir þeirra ern fjölskyldumenn, og eiga margir óuppkomin börn, sem þeir styrkja til náms í ýmsum skólum. Allir hafa þeir skapað sér lifnaðarháttu út frá þeim efnahagslegu skilyrðum, sem embættið veitti, í trausti þess, að þeir fengju að halda því. En fyrirvaralaus brottrekstur hindrar þá í því að breyta lifnaðarháttum sínum svo sem nauðsynlegt er, ef þeir verða sviptir starfi og tekjum. Þessir menn hafa t. d. allir leigt sér húsnæði í samræmi við embætti sitt og laun. Ef frv. verður samþ., verða þeir að fara úr embætti 1. jan. 1935, en þeir geta ekki losnað við húsnæði sitt fyrr en í fyrsta lagi 14. maí næstk. Væru það a. m. k. ekki óeðlileg eða of mikil verðlaun til þessara aldurhnignu embættismanna, sem velflestir hafa gegnt starfi sínu dyggilega á undanfarinni æfi, að þeir fengju slíkan frest, að þeir gætu sagt upp húsnæði því, er þeir hafa.

Ég hygg, að það ætti að vera öllum ljóst, að hér er næsta fantalega að farið gagnvart þessum mönnum, en tillitið til þeirra er annað sjónarmið þessa máls. Hitt sjónarmiðið er það, hversu mikinn kostnaðarauka þetta hefir í för með sér fyrir ríkissjóð. Má gera ráð fyrir, að einstaka þm. og e. t. v. nægilega margir myndu vilja sjá fyrir þessum gömlu embættismönnum, svo sem hingað til hefir verið siður, með því að taka upp í fjárl. nokkurn styrk til þeirra. En ég álít, að til þess að þessir þm. geti gert sér fulla grein fyrir frv., þurfi að liggja fyrir skýrsla um það, til hve margra embættismanna það tekur.

Hæstv. forsrh., sem ber fram frv., ætti að sýna málinu þann sóma að vera viðstaddur í d., meðan verið er að rökræða það. Vík ég því til hæstv. forseta, að svona fundir eru harla þýðingarlitlir og þinginu beinlínis til skammar. Hér er um stórvægilegt ágreiningsmál að ræða, en þeir, sem bera það fram, vilja ekki hlusta á rök í málinu. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. forseta, hvort hann telur yfirleitt fundarfært í d. (Forseti: Það var fundarfært, þegar fundur hófst. Býst ég við, að hv. þm. séu ekki langt í burtu). En þetta er ekki meira en það, sem maður á að venjast í seinni tíð.

Hæstv. forsrh. er ekki viðstaddur til að gefa þessa skýrslu, svo að hv. þm. geti áttað sig á, hversu víðtækt frv. er. Þessi skýrsla þarf að upplýsa, hve margir embættismenn eru nú komnir yfir 65 ára aldur og hve margir yfir 70 ára.

Ég sagði í upphafi ræðu minnar, að hér væri um nýmæli að ræða í íslenzkri löggjöf. Ég skal viðurkenna, að samkv. 56. gr. stjskr. — í grg. stendur 57. gr., en á að vera 56. gr. — má veita dómurum hæstaréttar lausn frá embætti, þegar þeir eru orðnir 65 ára að aldri, en eigi skulu þeir þó missa neins í af launum sínum. En hér er um algert undantekningarákvæði að ræða. Hæstaréttardómarar eiga að halda fullum launum, eftir að þeir eru farnir frá embætti, og mega allir sjá af því, hvílíkur munur er á hlutskipti þeirra og hinna, sem frv. fjallar um. Í grg. er sagt, að í stjskr. sé gert ráð fyrir, að mönnum sé vísað úr embætti, er þeir eru komnir yfir 65 ára aldur. Þetta er algerlega rangt. Þetta ákvæði stjskr. er hreint undantekningarákvæði, sem er til styrktar þeirri reglu, að embættismannastarfinn sé yfirleitt æfilangur. Þeim lögfræðingi hefir því skjátlazt, sem samið hefir grg., hvort sem það er hæstv. forsrh. eða einhver starfsmaður hans.

Ég veit líka, að það eru til ákvæði í starfsreglum íslenzkra fyrirtækja, t. d. Landsbankans, um að menn skuli fara frá embætti, er þeir hafa náð 65 ára aldri. En þessum starfsmönnum er ávallt gefinn eins til tveggja ára frestur. Og það er ennfremur vitað, að starfsmenn Landsbankans hafa betri launakjör við að búa en starfsmenn ríkisins yfirleitt. Þessi ákvæði bitna því ekki eins hart á þeim og almennum starfsmönnum ríkisins.

Ég tel óheppilega mikið vald lagt í hendur ráðh. samkv. 1. gr. frv., auk þeirrar óþægilegu aðstöðu, sem embættismenn á aldrinum 65—70 ára hafa samkv. þeirri gr. Eins og ég gat um áðan, á það að vera aðalreglan, að embættismenn fari frá 65 ára, en þó getur ráðh. gefið þeim, sem þykja nógu ernir til líkama og sálar, heimild til að sitja til 70 ára aldurs. Þarna er ráðh. gefið vald til að úrskurða mann úr embætti hvenær sem er á aldrinum 65—70 ára og hvernig sem á stendur. Má nota þetta ákvæði allóþyrmilega og harðdrægt af hendi óbilgjarnrar ríkisstj. Ég get ímyndað mér, að ekki yrði þarna alltaf litið á heilsuna eina, og yrði sennilega stundum frekar spurt um hina pólitísku heilsu, hvernig hún væri að dómi ráðh. Sjá allir, hvernig slíkt vald má misnota.

Ég þykist nú hafa bent á, að þetta frv. er ekki svo undirbúið sem skyldi. T. d. vantar allar upplýsingar um það, til hve margra embættismanna það nær. Enn vantar upplýsingar um það, hvað stj. ætlar að gera til styrktar þeim mönnum, sem þannig verða sviptir embætti.

Ég þykist ennfremur hafa bent á, að það er óviðeigandi, harðneskjulegt og jafnvel smánarlegt af ríkisvaldinu að ætla þannig að flæma úr starfi menn, sem búnir eru að starfa vel og dyggilega fyrir ríkið, e. t. v. alla æfi, og það alveg fyrirvaralaust. Ég hefi hinsvegar vikið að því, að það er fullkomið rannsóknarefni og íhugunarmál, hvort við eigum að taka upp aldurshámark, enda þótt einstaka þjóð, eins og Danir og Norðmenn, hafi gert það. Málinu liggur a. m. k. ekki svo mjög á, að því þurfi að flaustra af nú í þinglokin, jafnvel svo, að menn þurfi að ræða það yfir tómum stólum. Það verðskuldar meiri rannsókn en þá, sem liggur til grundvallar fyrir þessu frv., og þar sem líkur eru til, að þing komi aftur saman eftir fáa mánuði, sé ég ekki betur en að menn geti beðið þangað til.

Ég vil því, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp svo hljóðandi rökst. dagskrá:

„Þar eð eigi eru fyrir hendi nægar upplýsingar um það, til hversu margra embættis- og sýslunarmanna frv. þetta tekur, né á hvern veg yrði séð fyrir þessum mönnum, ef þeir yrðu sviptir störfum sinum, og þar eð það verður að teljast skylda ríkisvaldsins að veita starfsmönnum sínum nokkurn uppsagnarfrest, svo sem tíðkast á öllum sviðum einkarekstrar, telur deildin rétt að fresta þessu máli til næsta þings og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég vænti, að þessi rökst. dagskrá komi hér til umr. og athugunar ásamt frv. sjálfu.