19.12.1934
Sameinað þing: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

1. mál, fjárlög 1935

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég á nokkrar brtt. við fjárlfrv., og skal ég gera grein fyrir þeim. (Forseti (BÁ): Ég tel rétt að benda hv. þm. á, að völ er á kaffi á Hótel Borg, ef þeir vilja halda sér vakandi fram eftir nóttunni). Ég vil spyrja hæstv. forseta, hvort þetta á að vera sneið til hv. þm. N.-Þ., af því að hann sofnaði hér í salnum núna um daginn. En af því að hann er ekki viðstaddur í augnablikinu, vegna þess að hann sefur hérna inni í ráðherraherberginu, finn ég mig knúðan til að taka málstað hans. (Forseti (BÁ): Ég held, að það sé rangt hjá hv. þm. G.-K., að hv. þm. N.-Þ. hafi sofnað. Hann hlustaði með svo mikilli andagt á hv. þm. G.-K., að hann hélt að hv. þm. N.-Þ. svæfi).

1. brtt. mín er á þskj. 815,III. Fer ég fram á, að héraðslæknunum Karli G. Magnússyni og Jóni Karlssyni sé veittur 1500 kr. utanfararstyrkur hvorum. Till. er flutt samkv. ósk þessara lækna. Hafa þeir sent erindi til Alþingis, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa það upp:

„Við undirritaðir héraðslæknar leyfum okkur hér með að fara þess á leit við Alþingi, að það veiti okkur styrk til framhaldsnáms og sjúkrahúsdvalar í Danmörku á árinu 1935, að upphæð fimmtán hundruð krónur handa hvorum okkar.

Virðingarfyllst 10. október 1934.

Jón Karlsson,

héraðslæknir í Reykjarfjarðarhéraði.

Karl G. Magnússon,

héraðslæknir í Hólmavíkurhéraði. Greinargerð:

Það mun vera öllum ljóst, að héraðslæknar, sem sumir hverjir dvelja meiri part starfsæfi sinnar í afskekktum héruðum, þurfi nauðsynlega á 5 til 10 ára fresti að endurnýja og bæta við kunnáttu sína með dvöl erlendis, sé þess kostur, ef þeir eiga að geta fullnægt sem opinberir starfsmenn hinum vaxandi kröfum, sem til þeirra eru gerðar.

Minna hafa læknar gert að þessu en skyldi, en orsakir til þess eru aðallega fátækt, of lítið framlag af hálfu þess opinbera og skortur á hentugum plássum, þar sem héraðslæknum væri tryggður árangur af kostnaðarsömu ferðalagi.

Á síðastliðnu ári hefir verið unnið að því af kappi af hálfu íslenzkra lækna og velviljaðra danskra lækna að bæta úr hinu síðasttalda atriði. Og fyrir mikið starf og velvild lækna í Danmörku hefir það áunnizt, að nú er vel séð fyrir framhaldsnámi íslenzkra læknakandidata í Danmörku, og ennfremur hefir verið útvegað handa þremur íslenzkum héraðslæknum á ári sjúkrahúspláss til framhaldsnáms í nokkra mánuði á þremur nýtízku sjúkrahúsum utan Kaupmannahafnar, og ætlum við undirritaðir utan í tvö af þessum plássum.

Héraðslæknir, sem ætlar að hagnýta sér þetta, verður að sjá af öllum launum sínum og aukatekjum til aðstoðarlæknis, meðan hann er fjarverandi. — Þegar þar við bætist, að hann verður að kosta til úr eigin vasa, af litlum eða engum efnum, stórum fjárhæðum, er ekki nema eðlilegt, að leitað sé til þess opinbera um nokkurt framlag, jafnmikinn hlut og það á hér að máli.

Héraðslæknir, sem án þess að vera knúður til þess af öðru en áhuga fyrir starfi sínu, tekur ef til vill á sig fjárhagslegar byrðar í þessu skyni, gerir það fyrst og fremst sem starfsmaður ríkisins, sem með því að auka þekkingu sína vill kappkosta að gegna vel sínu embætti sem opinber starfsmaður.

Það virðist því ekki nema sanngjarnt og rétt, að hið opinbera taki að nokkru hlutdeild í þeim kostnaði, sem til er stofnað að jafnmiklu leyti í þess eigin þágu. Og þess vegna höfum við undirritaðir farið fram á nokkurn fjárstyrk í þessu skyni, í trausti þess, að það fái góðar undirtektir hjá Alþingi.

Það skal tekið fram, að sanngjarnt virðist, að viðkomandi héraðslæknir sýni skilríki fyrir því við greiðslu styrksins, að hann hafi hagnýtt tíma sinn erlendis á þann hátt, sem til var ætlazt.

Virðingarfyllst

Karl G. Magnússon. Jón Karlsson.“

Þetta erindi læknanna hefir hlotið meðmæli landlæknis, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa það upp. Það er örstutt:

„Hér með erindi tveggja héraðslækna til Alþingis, þeirra Jóns Karlssonar, sem undanfarin ár hefir verið settur héraðslæknir í Reykjarfjarðarhéraði, og Karls Magnússonar, sem er héraðslæknir í Hólmavíkurhéraði, um utanfararstyrk sér til aukinnar fræðslu. Jafnframt ítreka ég tilmæli mín til nefndarinnar um að ætla nokkurn styrk til utanferða héraðslækna og ekki minni en áður var orðin hefð að veita.“

Þessi rökstuðning sjálfra styrkbeiðenda annarsvegar og landlæknis hinsvegar segir í rauninni það, sem þörf er á að segja í þessu máli. Ég get engu við bætt, sem hafi gildi umfram þessa rökstuðningu. Þessir aðilar eru hnútunum kunnugastir og færastir um að dæma. Ég geri ráð fyrir, að Alþingi taki a. m. k. til greina meðmæli landlæknis.

Þá er brtt. mín á þskj. 815,VI, um hækkun framlags til Kjósarvegar úr 10 þús. kr. í 25 þús. Vegamálastjóri lagði til, að veittar yrðu 25 þús., en meiri hl. fjvn. færði það niður í 10 þús. Það er upplýst, að 10 þús. kr. geta ekki komið þarna að neinum notum, þar eð tengja þarf Kjósarveg, sem kominn er framhjá Hálsi í Kjós, við sæmilegan veg norðan við Reynivallaháls. En þetta er ekki hægt að gera fyrir 10 þús. kr. Sá vegur, sem nú þarf að fara, yfir taglið á Reynivallahálsi, er svo illur, að hættulegt er að láta bíla fara hann. Mér er það ráðgáta, hvernig meiri hl. fjvn. hefir farið að því að færa rök gegn till. vegamálastjóra. Ég hefi ekki heyrt þá gera tilraun til að rökstyðja mál sitt. (Forseti (BÁ): Ég vek athygli hv. þm. á því, að verið er að útbýta till. frá honum. Mun ég þegar leita afbrigða, og getur hann þá mælt fyrir þessum till. um leið).