15.12.1934
Neðri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2635 í B-deild Alþingistíðinda. (3561)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hæstv. forsrh. var eitthvað að gera að umtalsefni umr. á fundum bæjarstj. Rvíkur. (Forsrh.: Var það ekki rétt frá skýrt?). Jú, að vissu leyti var það. Það hefir tíðkazt nokkuð síðan farið var að halda bæjarstjórnarfundi í kaupþingssalnum, að einstakir fundarmenn hafa farið inn í afherbergi. En það er ekki mikil ástæða til að finna að þessu. Þó að menn sitji í þessum afherbergjum, þá geta þeir heyrt hvert orð í fundarsalnum. En hér er kvartað yfir því, að menn fara undir vissum kringumstæðum út úr húsinu og skáka í því skjóli, að málið verði ekki borið undir atkv.

Þetta þekkist ekki á fundum bæjarstj. Rvíkur. Ég man ekki eftir neinu tilfelli, þar sem bæjarfulltrúi hefir gengið af fundi og látið sig vanta meðan á umr. stóð. Ég man ekki eftir, að það hafi komið fyrir, að menn hafi farið af fundi og komið svo aftur til þess að greiða atkv. Þetta er alveg sérkennilegt fyrir hið háa Alþ. Í þessu sambandi vil ég vekja máls á því, að það væri æskilegt, að það gæti orðið að samkomulagi að gera þá breyt. á þingsköpum Alþ., að atkvgr. fari fram strax að loknum umr. Það er sannarlega óviðkunnanlegt, að þeir, sem hafa mál að flytja, séu neyddir til þess að ræða þau fyrir tómum stólum. En ef þingsköpunum væri breytt, þá væri ekki hægt að fara þessu fram, þá yrðu þm. að sætta sig við að vera svo nálægt, að þeir geti heyrt það, sem fram fer. Að þessu leyti held ég, að hæstv. forsrh. verði að taka aftur samanburð sinn á bæjarstj. Rvíkur og hinu háa Alþ. En hinu þori ég ekki að neita, að meiri hl. bæjarstj. Rvíkur kunni á stundum að láta sumum ræðum andstæðinganna ósvarað. Það er auðvitað ekkert við því að segja, enda hefir ekki verið kvartað yfir því hér. Það er líka algengt í þessari hv. d., að stjórnarandstæðingar halda ræður um málin, sem hvorki ráðh. né fylgismenn stj. telja sér skylt að svara. En það er ekki hægt að selja reglur um þetta eða skylda menn til neins í þessum efnum.

En viðvíkjandi þessu máli, sem hér er til umr., skal ég játa, að ég álít það hafa töluvert til síns máls. Það verður af mörgum ástæðum að teljast eðlilegt að setja ákvæði um það, hvenær embættismenn og starfsmenn ríkisins eigi að láta af störfum. Þó að ég sé fullkomlega sammála þeim, sem vilja athuga þetta, þá er óviðunandi að setja lagaákvæði um þetta gersamlega undirbúningslaust að öllu leyti. Mér finnst, að embættismenn og starfsmenn hins opinbera eigi heimtingu á að njóta fyrirvara um það, hvenær þeir láta af störfum. En þegar lögleiða á svona nýmæli, þá eiga menn heimtingu á að fá undirbúningstíma til að búa sig undir að missa stöðu sína. Þeir eiga heimtingu á að fá ekki aðeins venjulegan fyrirvara um uppsögn á starfi, heldur líka frekari undirbúningstíma.

Ég játa, að það geti verið nauðsynlegt að hafa heimild í l. til þess að leysa þá menn frá störfum, sem ekki eru færir um að gegna þeim. Þetta getur komið fyrir, en það munu vera færri tilfelli, þar sem það er brýn nauðsyn, enda þá oftast hægt að ná samkomulagi. Það er líka ástæða til þess að menn, sem eru orðnir svo háaldraðir, að gera má ráð fyrir því, að lífsstarfi þeirra sé um það bil lokið, rými fyrir yngri mönnum. Það er vitanlegt, að það er fjöldi ungra manna, sem hefir búið sig undir að vinna í opinberri þjónustu, en komast hvergi að. Það er ástæða til þess, ef unnt er, að greiða fyrir því, að þessir menn geti fengið eitthvað að starfa. Að þessu leyti get ég fallizt á hugsun frv., þó því aðeins, að l. séu framkvæmd með mannúð og skilningi á högum og ástæðum þeirra manna, sem l. eiga að bitna á. En ég tel, að ekki sé séð fyrir því í þessu frv. Eftirlaunakjör embættismanna eru svo léleg, að þess er ekki að vænta, að menn geti komizt af með þann styrk, og því tel ég sjálfsagt, að veittur sé nokkur frestur á framkvæmd l., svo að þeir menn, sem þetta á að koma fram við, fái frest til þess að undirbúa sig undir að sjá sér farborða, eftir því sem unnt er. Ég tel þess vegna rétt að bera fram brtt. við frv., sem hnígur í þá átt, að fresta framkvæmd l. til 1. jan. 1937, og vil ég leyfa mér að afhenda hæstv. forseta hana, í þeirri von, að hann leiti afbrigða fyrir henni, þar sem hún er skrifl. og ekki borin fram með nægum fyrirvara.

Ég skal játa, að ég tel þann frest of stuttan, sem brtt. fer fram á, því það er varla viðeigandi styttri frestur en 5 ár frá því að l. ganga í gildi. En ég vildi sjá, hvaða undirtektir þessi hugmynd fær, og ef hún verður samþ., þá mætti athuga milli umr., hvort samkomulag gæti orðið um að hafa frestinn lengri, hvort sem það nú verða 5 ár eða skemmri tími. Mér finnst þetta sanngirnismál, og ég er sannfærður um, að embættismennirnir sætta sig betur við löggjöfina, ef þessi brtt. verður samþ. En það er augljóst, að það getur ekki verið höfuðatriði, hvort l. koma til framkvæmda á þessu ári eða nokkru síðar. Mér skilst, að það muni vera aðalatriðið fyrir hæstv. stj., að því sé slegið föstu, að svona skuli það vera framvegis. Ef þess er að vænta í nokkru máli, að stj. og stuðningsmenn hennar fáist til viðtals um sanngjarnlega lausn að nokkru máli, þá ætti það að vera í þessu máli. Þetta mál er þannig vaxið, að hér kemur til greina almenn mannúðartilfinning, og ég ætla, að hæstv. stj. og stuðningsmenn hennar séu gæddir henni nægilega mikilli til þess, að þeir geti tekið þetta mál til sanngjarnlegrar afgreiðslu.