19.12.1934
Neðri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2645 í B-deild Alþingistíðinda. (3573)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Héðinn Valdimarsson:

Ég ætla ekki að fara að hjálpa sjálfstæðismönnum til þess að halda áfram málþófinu með því að fara að taka upp umr. um. efni frv., sem þegar er orðið mjög þrautrætt í þinginn. En ég flyt hér 2 brtt., sem ég vildi aðeins minnast á. Fyrri brtt. miðar að því, að ráðh. þurfi ekki að láta þá embættismenn, sem sleppa eiga embættum sínum samkv. ákvæðum þessara laga, fara 1. dag næsta mánaðar eftir að þeir hafa átt afmæli. Heldur fái ráðh. heimild til þess að þurfa ekki að láta þá fara fyrr en síðar á árinn, þegar hagkvæmara er vegna mannaskipta. Þannig yrði t. d. um kennara, að þeir færu ekki frá nema að vori eða hausti. — Þá er 2. brtt. Hún er þess efnis, að 4. gr. frv. falli niður. En sú gr. frv. kveður svo á, að lög þessi öðlist þegar gildi. Með því að fella gr. þessa úr frv. myndu lögin eðlilega ekki öðlast gildi fyrr en á venjulegan hátt, eða 12 vikum eftir staðfestingu, og þá myndi komið nokkuð fram undir vorið, og því verða nokkur frestur til umhugsunar fyrir þá menn, sem þegar eiga að sleppa embættum sínum. — Ég leyfi mér svo að vænta þess, að brtt. þessar verði samþ. og að tími vinnist til að ganga frá málinu í Ed.